Skip to content

Borholur

Orðið borhola merkir, samkvæmt íslenskri orðabók, hola sem hefur verið boruð (t.d. eftir heitu vatni).
Til eru margar gerðir af borholum og mismunandi aðferðum er beitt við borun.

Borholuhús fyrir lághitaholu í Elliðaárdalum.
Ljósmynd: Brynja Jónsdóttir

Tilgangur borunar er einnig margvíslegur og getur t.d. farið eftir umhverfis- eða árangurssjónarmiðum.
Borholur eiga það sameiginlegt að dýpi þeirra er gjarnan gefið upp í metrum hérlendis en víddin oftast í tommum.

Íslensk heiti yfir borholur. Listinn er tekinn saman af starfsfólki ÍSOR:

  • Vinnsluhola er boruð til að afla heits vatns eða gufu.
  • Háhitahola, einnig nefnd gufuhola, er vinnsluhola til að ná í gufu til rafmagnsframleiðslu.
  • Sjóhola er vinnsluhola til að dæla upp jarðsjó sem stundum er neðan við ferskvatn.
  • Kaldavatnshola er vinnsluhola til að afla neysluvatns eða vatns fyrir iðnað.
  • Lághitahola, einnig nefnd heitavatnshola, er vinnsluhola til að afla heits vatns fyrir hitaveitu eða aðra notkun.
  • Höggborshola. Orðið er dregið af tegund jarðbors sem notaður er við borun holunnar, svokölluðum höggbor.  Við höggborun er þungur hnallur sem hangir í togvír og hann er látinn falla stöðugt á holubotninn og mylja þannig bergið smátt og smátt.
  • Niðurdælingarhola, eða niðurrennslishola, er misdjúp hola til að jarðsetja vatn ýmist með dælingu eða sjálfrennsli.
  • Svelghola er grunn hola til að jarðsetja skolvatn frá bor eða frá annarri starfsemi.
  • Skolvatnshola er sérstök hola sem boruð er ofan í vatn til að ná í skolvatn á meðan á borun stendur.
  • Förgunarhola er grunn hola til að jarðsetja vatn frá ákveðinni starfsemi, t.d. heilsuböðum.
  • Rannsóknarhola, stundum nefnd könnunarhola, er hola boruð í rannsóknarskyni.
  • Hitastigulshola, eða leitarhola, er rannsóknarhola boruð sérstaklega til að ákvarða hitastigul.
  • Kjarnahola er sýnatökuhola boruð með demantskrónu (2-4”)
  • Stefnuboruð hola er borhola sem er boruð lóðrétt í upphafi en er síðan beint að ákveðnu marki. Þetta er gert vegna umhverfis- og árangurssjónarmiða.
  • Skáhola er borhola sem er ekki lóðrétt, heldur boruð á ská til að leita uppi og skera sprungur.
  • Grunnvatnshola
  • Vöktunarhola