Mannaverk á hverasvæðum
Virkjanir
Virkjanir hafa verið reistar á nokkrum háhitasvæðum. Þrjár þær stærstu eru jafnframt viðkomustaðir ferðamanna þar sem starfsemin er kynnt (Nesjavellir, Svartsengi og Krafla).
Sýningarholur
Blásandi borholur sem draga að ferðamenn. Þrjár hafa verið vinsælastar. Ein var í Krýsuvík (í Seltúni), önnur er ofan við Hveragerði („Drottningarholan“) og sú þriðja í Eldvörpum á Reykjanesskaga.
Blásandi þurrgufuholur
Blásandi þurrgufuholur frá upphafi háhitaborana eru austan við Námaskarð. Grjóti hefur verið hrúgað kringum holutoppana og leggur gufuna þar upp úr.
Fæstir vita að þetta eru gamlar borholur.
Gufusprengingar
Gufusprengingar út frá borholum hafa orðið í Krýsuvík (1999), Bjarnarflagi (1967) og Kröflu (1976). Eftir eru gígbollar nokkrir tugir metra að stærð. Í Krýsuvík sprakk upp gömul borhola í Seltúni þar sem nú er vinsæll viðkomustaður ferðafólks.
Lífgaður goshver
Geysisnefnd stóð fyrir því á sínum tíma (1963) að Strokkur var lífgaður með borun. Borað var 40 m ofan í hann og hefur hann gosið síðan líkt
og nú. Strokkur lifnaði við jarðskjálftann 1789 (fremur þó 1784) en lognaðist út af í skjálftunum 1896. Þegar dregur niður í hvernum sjást leifar af ferhyrndu borplani.
Tilbúinn goshver
Í Hveragerði komust menn upp á lag með að búa til goshveri fyrir 1940. Þessir tilbúnu goshverir voru borholur á hverasvæðinu (Túristaholan svokallaða) og sá vinsælasti upp við Hamarinn (nefndur Bogi eftir eigandanum og bununni, raunar ekki eiginleg borhola). Síðast var þetta reynt fyrir áratug eða svo en tókst ekki sem skyldi þar sem helst til stutt varð milli gosa. Þessi síðasti tilbúni hver er neðan við brúna á Varmá að Gufudal og fékk nafnið Leppalúði til hæfis Grýlu þar skammt frá.
Kolsýruvinnsla
Kolsýruvinnsla á Hæðarenda í Grímsnesi byggist á kolsýruríku vatni úr 165–185°C heitu jarðhitakerfi (háhitakerfi á kólnunarstigi). Óvenju mikið gjall í
gígum þar hjá (Seyðishólar) stafar líklega af kolsýrunni.
Affallslón
Affallslón eru við allar háhitavirkjanir, flest skammt frá, en um 10 km í burtu frá Kröfluvirkjun. Í öllum tilfellum lekur vatnið úr þeim á endanum ofan í hraun og
hverfur. Vatn Bláa lónsins í Svartsengi og Gráa lónsins á Reykjanesi er salt en ferskt í hinum lónunum sem eru á Nesjavöllum, Bjarnarflagi og við Búrfellshraun. Fjölskrúðugt fuglalíf er á tveim þeim síðastnefndu og á læknum ofan þeirra.
Baðstaðir
Baðstaðir hafa víða verið gerðir á háhitasvæðum. Þá er oftast hlaðið fyrir heitan læk til að mynda baðlaug. Slíka staði er t.d. að finna á Hveravöllum á Torfajökulssvæðinu og á Hengilssvæðinu.
Brennisteinsvinnsla
Ummerki slíks eru gryfjur, byrgi, húsgrunnar og vörður. Minjar um brennisteinsvinnslu fyrr á tíð eru í Brennisteinsfjöllum og Fremrinámum, og frá 20. öld við Námafjall.
Paldrar
Paldrar úr kísilhrúðri hafa myndast á fáeinum stöðum í farvegum affallsvatns frá borholum. Stór hrúðurbreiða með pöldrum er við saltverksmiðjuna á Reykjanesi, milli skiljunnar og Gráa lónsins