Skip to content

Uppbygging hafsbotnsskorpu og rekbelti

Anett Blischke, strúktúrjarðfræðingur og sérfræðingur í hafsbotnsrannsóknum hjá ÍSOR og samstarfsfólk hennar eru höfundar nýlegrar vísindagreinar um uppbyggingu og reksögu hafsvæðisins norðan Íslands og vestan Jan Mayen. Greinin, sem er afrakstur samstarfsverkefnis ÍSOR, Orkustofnunar, Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, og fjölmargra erlendra jarðvísindastofnana og háskóla, ber heitið „Seismic Volcanostratigraphy: The Key to Resolving the Jan Mayen Microcontinent and Iceland Plateau Rift Evolution“.

Samtúlkun jarðeðlisfræðilegra og jarðefnafræðilegra gagna liggur til grundvallar nýjum skilningi á myndunarsögu svæðisins norðan Íslands. Jan Mayen klofnaði frá Grænlandi  í endurteknum gosbeltaflutningum, samhliða dvínandi rekhraða á sunnanverðum Ægishrygg. Fjölþættar misgengishreyfingar endurspegla öfluga innskotavirkni innan eldstöðvakerfa sem líkjast rekbeltum Íslands í dag.

Frekari rannsóknir eru fyrirhugaðar á sviði hafsbotnsjarðfræði, m.a. á áhrifum heita reitsins á gosbeltaflutninga, legu meginlandsskorpu við Jan Mayen og á Íslands-Færeyjahryggnum, og hafstrauma- og loftlagsbreytingar í tengslum við myndun Íslands-Færeyjahryggsins. Önnur verkefni snúa að rannsóknum á ummerkjum jöklunar á landgrunni Íslands, mati á margvíslegri náttúruvá, og rannsóknum á auðlindum í tengslum við hafréttarkröfur Íslands.

Hjá ÍSOR starfar hópur jarðvísindafólks sem hefur á undanförnum áratugum byggt upp sérfræðiþekkingu í öflun og túlkun gagna af hafsbotni. Meðal verkefna má nefna ráðgjöf til stjórnvalda varðandi skilgreiningar landgrunnsins utan 200 sjómílna og rannsóknir og ráðgjöf vegna undirbúnings sérleyfa til rannsókna og vinnslu auðlinda á hafsbotni.

Myndin sýnir yfirlitskort af myndun Norður-Atlantshafsins frá því landrek hófst fyrir um 55 milljónum ára til nútíma. Tilvísanir og heimildir er að finna í greininni sem er aðgengileg hér:

https://doi.org/10.1029/2021GC009948