Skip to content

Jarðhitasvæðið á Þeystareykjum

Jarðhitasvæðið á Þeistareykjum er í tengslum við virka megineldstöð. Um hana gengur sprungukerfi sem stefnir nánast N-S, um 4-5 km breitt og nær frá Mývatni í suðri og norður til sjávar vestast í Kelduhverfi. Sprungukerfið er lítið eldvirkt en stórir jarðskjálftar eru fremur algengir innan þess. Upphleðsla hrauna hefur þó verið allmikil en yngsta hraunið, Þeistareykjahraun, er 2.700 ára gamalt og liggur yfir Stóravítishraun, 2 km breitt frá vesturjaðri jarðhitasvæðisins vestan Bæjarfells norður undir Grísatungufjöll.

Jarðhitasvæðið á Þeistareykjum. Ljósmynd Brynja Jónsdóttir.

Jarðhitasvæðið er á sunnanverðri Reykjaheiði milli Lambafjalla í vestri og Þeistareykjabungu í austri, að stórum hluta á flatlendi í um 300 m hæð. Yfirborðshiti nær þó í 530 m hæð í Bæjarfjalli og tæplega 500 m hæð í Ketilfjalli. Næsta umhverfi jarðhitasvæðisins er þakið hraunum sem aðallega hafa runnið á nútíma. Virkur jarðhiti er á um 11 km2 svæði og er virkasta svæðið umhverfis norðanvert Bæjarfjall. Auk þess er ummyndað svæði austan Lambafjalla.

Yfirborðsummerki jarðhita á Þeistareykjum eru dæmigerð fyrir háhitasvæði. Þar má finna bullandi leirhveri, gufuaugu, brennisteinsþúfur og ummyndun. Vatnshverir eru engir.

Heimild: Halldór Ármannsson, ÍSOR.