Skip to content

Stefna gegn EKKO

Stefna gegn einelti, áreitni og ofbeldi hjá ÍSOR

ÍSOR vill skapa vinnuumhverfi þar sem starfsfólki líður vel. Einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni og hvers kyns annað ofbeldi (hér eftir nefnt EKKO) er ekki umborið á vinnustaðnum undir neinum kringumstæðum og eru allar ábendingar um slíkt teknar alvarlega.

Forvarnir

Í forvarnarstarfi er lögð áhersla á að skapa aðstæður og menningu sem eykur vellíðan starfsfólks og tryggir öryggi þeirra. ÍSOR hefur sett sér eftirfarandi viðmið um forvarnarstarf EKKO:
• Greina og meta áhættuþætti í vinnuumhverfinu og hafa skriflega áætlun sem er kunnug starfsfólki um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem byggir á áhættumati í samræmi við vinnuverndarlög nr.46/1980.
• Endurskoða skilvirkni aðferða með reglulegu millibili og að loknu EKKO máli ef slíkt kemur upp.
• Þjálfa stjórnendur í EKKO verkferlum og sálrænni skyndihjálp. Stjórnendur þurfa auk þess að sækja endurmenntun á tveggja til þriggja ára fresti.
• Fræða starfsfólk um einkenni, afleiðingar og verkferla EKKO á tveggja ára fresti eða eftir þörfum ef EKKO mál kemur upp á starfsstöð.

Hvað er EKKO?

ÍSOR styðst við skilgreiningar í reglugerð nr. 1009/2015, 3.gr. um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Einelti er endurtekin ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun gagnvart samstarfsfélögum. Birtingarmynd eineltis getur verið neikvæð og/eða ógnandi endurtekin samskipti sem valda vanlíðan hjá samstarfsmanni. Ekki er litið svo á að ágreiningur vegna verkefna, hagsmuna og mismunandi skoðana flokkist sem einelti. Hvernig viðtakandi tekur móðgun eða ótilhlýðilega háttsemi til sín er grundvallaratriði í sambandi við einelti. Því skiptir ekki öllu hvort að baki býr hugsunarleysi eða ákveðinn vilji til að auðmýkja. Hver og einn verður sjálfur að meta hvaða framkomu hann umber, frá hverjum og segja frá sé honum misboðið. Lögð er áhersla á að athæfi þess sem framkvæmir er síendurtekið og varir í lengri tíma ef um einelti er að ræða.

Kynbundin áreitni er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni ef það er alvarlegt.

Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðislega hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Daður telst ekki vera kynferðisleg áreitni nema um ítrekaða og óvelkomna hegðun sé að ræða.

Ofbeldi er hegðun sem getur leitt til líkamlegs eða sálræns skaða. Einnig er hér átt við hótun um ofbeldi, þvingun eða svipting frelsis viðkomandi.

Kynferðislegt ofbeldi er brot gegn kynfrelsi einstaklings sem lýst eru refsiverð í XXII. kafla almennra hegningarlaga.

Kynbundið ofbeldi er ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.