Skip to content

Saga ÍSOR

 

Starfsemi ÍSOR við rannsóknar- og ráðgjafarþjónustu má rekja tæpa átta áratugi aftur, eða til ársins 1945. Nafnið ÍSOR, eða Íslenskar orkurannsóknir, varð til árið 2003 þegar ÍSOR varð sjálfstæð stofnun. Hér verður forsaga ÍSOR nánar rakin.

Hitamæling við borholu G-3 í Ölfusdal á sjötta áratugnum

1945

Rannsóknarsaga ÍSOR hófst þegar dr. Gunnar Böðvarsson verkfræðingur kom frá námi. Hann var ráðinn til jarðhitarannsóka hjá Rafmagnseftirliti ríkisins sem síðar varð Raforkumálaskrifstofan. Gunnar einbeitti sér að grunnrannsóknum á fyrstu árum sínum í starfi, jafnframt því að innleiða jarðeðlisfræðilegar aðferðir til jarðhitaleitar.

1946

Raforkumálastjóraembættið stofnað með sérstakri löggjöf. Þar með var fyrsta heildarstefnan mótuð í raforkumálum á Íslandi.

1956

Jarðhitadeild embættis raforkumálastjóra sett á laggirnar. Gunnar Böðvarsson varð forstöðumaður til ársins 1964. Á fimmta og sjötta áratugnum beindust rannsóknirnar deildarinnar mjög að möguleikum til raforkuframleiðslu úr jarðhita samhliða jarðhitaleit til hitaveitna.

1964

Guðmundur Pálmason eðlisverkfræðingur tekur við sem deildarstjóri jarðhitadeildar raforkumálastjóra, síðar Orkustofnun. Á sjötta og sjöunda áratugnum jókst starfsemi jarðhitadeildarinnar verulega. Jarðhita- og vatnsorkudeild sinntu öllum helstu grunnrannsóknum á sviði jarðvísinda, landmælinga, mannvirkjajarðfræði, vatnafræði og jarðfræði hafsbotnsins. Á þessum árum komu til starfa
margir þeirra sem urðu frumkvöðlar í íslenskum jarðvísinda- og orkurannsóknum og má þar sérstaklega nefna þá Kristján Sæmundsson, Gunnar Þorbergsson, Sveinbjörn Björnsson og Jens Tómasson.

1967

Orkustofnun stofnuð með nýjum orkulögum og embætti raforkumálastjóra lagt niður. Hlutverk Orkustofnunar var frá upphafi að veita stjórnvöldum ráðgjöf á sviði orkumála jafnframt því að sinna orkurannsóknum, einkum í jarðhitamálum og við nýtingu vatnsafls. Jafnhliða hafði Orkustofnun sinnt alhliða rannsóknum á sviði jarðvísinda og í reynd verið helsta jarðvísindastofnun landsins og ein þekktasta jarðhitarannsóknastofnun heims. Á árunum 1967-1982 voru lengst af tvær stórar rannsóknadeildir á Orkustofnun, Jarðhitadeild og Raforkudeild, en Jarðkönnunardeild bættist við 1971. Snemma á níunda áratugnum runnu Raforkudeild og Jarðkönnunardeild sama í Vatnsorkudeild.

1970

Um 1970 urðu straumhvörf í orkurannsóknum á Íslandi. Hafin var mikil uppbygging í virkjun vatnsfalla með tilheyrandi undirbúningsrannsóknum. Mikil hækkun á heimsmarkaðsverði á olíu leiddi af sér mikla hækkun á húshitunarkostnaði landsmanna
en meirihluti þeirra notaði olíu til upphitunar. Stjórnvöld tóku þá skynsamlegu ákvörðun að útrýma olíu í húshitun með innlendum, endurnýjanlegum orkugjöfum, jarðhita þar sem það væri unnt og vatnsorku. Ríkið lagði verulegt fé í þessar rannsóknir og fjöldi ungs fólks, jarðfræðingar, eðlisfræðingar og verkfræðingar, var ráðinn til starfa á áttunda áratugnum. Þessi hópur er enn kjölfestan í sérfræðingahópi ÍSOR.

1970-80

Samhliða auknum framförum í jarðhitarannsóknum hófst mikil samvinna við erlenda rannsóknarstofnanir, háskóla og fyrirtæki um rannsóknir og leit að hagstæðum skilyrðum til myndunar olíu- og gaslinda á sjávarbotni. Byggður var upp þekkingarkjarni í olíu- og hafsbotnsjarðfræði sem leiddi til þess að á Jan Mayen hryggnum og í settrogi undan Norðurlandi fundust vissar forsendur til myndunar olíu- og gaslinda. Þessar rannsóknir hafa nú leitt til þess að búið er að úthluta leitarleyfi til olíurannsóknarfyrirtækja á hluta Jan Mayen hryggjarins.

1997

Rannsóknasvið Orkustofnunar varð til þegar jarðhitadeild og vatnsorkudeild voru sameinaðar. Ólafur G. Flóvenz var ráðinn forstöðumaður. Næstu ár einkenndust af vaxandi áhuga á háhitavirkjunum og rannsóknum til undirbúnings þeim. Jafnframt urðu miklar framfarir í jarðhitaleit og forðafræði sem byggðust á þróunarvinnu stofnunarinnar. Má þar til dæmis nefna tilraunir með niðurdælingu á lághitasvæðum sem skipt hafa miklu við rekstur sumra hitaveitna.

2003

1. júlí 2003 voru Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) stofnaðar sem sjálfstæð ríkisstofnun. Fyrstu fimm starfsárin einkenndust af mikilli uppbyggingu háhitavirkjana og starfsmannafjöldinn fór yfir 90 manns. ÍSOR kom sér á þessum tíma upp miklum og góðum tækjakosti til rannsókna og mælinga og safnaði rekstrarafgangi í sjóði til mögru áranna. Nú starfa hjá ÍSOR um 54 manns.

Við Torfajökul
Við Torfajökul. Mynd: Magnús Ólafsson.