ÍSOR haslar sér völl í jarðvarma á Indlandi

„Við höf­um verið að vinna að verk­efni með stóru ind­versku olíu­fyr­ir­tæki sem heit­ir Oil and Natural Gas Corporati­on, ONGC, sem er rík­is­olíu­fé­lag á Indlandi og sinnt ráðgjöf sem miðar að því að staðsetja og hanna bor­hol­ur, ásamt því að vera með eft­ir­lit með bor­un og þess hátt­ar,“ seg­ir Daði Þor­björns­son jarðfræðing­ur en hann er verk­efn­is­stjóri ÍSOR á Indlandi, Íslenskra orku­rann­sókna.

ÍSOR hef­ur verið að hasla sér völl á Indlandi í ráðgjöf til fyr­ir­tækja í verk­efn­um sem snúa að nýt­ingu jarðvarma. Á Indlandi er víða jarðhita að finna og tals­verðir mögu­leik­ar eru tald­ir á nýt­ingu hans.

Skil­greind hafa verið mörg jarðhita­svæði og ind­versk olíu­fyr­ir­tæki eru t.a.m. að skoða mögu­leika á nýt­ingu jarðhit­ans, bæði á svæðum þar sem þegar hafa verið boraðar hol­ur til olíu­leit­ar sem og á nýj­um svæðum.

Nán­ar má lesa um málið í Morg­un­blaðinu og í eldri frétt á vef ÍSOR hér

Eldgos við Litla-Hrút og jarðskjálftavöktun á ÍSOR

ÍSOR hefur unnið með Tékknesku vísindaakademíunni í Prag frá árinu 2013, en akademían hefur rekið 17 jarðskjálftamæla á Reykjanesskaga í samvinnu við ÍSOR. Jarðskjálftamælanetið, sem kallast REYKJANET, þekur skagann nokkuð vel allt að Geitafelli í austri, sjá græna þríhyrninga á mynd. Þessir mælar hafa skráð jarðskjálfta á Reykjanesskaga samfellt síðustu árin, ásamt mælum Veðurstofu Íslands á skaganum (bláir þríhyrningar á mynd). Samvinna ÍSOR og Tékkanna síðustu 2 árin hefur farið fram innan EES styrkta rannsóknarverkefnisins NASPMON, en innan þess voru m.a. allir jarðskjálftamælarnir settir í rauntímastreymi. Til að fá betri upplausn á jarðskjálftastaðsetningum til náttúruvárvöktunar vegna jarðhræringanna sem hófust í febrúar 2021 var byrjað að streyma jarðskjálftagögnum frá 8 af 17 jarðskjálftamælum í REYKJANETI til Veðurstofunnar frá ÍSOR. Þetta er gert með sérstöku samkomulagi vegna náttúruvárvöktunar, og samanlagt hafa þessar mælistöðvar gegnt lykilhlutverki náttúruvárvöktunar á Reykjanesskaga frá því að umbrot hófust, og eins til frekari skilnings á því hvað þarna er í gangi.
Á þessum umbrotatímum hefur einn mælir, FAF austan Fagradalsfjalls, verið ómetanlegur í náttúruvárvöktun sökum staðsetningar sinnar, bæði upp á nákvæmari staðsetningu jarðskjálfta og ekki síður til vöktunar á gosóróa (sjá mynd). Nú stefnir hraunstraumurinn í yfirstandandi eldgosi hins vegar beint á FAF, svo að við reynumst nauðbeygð til þess að fjarlægja stöðina í samvinnu við Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands. Hennar verður sárt saknað! Á meðfylgjandi óróagrafi af FAF frá Veðurstofu Íslands sést vel hvenær annars vegar jarðskjálftahrinan sem fylgdi kvikuhreyfingunum hófst, og svo hvenær eldgos hófst í gær, þann 10. júlí kl. 16:40.
Á meðfylgjandi mynd eru einnig sýndar sjálfvirkar jarðskjálftastaðsetningar kvikugangsins og gikkskjálftum austan Keilis (rauðir punktar), reiknaðar í nær-rauntíma á ÍSOR, sem hóf framrás sína þann 4. júlí og náði til yfirborðs í eldgosi við Litla-Hrút í gær, þann 10. júlí.

Verkefni ÍSOR og samstarfsaðila í Indlandi

Eins og hefur áður komið fram, hefur ÍSOR ásamt samstarfsaðilunum Verkís og Techon India, verið að vinna að verkefnum undanfarið í Indlandi (https://isor.is/isor-og-verkis-toku-thatt-i-ferd-utanrikisraduneytisins-til-indlands/).
Einn af viðskiptavinum ÍSOR á Indlandi er eitt af stærstu olíufyrirtækjum Indlands, ONGC (Oil- and Natural Gas Corporation Limited – https://ongcindia.com), en það fyrirtæki er nú farið að kanna möguleika á jarðhitanýtingu víða á Indlandi.
ÍSOR og Verkís, ásamt Techon, eru einnig í samningaviðræðum við annan aðila í Indlandi sem hefur svipuð áform.
Í eftirfarandi frétt, á vefmiðlinum ThinkGeoEnergy (www.thinkgeoenergy.com), má lesa um þessi áform ONGC.
https://www.thinkgeoenergy.com/ongc-updates-on-geothermal-development-work-in-india/

ÍSOR áfram í óbreyttri mynd

Undanfarið ár hefur farið fram skoðun á því hvort og þá með hvaða hætti, mætti sameina tilteknar undirstofnanir Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. 

Forsagan er sú að við myndun síðustu ríkisstjórnar varð fyrrgreint ráðuneyti til en undir það heyra fjölmargar stofnanir, starfsfólkið telur vel á sjöunda hundrað og er dreift víða um land. Það blasti því við að skynsamlegt var að kanna hvort og þá með hvaða hætti mætti auka slagkraftinn, einkum með tilliti til þeirra fjölmörgu verkefna sem snúa að loftslagsmálum.

Eftir talsvert mikla vinnu á vegum ráðuneytisins var sett fram tilgáta sem gerði ráð fyrir sameiningum fjölda stofnana í þrjár. Ein þeirra nefnd „Náttúruvísindastofnun“ þar sem til greina kom að sameina Veðurstofu, Náttúrufræðistofnun, Rannsóknastöðina við Mývatn, Landmælingar og mögulega ÍSOR. Raunar var allt frá upphafi framsetningar þessarar tilgátu hafður skýr fyrirvari um það af hálfu ráðuneytisins að vegna sérstöðu ÍSOR í þessu samhengi, m.t.t. rekstrarforms og eðlis verkefna, yrði það kannað sérstaklega hvernig best mætti tryggja að ÍSOR gæti áfram þjónustað sína helstu viðskiptavini, s.s. orku- og veitufyrirtæki landsins ásamt stjórnvöldum.

Nú hefur ráðuneytið komist að niðurstöðu um að ÍSOR verði ekki sameinað öðrum í stærri A-hluta stofnun. Það er í samræmi við álit stjórnar ÍSOR, meirihluta starfsfólks og stjórnenda.

Með þeirri ákvörðun er óvissu um stöðu ÍSOR eytt og starfsemin heldur áfram óbreytt.

ÍSOR fagnar 20 ára afmæli

Þann 1. júlí 2023, fagnaði ÍSOR 20 ára afmæli. Það var á þeim degi árið 2003 sem ný lög tóku gildi um Íslenskar orkurannsóknir og ný stofnun tók við verkefnum sem í áratugi höfðu verið á hendi Orkustofnunar og frá 1997 Rannsóknasviðs hennar. ÍSOR byggir því á traustum grunni sem lagður var af hópi sérfræðinga sem braut blað í sögu jarðhitanýtingar á Íslandi með rannsóknum og ástríðu sinni fyrir þeim. Nú 20 árum síðar stendur starfsfólk ÍSOR ásamt heimsbyggðinni allri frammi fyrir nýjum áskorunum, m.a. í orkumálum og loftslagsmálum. Það er ljóst að jarðvísindaleg þekking ÍSOR og hagnýting hennar, ásamt reynslu, þekkingu og gögnum fyrri kynslóða munu verða grundvöllur farsælla lausna og ákvarðana sem leiða okkur áfram til bjartrar framtíðar. Starfsfólk ÍSOR heldur ótrautt áfram á þeirri vegferð, undir slagorðinu “Sjálfbærni í verki”.

Umfangsmiklar rannsóknir á jarðskorpu Íslands og jarðhitaleit

Nú í ágúst hefjast umfangsmiklar rannsóknir á jarðskorpunni undir Íslandi. Til landsins kemur hópur frá Jarðvísandaháskólanum í Wuhan í Kína (CUG). Gera á mælingar á eðlisviðnámi/rafleiðni djúpt í jörðu undir Norðausturlandi (grænir pinnar á meðfylgjandi mynd) með svokölluðum MT-mælingum og tekur ÍSOR taka þátt í verkefninu (gegn greiðslu frá CUG). Um er að ræða fimm ára verkefni þar sem gera á slíkar mælingar og rannsaka jarðskorpuna undir öllu landinu.


Fyrir hartnær hálfri öl, þegar fyrst voru gerðar MT-mælingar hér á landi (í samvinnu Háskólans í Köln í Þýskalandi og Orkustofnunar), kom í ljós að undir mest öllu landinu er lag með mikla rafleiðni (lágviðnámslag) á 8-15 km dýpi. Það var túlkað sem hlutbráðið berg undir þunnri of heitri jarðskorpu. Seinni rannsóknir (jarðsveiflu-, skjálfta- og þyngdarmælingar) benda hins vegar til þess að skorpan sé u.þ.b. tvöfalt þykkari og, til þess að gera, „köld“. Eftir standa spurningar eins og: Hvað er þetta lágviðnámslag og hvað getur það kennt okkur um innri gerð, uppruna og þróun jarðskorpunnar undir Íslandi?


Þegar ÍSOR hóf að beita MT-mælingum jarðhitarannsóknum (2005), kom í ljós að djúpa lágviðnámslagið hvelfist staðbundið upp, á um 2-4 km dýpi, undir háhita- jarðhitakerfum, nema á utan verðum Reykjanesskaga. Þar er það er ekki til staðar. Lágviðnámslagið, hvelfist einnig upp frá 15-20 km og upp á 5-6 km dýpi undir lághitasvæðinu í Eyjafirði, sunnan Akureyrar, eina lághitasvæðinu sem kannað hefur verið með MT-mælingum. Þetta vekur spurningarnar: Er samhengi milli dýpis á lágviðnámslagið og jarðhita? Getur kortlagning á lágviðnámslaginu bent á dulin jarðhitakerfi?

ÍSOR stefnir að því, í samvinnu við Norðurorku, HÍ og fjóra erlenda háskóla, að takast á við þessar spurningar og hvað kunni að valda góðri rafleiðni í laginu. Skilgreint hefur verið verkefni þar sem kanna á lágviðnámslagið í meiri smáatriðum en í CUG verkefninu, með þéttari MT-mælingum og þyngdar- og segulmælingar, á mælilínum yfir þekkt jarðhitasvæði á Norðurlandi, Rauðar línur á meðfylgjandi mynd sýna mælilínur sem kostaðar verða af verkefninu. Norðurorka mun kosta viðnámsmælingar á grænu og bláum línunum. Ef kerfisbundið samband finnst milli jarðhita og lágviðnámslagsins kann að vera fundin ný aðferð til leitar að jarðhita, bæði háhita innan gosbelta og lághita á svæðum þar sem líti sem engin ummerki eru á yfirborði. Slíks eru dæmi, t.d. í Helgafellssveit.

ÍSOR hefur sótt um styrk til RANNÍS vegna verkefnisins.

Vindorka á hafi

Sérfræðingar ÍSOR tóku þátt í vinnu stýrihóps sem Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið fól m.a. að taka saman upplýsingar um hagkvæmni orkuframleiðslu á hafi og mögulega þróun hennar. Í útgefinni skýrslu hópsins eru í fyrsta sinn sérfræðingar á ýmsum þverfaglegum sviðum að taka saman gögn og upplýsingar fyrir heildræna greiningu um málefni orkuvinnslu á hafi. Gagnasöfn sem ÍSOR hefur aflað, varðveitt og unnið með í ýmsum hafsbotnsrannsóknum reyndust afar mikilvæg í þeirri vinnu og ljóst er að hlúa þarf að þessum málaflokki til framtíðar.
Hafsbotnsvefsjá ÍSOR er aðgengileg á: https://arcgisserver.isor.is/ocean/
Skýrsluna má finna á vef Stjórnarráðsins:

ÍSORÐ – fjórði viðburðurinn sem ÍSOR býður upp á.

Það er komið að næsta ÍSORÐ-i, röð viðburða sem ÍSOR hrinti af
stað 2022.

ÍSORÐ ið fer fram á netinu og er öllum boðin þátttaka,
almenningi, fjölmiðlum og fræðasamfélagi.
Að þessu sinni verður fjallað um sjálfbærni jarðhitanýtingar og mun fundurinn fara fram miðvikudaginn 31. maí, kl. 13:15

Jón Einar Jónsson, forðafræðingur hjá ÍSOR, í samvinnu við Guðna Axelson, skólastjóra Jarðhitaskólans og  forðafræðing, mun fjalla um sjálfbærni jarðhitanýtingar og útlista hvers vegna nauðsynlegt sé að stilla nýtingunni í hóf þannig að auðlindirnar hafi tækifæri til að endurnýja sig. Lykillinn að því að finna rétta jafnvægið í nýtingu er öflugt og gott eftirlit til að tryggja að varlega og skynsamlega sé farið með auðlindina og að hún sé nýtt á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt.

Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi stöðu hitaveitna á Íslandi, eins og kemur fram í nýútgefinni skýrslu um stöðu hitaveitna í landinu, sem ÍSOR vann fyrir  Umhverfis –, orku og loftslagsráðuneyti. 

https://www.stjornarradid.is/library/02 Rit skyrslur og skrar/URN/230430_URN_Hitaveitur_Web.pdf

Okkur þætti vænt um að sjá þig á Teams og langar að bjóða þér að hitta okkur og hlýða á erindi Jóns Einars, miðvikudaginn 31. maí, kl. 13:15. Að erindi loknu verður boðið upp á umræður og spurningar.

Smellið á hlekkinn hér til að sjá upptöku frá fundinum

Kveðja, ÍSOR

Tæknimanneskja í borholumælingum

Í ljósi vaxandi umsvifa leitar ÍSOR að metnaðarfullum einstaklingi í starf tæknimanneskju í borholumælingum.

 

Helstu verkefni:

 • Borholumælingar
 • Sinna viðhaldi, viðgerðum, þróun og endurbótum á búnaði tengdum rekstri borholumælinga
 • Umsjón með prófunum og kvörðunum tækja í samræmi við skilgreind gæðaferli
 • Umsjón með bifreiðum ÍSOR
 • Innkaup og samskipti við birgja

 

Menntunar- og hæfniskröfur:

 • Iðn- eða tæknimenntun eða sambærileg menntun eða reynsla sem nýtist í starfi
 • Æskilegt að viðkomandi hafi reynslu af viðhaldi tækja
 • Meirapróf og vinnuvélapróf æskilegt
 • Frumkvæði og öguð vinnubrögð
 • Lipurð í mannlegum samskiptum

 

Við bjóðum:

 • Þátttöku í fjölbreyttum verkefnum
 • Góðan hóp samstarfsfólks
 • Nútímalega vinnuaðstöðu
 • Fjölskylduvænan vinnustað með sveigjanlegan vinnutíma

 

Um er að ræða 100% starf hjá ÍSOR í Kópavogi. Starfið getur falið í sér vinnu á landsbyggðinni, erlendis og langa vinnudaga á köflum. Við ráðningar er tekið mið af jafnréttisáætlun ÍSOR og hvetjum við öll kyn til að sækja um. Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags.

 

Umsóknarfrestur er til og með 6. júní 2023. Umsóknir geta gilt í hálft ár frá því að umsóknarfrestur rennur út.

 

Nánari upplýsingar um starfið veitir Steinþór Níelsson, sviðsstjóri Nýtingar [email protected].

 

ÍSOR leggur áherslu á jöfn tækifæri starfsfólks, ánægða og árangursmiðaða liðsheild og framþróun. Metnaður ÍSOR er að vera í fararbroddi þekkingar á sviði sjálfbærrar nýtingar jarðrænna auðlinda og virðisskapandi lausna sem miða að því að koma jörðinni og fólki til góða.

 

Aðalstöðvar ÍSOR eru í Kópavogi og starfsstöð er á Akureyri.

Sækja um starfið

Jarðhitavirkni undir hringvegi

Vart hefur orðið við aukna jarðhitavirkni undir þjóðveginum í Hveradalabrekku við Skíðaskálann í Hveradölum. Vegna sérþekkingar og reynslu ÍSOR á kortlagningu jarðhita og reynslu af umhverfiseftirliti vorum við fengin til ráðgjafar fyrir Vegagerðina sem fylgist nú grannt með ástandi vegarins.

Sjá hér á vef Vegagerðarinnar