Skip to content

Efnagreiningar

Efnagreiningar á vatni, gasi og jarðefnum eru meginsvið jarðefnaþjónustu ÍSOR. Við leggjum metnað í að tryggja viðskiptavinum örugga og faglega þjónustu og vinnum eftir alþjóðlegum stöðlum. Hjá ÍSOR starfar hópur efna-, jarðefna- og jarðfræðinga sem byggt hefur upp sérfræðiþekkingu í sýnatöku og efnagreiningum, einkum fyrir jarðhitaiðnaðinn á Íslandi.

Efnagreiningar á yfirborðsjarðhitavökva geta gefið vísbendingar um líklegan hita í viðkomandi jarðhitakerfi. Efnagreiningar geta einnig gefið hugmyndir um suðuferla, streymisleiðir vökva og uppruna jarðhitavökvans.

Rannsóknarstofa ÍSOR er vel tækjum búin til að efnagreina m.a. jarðhitavatn, kalt vatn, gas og gufu.

Efnagreiningar ÍSOR nýtast

 • jarðhitaiðnaðinum
 • vatnsveitum
 • umhverfis- og mengunarrannsóknum
 • lyfjaiðnaðinum

Rannsóknarstofa ÍSOR er sérútbúin til efnagreininga

 • jarðhitavatn
 • kalt vatn (neysluvatn, grunnvatn og yfirborðsvatn).
 • gas
 • gufa
 • borsvarf
 • útfellingar
 • berg
 • kristalbygging lyfjaefna

Efnagreiningartæki

Rannsóknarstofa ÍSOR er búin fullkomnum tækjum til efnagreininga. Eins er ÍSOR í góðu samstarfi við aðrar rannsóknarstofur í landinu sem og erlendis hvað tækjabúnað og þjónustugreiningar varðar, til dæmis fyrir snefilefni og lífræn efni í vatni og einnig samsætur (t.d. 2H, 13C og 18O).
• Rafgastæki (ICP-OES) greinir málma og hálfmálma í vatnslausn (t.d Si, Na, K, Mg, Ca, Fe, Mn og Al).
• Litrófsmælir er notaður til greininga á kísli, bór og fleiri efnum.
• Jónaskilja (IC) er notuð til mælinga á anjónum í vatni (F, Cl, Br, I, SO4).
• Gasskilja með varmaleiðninema (GC-TCD) greinir magn gastegunda í sýnum frá jarðhitasvæðum en þær eru helstar N2, H2, NH3, Ar, CH4, CO2 og H2S.
• Gasskilja með rafeindi (GC-ECD) greinir magn flúorinnihaldandi gastegunda (SF6, PFC) sem notuð eru sem gufuferilefni á jarðhitasvæðum.
• Flúrljómunarmælir er notaður til greininga á flúrljómandi efnum svo sem flúoresceini og rhódamíni, einkum í tengslum við ferilefnapróf.
• Vökvaskilja með flúrljómunarnema (HPLC-FLD) er notuð til að greina flúrljómandi naftalensambönd sem notuð eru í ferilefnaprófum.
• XRD-tæki (X-ray diffraction). Til greininga á kristalgerð fastra efna, til dæmis útfellingum í lagnakerfum, steindum í bergi, leir í svarfi frá borholum og ýmsu öðru.
• Rafeindasmásjá (SEM), skoðar og greinir uppbyggingu og samsetningu útfellinga og annarra fastra efna. Tækið er á Nýsköpunarmiðstöð.
• Sérútbúinn sýnatökubíll. Rannsóknarstofa ÍSOR á að auki sérútbúinn sýnatökubíl og ýmis smærri efnagreiningatæki.

Gæðakröfur

Við viljum tryggja vönduð vinnubrögð og fagmennsku í allri okkar þjónustu, hvort sem er við sýnatöku eða efnagreiningar. Unnið er eftir alþjóðlegum stöðlum og fylgt aðferðum gæðastjórnunar samkvæmt ISO-9001:2015.

Tengiliður:

Bjarni Gautason
Sviðsstjóri - Vöktun og fræðsla

528 1590
bg(at)isor.is