Skip to content

Staðall fyrir jarðfræðikort

Fyrstu drög að staðli fyrir jarðgrunnskort á Íslandi voru sett fram á Orkustofnun 1978. Á árunum 1980-1990 var staðallinn í stöðugri þróun eftir því sem reynslan við slíka kortagerð varð meiri. Landupplýsingakerfið ArcInfo var tekið í notkun á Orkustofnun 1992-1993 og frá 1997 hafa öll jarðfræðikort verið unnin stafrænt. Við þessa breytingu tók staðallinn enn frekari stakkaskiptum og sú útgáfa er hér birtist miðast við stafræna kortagerð í landupplýsingakerfinu ArcInfo.

Staðallinn er byggður upp af aðalmerkingum og aukamerkingum sjá nánar pdf skjalinu: stadall_fyrir_jardgrunnskort.pdf.

Aðalmerkingar sýna meginatriði og ná til alls hins kortlagða svæðis. Þær eru tvenns konar: annars vegar þekjandi litir fyrir setgerð og óhulið berg og hins vegar línur og tákn fyrir staðbundin landform sem oft eru sýnd í úrvali.

Aukamerkingar veita viðbótarupplýsingar þar sem þær eru fyrir hendi og þurfa þykir. Þær sýna nákvæmari flokkun sets, eins og ásýnd, kornastærð eða þykkt þar sem hún er þekkt.

Númer fyrir liti, línur og tákn vísa í söfn ÍSOR.

Aðalmerkingar

Þekjandi litir fyrir setgerð, sem aðgreina hinar mismundandi korteiningar á grundvelli uppruna setsins. Hver setgerð er það að auki auðgreind með ákveðinni áletrun þ.e. bókstafatákni.

Þekjandi litir fyrir óhulinn berggrunn og nútímahraun. Einnig auðkennt með áletrun. Tveggja stafa bókstafatákn fyrir berggrunn og þriggja stafa einkenni fyrir nútímahraun.

Tákn og línur fyrir ýmis konar landform. Oft merkt á kort í úrvali.

Aukamerkingar

Svört tákn á lit viðkomandi setgerðar. Merkt þar sem athuganir hafa verið gerðar.

  • Tákn fyrir ríkjandi kornastærðir í seti.
  • Þykkt lausra jarðlaga.
  • Bókstafatákn fyrir laus jarðlög. Má nota til þess að táka smáskellur af seti sem eru of litlar til að hægt sé að sýna útbreiðslu þeirra, á svæði þar sem önnur setgerð eða berggrunnur eru ríkjandi.
  • Bókstafatákn fyrir berggrunn. Má nota til þess að merkja inn einstakar bergopnur á setgrunni.
  • Bókstafatákn fyrir kortlögð nútímahraun.  

Kortastaðall fyrir vatnafarskort

 

Vatnafarskort

Fyrsta íslenska vatnafarskortið var teiknað á Orkustofnun árið 1972. Það var kort Guttorms Sigbjarnarsonar af Þórisvatnssvæði. Staðlar og tákn fyrir vatnafarskort hafa verið að þróast frá þeim tíma og lengst af tekið mið af alþjóðlegum kortum og kortlagningaraðferðum. Helsta fyrirmyndin í byrjun var Alþjóðlegt vatnafarskort af Evrópu (International Hydrogeological Map of Europe 1: 1.500.000) en Íslandshluti þess kom út 1980. OS lét síðan gera íslenskan staðal fyrir vatnafarskort sem kom út árið 1984 (ÁH og FS 1984: Tillögur um staðal fyrir vatnafarskort OS-VOD 1:50.000 ). Staðlarnir hafa tekið all miklum breytingum í áranna rás. Lektarflokkar eru fleiri á íslenskum kortum en á erlendum kortum og einnig hafa mörg ný kortatákn verið innleidd sem helgast af sérstöðu landsins, einkum hvað varðar jarðhita og jökulvötn, eld og ísa. Hægt að nálgast staðalinn í pdf skjali: stadall_fyrir_vatnafarskort.pdf

Landupplýsingakerfið ArcInfo var tekið í notkun á Orkustofnun 1992-1993 og frá 1997 hafa öll vatnafræðikort verið unnin stafrænt. Sú útgáfa er hér birtist af staðli vatnafarskorta miðast við stafræna kortagerð í landupplýsingakerfinu ArcInfo.

Staðallinn er samsettur úr fimm flokkum merkinga:

  • Lektarmynd sem sýnir lektargildi jarðlaganna. 
  • Skraveringar sem sýna jarðlög við yfirborð. 
  • Almenn jarðfræðitákn sem einkum varða höggun og eldvirkni. 
  • Vatnafarstákn sem sýna t.d. lindir, –  jarðhita, yfirborðsvatnaskil, grunnvatnsskil, jarðsjó og margt fleira. 
  • Mannvirki, einkum viðkomandi vatnafari, vatnafarsrannsóknum og vatnsnýtingu s.s. vatnsból, borholur, vatnshæðarmælar, vatnsaflsstöðvar, sundlaugar o.fl.