Skip to content

Útkulnuð fyrirbrigði á háhitasvæðum

Gifshellur og gifskristallar

Gifshellur og -kristallar eru til vitnis um oxun H2S við ummyndun á bergi sem fellir út gifs með uppleystu Ca í vatni. Töluvert er um gifs á virkum gufuhverasvæðum svo sem á Námafjalli, í Kröflu og Krýsuvík.

Gifshellur í Krýsuvík. Ljósmynd Kristján Sæmundsson.

Kísilhrúður

Kísilhrúður finnst á nokkrum hverasvæðum þar sem vatnshverir eru ekki nú, t.d við Hverinn eina, á Reykjanesi og innan við Geysi, eða ofar í landinu en þeir nú þekkjast (t.d. yst í Grændal og ofan við Reyki í Ölfusi). 

Kísilhrúður á Hvítamel. Ljósmynd Kristján Sæmundsson.

Hverajárn

Hverajárn (þ.e. hematít) myndar sundurlausa klumpa á sumum hverasvæðum, oft þar sem virknin er liðin hjá en jafnan þar sem ummyndun er mikil. Merkir fundarstaðir hverajárns eru í Torfajökli, Grændal og Vonarskarði.

Hverajárn í Vonarskarði. Ljósmynd Guðmundur Ó. Friðleifsson.

Kulnaðir hverabollar

Kulnaðir hverabollar eru algengir í köldum leirflögum og skellum, stundum þar sem enginn jarðhiti er nærri, svo sem við Oddnýjarhnjúk og austan undir Rauðfossafjöllum. Allt er þetta ungt og vitnar um hveravirkni á nútíma. Kaldar skellur er að finna á flestum gufuhverasvæðum. Stærsta, kalda leirflagið er í Hrúthálsum.

Kulnaðir hverabollar á Torfajökulssvæðinu. Ljósmynd Guðmundur Ó. Friðleifsson.

Útkulnaðir goshverir

Bollar í kísilhrúðri. Dæmi: Hvítimelur norðan við Geysi og Litli geysir ofan við Hveragerði. 

Útkulnaður hverabolli við Oddnýjarhnjúk á Kili. Ljósmynd Árni Hjartarson.

Köld leirflög

Köld leirflög eru svæði þar sem jarðhiti hefur soðið bergið í leir en eru nú köld. Dæmi um slík flög eru við Oddnýjarhnjúk á Kili, í Hrúthálsum og Leirhóll við Kröflu. 

Leirflag í Hrúthálsum. Ljósmynd Kristján Sæmundsson.

Ummyndun á rofsvæðum

Ummyndun á rofsvæðum kemur fyrir þar sem hveravirkni nær aftur á ísöld og hraun hafa ekki lagst yfir. Á flestum er enn jarðhiti í einhverri mynd. Sogin í Trölladyngju og smádalirnir norður af Hveragerði eru nærtæk dæmi. Sama gegnir um austurhluta Torfajökulssvæðisins, öskjuna í Tindfjöllum og Heilagsdalsfjall vestan megin í Fremrinámakerfinu. Litauðgi er mikil þar sem rofið nær dýpst.

Séð inn eftir Litla-Brandsgili í Torfajökli. Ljósmynd Kristján Sæmundsson.

Yfirborðsummyndun

Yfirborðsummyndun við hærri hita en 250°C þekkist aðeins í Vonarskarði. Þar eru háhitasteindir (epidót o.fl.) í lítt rofnum bólstrabergsöldum (Guðmundur Ómar Friðleifsson og Haukur Jóhannesson fundu). Heita vatnið hefur leitað upp um rásir í bólstraberginu en á milli er bergið ferskt. Enginn jarðhiti er í öldum þessum nú en í öðrum myndunum nærri. Þurft hefur um 400 m vatnsdýpi til að halda suðu niðri við þennan hita.

Yfirborðsummyndun. Brennivínsalda í Vonarskarði. Ljósmynd Guðmundur Ó. Friðleifsson.