Grunnrannsóknir eru forsenda hagnýtra rannsókna og sjálfbærrar auðlindanýtingar á hafsbotni

Á ÍSOR er einstök fagþekking og reynsla sérfræðinga á jarðvísindalegri úrvinnslu rannsóknargagna á hafsbotninum umhverfis Ísland.  Samstarf stofnana og ráðuneyta á undanförnum árum hefur skipt sköpum svo að rannsóknargögn sem aflað er af erlendum og innlendum aðilum nýtist til að rannsaka hafsbotnsauðlindir og gæta hagsmuna Íslands vegna hafréttarmála. 

Mikilvægt er að skýr stefna og markmið séu við skipulagningu rannsókna á hafsbotni og að leitað sé allra leiða til að afla þekkingar. ÍSOR er þátttakandi  í nokkrum rannsóknarverkefnum og í undirbúningi er stórt alþjóðlegt rannsóknarverkefni á vegum IODP í samvinnu við Jarðvísindastofnun HÍ.  Mikil samkeppni er á milli verkefna en vonast er til að verkefnið fái náð fyrir augum verkefnisstjórnar og borað verði hér við land árið 2024. Með því  fáist borkjarnar, raunverulegt hráefni til rannsókna á hafsbotninum, sem viðbót við aðrar  gerðir rannsókna.

ÍSOR var jarðvísindalegur ráðgjafi Orkustofnunar við olíuleit sem boðin var út á Drekasvæðinu á sínum tíma. Leyfin voru veitt með ýmsum skilyrðum, meðal annars um skil á rannsóknarniðurstöðum til stjórnvalda. Þótt fyrirtækin þrjú sem fengu rannsóknarleyfi hafi ekki séð sér hag í að halda olíuleit áfram skilji þetta verkefni eftir þekkingu og gögn í landinu sem séu milljarða virði. Þar að auki er fjöldi erlendra rannsóknarleiðangra, lítilla og stærri, sem fá árlega leyfi til rannsókna á hafsvæðum til við Ísland. Leyfin séu gefin út með þeim skilyrðum að rannsóknargögnum skuli skilað. Misbrestur hafi þó verið á því. Það mál sé nú komið í farveg með samningi ÍSOR við Umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Hlutverk ÍSOR er m.a. að kalla eftir skilum á þessum rannsóknum en í þeim eru falin mikil verðmæti fyrir þjóðina.

„Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Það að hafa þessi gögn hjálpar okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir í framtíðinni, hvort heldur er um sjálfbæra nýtingu auðlinda eða friðun,“ segja Steinunn Hauksdóttir og Bjarni Richter í viðtalinu.

 

Umfjöllun var í Morgunblaðinu um hafsbotnrannsóknir ÍSOR og stuttur útdráttur birtist á vefmiðli mbl.is

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/08/19/gognin_milljarda_virdi/

 

Greinin í heild er aðgengileg hér 

Gosskeið á Reykjanesskaga fyrir 1900-2500 árum – yfirlit

Næstsíðasta gosskeið á Reykjanesskaga sem stóð yfir fyrir 1900-2500 árum var ekki ýkja frábrugðið því síðasta sem stóð yfir frá 800 til 1240 e.Kr. Helsti munurinn felst í því að þá varð Hengilskerfið virkt en á nútíma hefur gosvirkni þar verið minni en í kerfunum í vestri. Meðfylgjandi kort sýnir útbreiðslu hrauna frá þessum tíma.

Í Hengilskerfinu rann Nesjavallahraun bæði norðan og sunnan Hengils fyrir um 1900 árum. Eitt af því áhugaverðasta við gosið er að gossprungan teygðist út í Þingvallavatn og olli sprengigosi sem hlóð upp gjóskukeilu. Gígurinn stendur enn og heitir Sandey. Gjóskan dreifðist um næsta nágrenni Þingvallavatns, mest þó til austurs (sjá kort).

Í Brennisteinsfjallakerfinu runnu Skúlatúnshraun (líka nefnt Stórabollahraun), Óbrinnishólahraun, smáhraun austan Kistufells og Kálfadalshraun norðan við Geitahlíð. Eftir því sem næst verður komist er Skúlatúnshraunið elst hraunanna, um 2500 ára, og markar upphaf gosskeiðsins. Skúlatúnshraun og Óbrinnishólahraun runnu til sjávar í Straumsvík. Þess má geta að síðasta gosskeið hófst einnig í Brennisteinsfjöllum.

Í Krýsuvíkurkerfinu rann Afstapahraun frá um 15 km langri slitróttri gígaröð fyrir rétt rúmum 2000 árum. Hraunið ber allmörg nöfn, s.s. Eldborgarhraun og Dyngnahraun norðan til og Skolahraun, Leggjabrjótshraun, Skollahraun og Katlahraun sunnan til. Hraunið rann til sjávar bæði við norður- og suðurströnd Skagans. Kúagerði við Reykjanesbraut er þekkt kennileiti í hrauninu. Við Suðurströndina rann það allt að 2 km í sjó fram vestur af Selatöngum. Haldi fram sem horfir með gosið í Geldingadölum er ekki útilokað að Fagradalshraun leggist að eða yfir syðstu totur Afstapahrauns.

Í Svartsengiskerfinu rann Sundhnúkahraun frá um 11 km langri gígaröð og annað hraun frá gígaröð skammt vestan Eldvarpa, en það er að stórum hluta hulið yngri hraunum. Hraun þessi eru 2000-2200 ára gömul. Í Reykjaneskerfinu runnu Eldra-Stampahraun og Hörslahraun um líkt leyti. Gossprungan sem Eldra-Stampahraunið rann frá náði í sjó við Kerlingarbás á Reykjanesi og hlóðst þar upp gjóskukeila skammt frá landi. Gjóskan frá gosinu (gjóskulagið R-3) dreifðist um vestanverðan Reykjanesskaga en austan Keilis finnst hún vart (sjá kort). Rannsóknir sýna að gos í sjó, þ.e. surtseysk gos, eru yfirleitt fylgisfiskar sprungugosa á Reykjanesi.

Samkvæmt aldursgreiningum verður ekki annað séð en að Reykjanes- og Svartsengiskerfin hafi verið virk um svipað leyti fyrir 2000-2100 árum. Sama var uppi á teningnum í Reykjaneseldum 1210-1240 e.Kr. Einnig má nefna að aldursgreiningar sýna að Afstapahraunið í Krýsuvíkurkerfi er frá þessu sama tímabili. Bendir því flest til að ekki hafi liðið langur tími á milli atburða á þessum hundrað árum, vart meira en fáir áratugir. Hvort atburðarásin verði eins á því virkniskeiði sem nú er að hefjast skal ósagt látið en ekki er hægt að útiloka það.

Við tímasetningu hrauna/eldgosa frá forsögulegum tíma, fyrir búsetu í landinu, hafa menn reitt sig á gjóskutímatal og C-14 aldursgreiningar. Gjóskutímatalið fyrir Reykjanesskaga nýtist vel fyrir síðustu 4000 árin en er ónákvæmara fyrir fyrri hluta nútíma og hafa C-14 aldursgreiningar þá reynst mikilvægar. Efni til C-14 aldursgreininga er hins vegar erfitt og tímafrekt að nálgast og er fjöldi tiltækra greininga ekki mikill. Ljóst má vera að eigi að fá betri mynd af gosvirkni á Reykjanesskaga á fyrri hluta nútíma, fyrir 4000-11.000 árum, þarf að gera átak í að leita kolaðra gróðurleifa undir hraunum og aldursgreina. Eins og alkunna er hafa gömul hraun tilhneigingu til að hyljast af yngri hraunum sem gerir aðgengi að þeim sífellt verra. Sé nýtt virkniskeið að hefjast á Skaganum með tíðum hraungosum væri æskilegt að hrinda þessu verki af stað fyrr en seinna. 

 

 

Texti: Magnús Á. Sigurgeirsson. Kort: Albert Þorbergsson.

Hvar og hvernig myndast jarðskjálftar?

Hvar og hvernig myndast jarðskjálftar?
Hvaða áhrif hafa jarðhitanýting, vökvastreymi og jarðskorpuhreyfingar á jarðskjálftavirkni?
Þetta eru spurningar sem m.a. er vonast til að hægt verði að svara í rannsóknarverkefni sem nýlega fór af stað hjá ÍSOR. Niðurstöður verkefnisins verða m.a. notaðar til að útbúa leiðbeiningar um hvernig standa skuli að jarðhitavinnslu og niðurdælingu m.t.t. jarðskjálftavirkni á virkum jarðskjálftasvæðum, en einnig verður innan verkefnisins  prófuð og þróuð ýmiss konar úrvinnsla jarðskjálftagagna við jarðhitarannsóknir.

Rannsóknarverkefnið nefnist NASPMON (NAtural Seismicity as a Prospecting and MONitoring tool for geothermal energy extraction). Þetta er samstarfsverkefni Íslendinga og Tékka; nánar tiltekið ÍSOR og tveggja deilda innan Tékknesku vísindaakademíunnar (CAS) – Institute of Geophysics (IG) og Institute of Rock Structure and Mechanics (IRMS) – auk Raunvísindadeildar Charles háskólans (CU) og er til fjögurra ára. Hægt er að fylgjast með verkefninu á heimasíðu þess og á Twitter.

Gylfi Páll Hersir jarðeðlisfræðingur leiðir verkefnið hér á landi. Það er styrkt af Kappa rannsóknaráætlun, sjóði Evrópska efnahagssvæðisins og Noregs.

Verkefninu er skipt upp í átta vinnuhópa og leiðir ÍSOR þrjá þeirra:

  • Verkefnastjórnun (Project Management (VP1))
  • Gagnaöflun og gagnageymsla (Data acquisition and data archiving (VP2)) – Egill Árni Guðnason
  • Sjálfvirk úrvinnsla og staðsetning jarðskjálfta (Automatic Data Processing: detection and location of earthquakes (VP3)) – Þorbjörg Ágústsdóttir
  • Skjálftavirkni:  Greining í tíma og rúmi (Seismic activity: Time and space analysis (VP4))
  • Brotlausnir jarðskjálfta og spennugreining (Earthquake Source Mechanisms and stress analysis (VP5))
  • Hraðalíkön af jarðskorpunni (Crustal Seismic Models (VP6))
  • Líkangerð og hættumat (Ground motion model: Input for hazard assessment (VP7))
  • Þverfagleg túlkun (Multi-Disciplinary interpretation (VP8)) – Gylfi Páll Hersir

     

ÍSOR hefur unnið með Tékknesku vísindaakademíunni (CAS) frá árinu 2013, en

Akademían hefur rekið 15 skjálftamæla á Reykjanesskaga í samvinnu við ÍSOR. Hafa mælarnir (gögnum frá átta þeirra er streymt í rauntíma til Veðurstofunnar frá ÍSOR með sérstöku samkomulagi), ásamt 8 mælum frá Veðurstofu Íslands gegnt lykilhlutverki náttúruvárvöktunar á Reykjanesskaganum síðasta árið.

 

ÍSOR hefur jafnframt fylgst með jarðskjálftavirkni á öðrum háhitasvæðum á landinu og byggt upp þekkingu á búnaði til að fylgjast með henni, m.a. vali á hentugum skjálftanemum og skráningartækjum ásamt uppsetningu mælistöðva. Skjálftagögnum er nú yfirleitt streymt í rauntíma gegnum þráðlaus net og GSM tækni á skrifstofur ÍSOR. Orku er aflað með vindrellum og sólarrafhlöðum.

 

 

Skjálftamælistöð á Reykjanesskaga. Ljósmynd Egill Árni Guðnason.

Að sögn Gylfa Páls er þetta verkefni afar mikilvægt fyrir skjálftahópinn hjá ÍSOR. Þarna gefst hópnum tækifæri til að þróa áfram kunnáttu sína og færni, sem eykur enn frekar möguleika hópsins til að takast á við ný verkefni á sviði þar sem framfarir eru örar. Jafnframt er mjög spennandi að fá þarna tækifæri til þess að vinna með gögn frá þessu mikla umbrotasvæði sem Reykjanesskaginn er, einmitt þegar hlutirnir eru að gerast. Það eru margir sem öfunda okkur af þessu verkefni og gögnunum sem við vinnum með næstu árin.

Til að skýra enn betur út mikilvægi þess að þekkja jarðskjálfta og orsakir þeirra þá er hér birtur styttri texti frá Gylfa Páli Hersi um jarðskjálftarannsóknir sem birtist í Ársskýrslu ÍSOR 2019.

Jarðskjálftabylgjur eru af tvennum toga. Annars vegar af okkar völdum (e. active seismics) og hins vegar af náttúrulegum völdum (e. passive seismics).

Jarðskjálftar af okkar völdum, þar sem við höfum stjórn á uppsprettunni, verða til með því að búa til skjálftabylgjur við yfirborð jarðar, ýmist með sprengingum eða þungum höggum. Skjálftabylgjurnar berast um jarðskorpuna með mismunandi hraða eftir gerð berglaganna og er fartíminn skráður með skjálftanema og skráningartæki. Fartíminn veitir mikilvægar almennar upplýsingar um gerð jarðskorpunnar og efri hluta möttuls. Oftast eru skjálftanemarnir hafðir á yfirborði jarðar. Þessi aðferð hefur þó ekki reynst sérlega notadrjúg við rannsóknir á háhitasvæðum, vegna fjölda hallandi hraunlaga nærri yfirborði. Í IMAGE-rannsóknarverkefninu, sem ÍSOR tók þátt í fyrir nokkrum árum, var gerð tilraun til að renna skjálftanemum niður eftir tveimur djúpum borholum á Kröflusvæðinu og skrá skjálftabylgjur frá jarðskjálftum sem búnir voru til. Þessi aðferð (e. VSP) reyndist vel og gaf mikilsverðar upplýsingar en er nokkuð kostnaðarsöm.

Jarðskjálftar af náttúrulegum völdum. Í tímans rás hleðst upp spennuorka í berginu vegna þrýstings, aðallega út af plötuhreyfingum jarðskorpunnar en líka af öðrum ástæðum, t.d. kvikuhreyfinga. Þegar spennan nálgast brotþol bergsins þarf bara rétt lokahnykkinn til þess að bergið bresti í jarðskjálfta. Niðurdæling borholuvökva getur oft verið þessi lokahnykkur eins og gerðist t.d. við Húsmúla nærri Hellisheiðarvirkjun árið 2011 og leiddi til töluverðrar skjálftavirkni. Þá er talað um örvaða jarðskjálfta (e. induced seismicity). Örvaðir jarðskjálftar eru sums staðar notaðir til þess að opna sprungur og búa þar með til betri lekt.

Það hefur færst í vöxt hérlendis sem erlendis að safna skjálftagögnum af háhitasvæðum, bæði sem veigamiklum þætti í yfirborðsrannsóknum og eins til þess að fylgjast með viðbrögðum jarðhitakerfisins við vinnslu og niðurdælingu. Skjálftamælingar eru ásamt viðnáms- og þyngdarmælingum þær jarðeðlisfræðiaðferðir sem helst er beitt við könnun háhitasvæða og nýtast til þess að fá fram gleggri mynd af gerð og eiginleikum svæðisins, þar með talið hvar vænlegast sé að staðsetja borholur með tilliti til góðrar lektar. Heildarmynd jarðhitakerfa grundvallast einmitt á niðurstöðum margra jarðvísindagreina en ekki hvað síst á samtúlkun þeirra.

Jarðskjálfta má nota til að kortleggja virkar sprungur en þar eru oft að finna aðfærsluæðar jarðhitavökvans fremur en í þeim sprungum sem eldri eru og óvirkar. Það má segja að skjálftavirkni samfara aukinni lekt sé grundvöllur jarðhitavinnslu. Í sinni einföldustu mynd lýsa brotlausnir jarðskjálfta hreyfingu á þeirri sprungu sem jarðskjálftinn varð á. Þannig gefa brotlausnir til kynna hvort sprungur opnist eða hvort eingöngu sé um að ræða samhliða hreyfingu brotflatanna. Jarðskjálftar gefa líka upplýsingar um dýpið á þann flöt þar sem bergið hættir að brotna vegna þess að jarðskorpan er orðin deig vegna hás hita og er ekki lengur brotgjörn (e. brittle/ductile transition). Þessi jafnhitaflötur hvelfist gjarnan upp undir háhitasvæðum og eru jarðskjálftar neðan hans fátíðir. Þar er hitagjafa jarðhitakerfisins oftast að finna.

Skjálftamælanet Tékknesku vísindaakademíunnar (REYKJANET) þekur skagann nokkuð vel allt að Geitafelli í austri. Mælistöðvar eru sýndar á meðfylgjandi mynd með rauðum hring. Þessir 15 skjálftamælar eru einu mælarnir á þessu mikla umbrotasvæði sem hafa skráð jarðskjálfta samfellt síðustu árin að undanskildum 8 skjálftamælum Veðurstofunnar. Samanlagt hafa þessar 23 mælistöðvar gegnt lykilhlutverki við náttúruvárvöktun, og eins til frekari skilnings á því hvað þarna er í gangi. Skjálftagögnum frá 8 af 15 skjálftamælum í REYKJANETI er streymt til Veðurstofunnar frá ÍSOR með sérstöku samkomulagi vegna náttúruvárvöktunar. Kortagerð Egill Árni Guðnason.