Skip to content

Afrennsli frá háhitasvæðum

Djúpvatnsblandað afrennsli

Djúpvatnsblandað afrennsli í yfirborðslögum er þekkt frá Námafjalli, þ.e. í gjám og í lindum fram undan Reykjahlíð. Hátt kísilinnihald gefur upprunann til kynna. Líklegt er að volgt vatn sem fram kemur undan hraunum í Kelduhverfi sé afrennsli frá háhitasvæðum á Þeistareykjum og í Gjástykki. Volga vatnslagið er grunnt og kaldara undir. Á Reykjanesskaga er ekki vitað með vissu um djúpvatnsblandað afrennsli. Grunnt, ísalt vatnslag á Húsatóttum og á Reykjanesi (sjólaugin) kann þó að vera þeirrar ættar. Afrennsli frá Hengilssvæði skilaði sér norður í Þingvallavatn.

Finnast: Mývatn

Gufur af heitu grunnvatni

Gufu getur lagt upp af heitum grunnvatnsstraumum í hraunum eða þar sem eru gljúp jarðlög. Best er þetta þekkt vestur og suður frá Jarðbaðshólum í Mývatnssveit. Annað dæmi er á Torfajökulssvæðinu í Dómadalshrauni og norðurendanum á Tjaldfelli þar suðvestur af. Gufan er í þessu tilfellum alveg lyktarlaus. Sama gegnir um gufur í hrauninu syðst og nyrst á Þeistareykjasvæðinu.

Finnast: Reykjanes, Eldvörp, Svartsengi, Sandfell, Trölladyngja, Hveravellir, Landmannalaugar, Austur-Reykjadalir, Köldukvíslarbotnar, Hverarönd/Námafjall, Bjarnarflag, Krafla, Gjástykki, Þeistareykir

Gufur frá heitu grunnvatni við Jarðbaðshóla í Mývatnssveit. Ljósmynd Magnús Ólafsson.