Skip to content

Gufuhverasvæði

Gufuhverir myndast á háhitasvæðum þar sem grunnvatn jarðhitakerfanna (djúpvatnið) er það djúpt að einungis gufa eða gas sem sýður úr því nær til yfirborðs. Gufa og gas sem sýður upp af djúpvatninu blandast yfirborðsvatni, verður að þéttivatni (gufan) eða rýkur burt. Þar verða til heitar skellur með gufu- og leirhverum. Fjölbreytni er mikil meðal þeirra, allt eftir gasinnihaldi í gufunni og því hvernig hún hittir á yfirborðsvatn. Skýr mörk eru ekki nema milli eiginlegra gufuhvera, þar sem ekkert yfirborðsvatn er, og sísjóðandi vatnshvera þar sem mest er af yfirborðsvatni. Leirhverir eru þar á milli.

Flokkun yfirborðsjarðhita  á gufuhverasvæðum:

Brennisteinsþúfur

Brennisteinsþúfur myndast á háhitasvæðum þar sem mikið brennisteinsvetni er í gufunni. Stærstu brennisteinsþúfurnar geta verið 10-20 m að þvermáli og 1-1,5 m háar. Mest er um brennisteinsþúfur á Námafjalli og í Fremrinámum, Kröflu og Krýsuvík. Gifshellur vitna um kulnaða brennisteinshveri.

Finnast: Trölladyngja, Krýsuvík-Seltún-Sveifluháls, Austurengjar, Brennisteinsfjöll, Innstidalur, Hellisskarð, Vonarskarð, Kverkfjöll, Fremrinámur/Heilagsdalur, Hverarönd/Námafjall, Bjarnarflag, Krafla, Þeistareykir

Brennisteinsþúfur við Fremrinámur, Mývatnssveit. Ljósmynd Haukur Jóhennesson.

Hverasölt

Víða á háhitasvæðum falla út hverasölt sem eru mjög auðleyst í vatni og hverfa því í rigningum. Eftir langa þurrviðriskafla eru hverasöltin mjög áberandi og litskrúðug.

Brennisteinsþúfur við Fremrinámur, Mývatnssveit. Ljósmynd Haukur Jóhennesson.

Rauðþúfur

Rauðþúfur í Fremrinámum, Mývatnssveit. Ljósmynd Haukur Jóhannesson.

Rauðþúfur myndast þar sem foksandur sest að gufuaugum og hann límist saman og oxast. Þær stærstu eru 4-5 m að þvermáli og 1-1,5 m háar. Rauðþúfur eru algengar í Fremrinámum.

Rauðþúfur í Fremrinámum, Mývatnssveit. Ljósmynd Haukur Jóhannesson.

Gufuaugu í sandi

Gufuauga í sandi í Fremrinámum, Mývatnssveit. Ljósmynd Haukur Jóhannesson.

Gufuaugu geta myndast í sandi þar sem gufa streymir upp í gegnum lausan foksand. Gufan myndar rakan sandkraga kringum augað. Gufuaugu finnast á nokkrum stöðum í Fremrinámum. Þau þróast e.t.v. í rauðþúfur með tímanum.

Gufuauga í sandi í Fremrinámum, Mývatnssveit. Ljósmynd Haukur Jóhannesson.

Heit jörð eða skellur

Heit jörð, eða skellur með gufuaugum og leirhverum, er algengasta fyrirbæri háhitasvæðanna. Stærðin er allt frá nokkrum fermetrum upp í nokkra hektara. Bergið er sundursoðið í leir og upplitað og einkennandi eru hverasölt kringum gufuopin.
Finnast: Reykjanes, Eldvörp, Sandfell, Trölladyngja, Krýsuvík-Seltún-Sveifluháls, Austurengjar, Nesjavellir/Hagavíkurlaugar, Innstidalur, Hellisskarð, Hverahlíð, Ölkelduháls, Grændalur/Hveragerði, Geysir, Prestahnúkur, Hveravellir, Kerlingarfjöll, Landmannalaugar, Jökulgil, Vestur-Reykjadalir, Austur-Reykjadalir, Ljósártungur, Köldukvíslarbotnar, Vonarskarð, Grímsvötn, Kverkfjöll, Askja, Fremrinámur/Heilagsdalur, Hverarönd/Námafjall, Bjarnarflag, Krafla, Vestursvæði/Sátur, Þeistareykir.

Heit jörð í Hágöngum. Ljósmynd Magnús Ólafsson.

Gufuhverir

Gufuhverir með kröftugum gufustrókum koma fyrir á mörgum háhitasvæðum. Þeir sjást oft langt að og eftir þeim er tekið. Það er svo djúpt á grunnvatnið sem yfir suðumarki leitar til yfirborðs í formi gufu og því verður ekkert vatn sýnilegt á yfirborði. Kröftugustu gufuhverirnir blása þurri gufu, oft með hvæsi (gegnsær strókur næst opinu), yfir 100°C heitri. Nokkur dæmi eru um kröftuga gufuhveri sem nýlega hafa myndast (Dalaskarð ofan Hveragerðis, Lýðveldishverinn í Kröflu) og aðra sem hafa lognast út af eða misst máttinn (Hverinn eini við Trölladyngju).

Sami hverinn getur verið bæði gufu- og leirhver, bara ekki á sama tíma. Í miklum þurrkum getur leirhver þornað upp og orðið að gufuhver.

Í gufunni sem kemur upp á háhitasvæðum eru ýmsar lofttegundir, aðallega kolsýra, vetni og brennisteinsvetni.

Finnast: Trölladyngja, Krýsuvík-Seltún-Sveifluháls, Austurengjar, Nesjavellir/Hagavíkurlaugar, Innstidalur, Hellisskarð, Hverahlíð, Ölkelduháls, Grændalur/Hveragerði, Hveravellir, Kerlingarfjöll, Eyjafjallajökull, Landmannalaugar, Jökulgil, Vestur-Reykjadalir, Austur-Reykjadalir, Ljósártungur, Vonarskarð, Grímsvötn, Kverkfjöll, Krafla.

Gufuhver í Austur-Reykjadölum í Torfajökli. Ljósmynd Magnús Ólafsson.

Yfirhitaðir gufuhverir

Gufuhver í Kerlingarfjöllum. Ljósmynd Magnús Ólafsson.

Yfirhitaðir gufuhverir með mjög kröftugum gufustrókum koma fyrir í Kerlingarfjöllum og Torfajökli. Þeir sjást langt að og eftir þeim er tekið. Þeir kröftugustu blása þurri gufu, oft með háværu hvæsi (gegnsær strókur næst opinu). Steinar geta flotið í gufustróknum næst opinu. Hiti hefur mælst allt að 150°C.

Gufuhver í Kerlingarfjöllum. Ljósmynd Magnús Ólafsson.

Leirhverir

Leirhverir eru sjaldnast einir og sér. Þeir finnast innan um skellurnar í heitri jörð á háhitasvæðum og oftast sem leirpyttaklasar. Til að þeir myndist þarf hæfilega mikið yfirborðsvatn, jafnvel nægir þéttivatnið eitt. Leirinn samanstendur af vatni og soðnu, umbreyttu bergi. Þykkt leðjunnar í þeim fer eftir framboði á yfirborðsvatni. Mishátt getur staðið í þeim eftir úrkomu. Oft eru þeir afrennslislausir en stundum rennur sytra frá þeim. Algengt er að gufubólur springi í leirhverum og kragi hlaðist upp umhverfis þar sem sletturnar koma niður.

Litur leirhvera er mismunandi eftir hvaða steindir og efnasambönd eru ríkjandi í leirnum. Algengast er að finna gráleitan hveraleir en grái liturinn stafar af leirsteindum. Gulur hveraleir stafar af brennisteini en járnsambönd gera leirinn brúnleitan.
Finnast: Reykjanes, Trölladyngja, Krýsuvík-Seltún-Sveifluháls, Austurengjar, Nesjavellir/Hagavíkurlaugar, Innstidalur, Hellisskarð, Ölkelduháls, Grændalur/Hveragerði, Hveravellir, Kerlingarfjöll, Landmannalaugar, Jökulgil, Vestur-Reykjadalir, Austur-Reykjadalir, Ljósártungur, Vonarskarð, Kverkfjöll, Askja, Hverarönd/Námafjall, Krafla, Þeistareykir.

Leirhver á Torfajökulssvæðinu. Ljósmynd Magnús Ólafsson.

Soðstampar

Soðstampar eru sísjóðandi vatnshverir með næstum tæru vatni og litlu afrennsli. Þeir sjóða ákaflega. Stundum eru þeir í hvelfingum á lagskilum þar sem grunnvatn leitar að. Margir hverir af þessari gerð eru á Torfajökulssvæðinu.

Soðstampar á Torfajökulssvæðinu. Ljósmynd Magnús Ólafsson.

Soðpönnur

Soðpönnur eru grunnir hverir með næstum tæru vatni þar sem bullsýður í ótal smáaugum í botninum, svipað og suða í potti. Smárennsli er jafnan úr slíkum hverum. Soðpönnur eru algengar á háhitasvæðum.

Soðpönnur á Torfajökulssvæðinu. Ljósmynd Magnús Ólafsson.

Sortulækir

Sortulækir eru kolsvartir lækir sem að líkindum eru ríkir af járni. Þeir eru nokkuð áberandi í Vonarskarði en finnast víðar. Sortulækir gætu verið fyrirbæri sem myndar hverajárn.
Sortulækur á jarðhitasvæðinu í Vonarskarði. Ljósmynd Haukur Jóhannesson.

Volg jörð

Volg jörð er algeng á háhitasvæðunum þar sem jarðgerð er hagstæð fyrir varmaútstreymi, t.d melar eða annað gropið berg. Hér getur verið um stóra bletti að ræða, tugi fermetra og þar yfir. Lítið ber á þeim að sumri til, nema ef gróður er einhver, en best sjást þeir að vetri þegar snjó bræðir af þeim.

 

Heit leirflög

 

Heit leirflög nefnast afbræðslusvæði á háhitasvæðum þar sem jarðhitinn hefur soðið berg í leir. Þannig háttar víða til á háhitasvæðum, m.a. í suðurhlíðum Kröflu. Þau eru að öðru jöfnu gróðurlaus.

Heitt leirflag á háhitasvæðinu í Vonarskarði. Ljósmynd Haukur Jóhannesson.

Lækjargosar

Lækjargosar eru fyrirbæri þar sem smálækur rennur ofan í hveraop þar til út af flóir. Í því kraumar smástund uns hverinn gýs vatninu úr sér og tæmist. Um 10 mínútur líða á milli gosa. Nafngiftin er frá Guðmundi Ómari Friðleifssyni jarðfræðingi en svo nefndi hann hver einn í Vondugiljum á Torfajökulssvæðinu. Annar slíkur hver er innarlega í Grænagili á sama svæði. Hver í Hrafntinnuskeri, sem nú nefnist Fordyrið, er einnig af þessari gerð.

Finnast: Landmannalaugar, Austur-Reykjadalir.

Jarðhitahverinn Lækjargosi á Torfajökulssvæðinu. Ljósmynd Magnús Ólafsson.

Gufuhitaðar laugar

Gufuhitaðar laugar eru algengar á háhitasvæðum þar sem skriður hafa lagst yfir heita jörð. Skriðurnar eru ágætis grunnvatnsleiðarar (raunar falskir). Gufa af djúpvatni kemur upp og þá hitnar yfirborðsvatnið og fram koma laugar neðan til í skriðunum. Nærtækt dæmi er í Grændal en laugar af þessum toga eru einnig í Hengli, Torfajökli, Vonarskarði og víðar.

Finnast: Trölladyngja, Krýsuvík-Seltún-Sveifluháls, Austurengjar, Nesjavellir/Hagavíkurlaugar, Innstidalur, Grændalur/Hveragerði, Prestahnúkur, Hveravellir, Landmannalaugar, Austur-Reykjadalir, Vonarskarð, Krafla, Suðursvæði/Hvíthólar.

Gufuhituð laug í Grændal ofan við Hveragerði. Ljósmynd Magnús Ólafsson.