Námskeið Jarðhitaskólans og jarðhitafyrirtækisins LaGeo í El Salvador

Vel heppnuðu tveggja vikna námskeiði Jarðhitaskólans og jarðhitafyrirtækisins LaGeo í El Salvador lauk á sunnudaginn. Námskeiðið var haldið í höfuðstöðvum LaGeo í Santa Tecla við höfuðborgina San Salvador og það sótt af gestum úr jarðhitaiðnaðinum víðs vegar um mið- og suður-Ameríku auk starfsfólks LaGeo.

 

Jarðhitaskólinn og LaGeo sáu í sameiningu um undirbúning en auk heimamanna voru íslenskir leiðbeinendur og starfsfólk ÍSOR þau Helga Tulinius, Bjarni Richter, Daði Þorbjörnsson, Gunnar Skúlason Kaldal og Jón Einar Jónsson, en ekki síst Málfríður Ómarsdóttir verkefnisstjóri Jarðhitaskólans. Einnig voru nokkrir fyrirlestrar fluttir yfir netið frá hinum ýmsu fyrirtækjum á Íslandi. Þátttakendur námskeiðsins voru áhugasamir, duglegir að taka þátt í umræðu og spyrja spurninga, en lönd þeirra eru mislangt komin í jarðhitanýtingu.

 

Meðfylgjandi eru myndir frá námsskeiðinu, vettvangsferðum auk skoðunarferða sem tækifæri gafst til að fara í þegar tími gafst. El Salvador er sérstaklega fallegt land að heimsækja.

Þessa dagana vinnur ÍSOR að rýni á gögnum frá tveimur jarðhitasvæðum í El Salvador

Þessa dagana vinnur ÍSOR að rýni á gögnum frá tveimur jarðhitasvæðum í El Salvador. Þetta eru verkefni í Austur Ahuachapan og í Conchagua. Verkefnið er unnið fyrir Þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins og er í samvinnu við Alþjóðabankann. 

Nú eru þrír sérfræðingar á vegum ÍSOR í vettvangsferð á þessum jarðhitasvæðum ásamt La Geo, sem er jarðhitaorkufyrirtæki í El Salvador. La Geo rekur tvær jarðhitavirkjanir í El Salvador, Ahuachapan og Berlin, sem hafa báðar um 100 MW af uppsettu afli.

Felst verkefnið í að fara yfir gögn sem LaGeo hefur safnað og úrvinnslu gagna, sem og niðurstöður borana. Hluti af vinnunni er einnig rýni á hugmyndalíkönum og jarðvarmamati.

Þetta er gert í þéttri samvinnu við LaGeo.

Reiknað er með að vinnunni ljúki í upphafi sumars.

Eldgos á Svartsengis- Sundhnúksgosreininni eftir ísöld

ISOR

Í ljósi síðustu atburða á Reykjanesskaga er tilefni til að rifja upp það sem vitað er um gossögu Sundhnúksgosreinarinnar. Svartsengiskerfið er um 30 km langt og 6-7 km breitt. Eftir að jökla ísaldar leysti fyrir um fimmtán þúsund árum hefur gosvirknin í kerfinu einskorðast við Eldvarpa-gosreinina annars vegar og Svartsengis/Sundhnúksgosreinina hins vegar. Sú síðarnefnda liggur skammt austan móbergsfjallanna Þorbjarnar, Sýlingarfells (einnig nefnt Svartsengisfell) og Stóra-Skógfells.
Þó ýmislegt sé vitað um sögu gosvirkni á Sundhnúksgosreininni er margt enn óljóst, einkum um elstu hraunin. Á það reyndar við um allan Reykjanesskaga. Hraunum sem eiga upptök á reininni verður lýst stuttlega hér að neðan í aldursröð. Í umfjölluninni er vísað er í kenni á meðfylgjandi korti:
Bleðla af máðum og fornlegum hraunum má finna víða utan í móbergsfjöllum austan Svartsengis, s.s. í vestan- og norðanverðum Þorbirni, við Sýlingarfell og Stóra-Skógfell (s.s. ks, sb, mk á korti). Á láglendi eru þessi hraun hulin yngri hraunum og útbreiðsla því óþekkt. Þessi hraun eru að mestu samsett úr sambræddum kleprum, sem bendir til að þau hafi myndast við ákafa kvikustrókavirkni. Hraun af þessu tagi má kalla kleprahraun. Eru þau líklega frá því snemma á eftirjökultíma, jafnvel síðjökultíma. Engar aldursgreiningar liggja fyrir á hraununum enn sem komið er. Vísbending um aldur eins þeirra kemur þó fram í grjótnámu við Hagafell, en þar liggur það vel undir 8000 ára gömlu hrauni (sjá neðar) og er áætlaður aldur þess um 10.000 ár (Magnús Á. Sigurgeirsson, óbirt gögn).
Bæði suðvestan og austan megin í Hagafelli eru stuttar fornlegar gígaraðir. Hraunið frá þeim hefur verið nefnt Hópsheiðar- og Hópsnesshraun (hh á korti). Aldursgreining C-14 á gróðurleifum undan hrauninu leiddi í ljós að þær eru um 8000 ára gamlar og líklegt að hraunið sé af líkum aldri. Stærstu flákarnir í þessu hrauni koma fram á Hópsheiði og Hópsnesi við Grindavík. Einnig kemur hraunið fram í hraunhólmum við Sundhnúk, um 500-700 m norðan Hagafells, sem sýnir að gossprungan hefur verið a.m.k. 1,5 km löng.
Við norðurenda Sundhnúkshrauns má sjá fjögur hraun sem koma undan því (merkt kh, ed, hf og da). Aldur þessara hrauna er óljós en þau eru þó talsvert meira en 4000 ára gömul. Einnig má nefna fornt hraun með upptök í Lágafelli vestan Þorbjarnar (lf á korti). Þarna er verk að vinna við nákvæmari aldursgreiningar.
Sundhnúksgígaröðin er ein af lengri gígaröðum Reykjanesskaga, alls um 11,5 km löng og þekur hraunið um 22 km2 lands. Aldursgreining á koluðum kvistum undan hrauninu gaf aldurinn 2300-2400 ár. Hins vegar benda gjóskulagarannsóknir til að hraunið sé nær 2000 áum í aldri (Magnús Á. Sigurgeirsson, óbirt gögn). Gígaröðin liggur vestan með Hagafelli og áfram sundurslitin 3 km til suðvesturs. Syðstu gígarnir eru á 250 m langri gígaröð, sem er aðskilin frá megingígaröðinni (á afgirtu svæði fjarskiptastöðvarinnar norðan Grindavíkur). Þessir gígar liggja rúma 400 m frá næstu húsum í Grindavík og er hraunjaðarinn mun nær, við Nesveg. Athyglivert er að í gosinu 14. janúar hófst gos á stuttri gígaröð 600 m sunnan megingígaraðarinnar líkt og gerðist fyrir 2000 árum. Mörg dæmi mætti nefna um goshegðun af þessu tagi, þ.e. þar sem gýs á stuttri gígaröð sem er aðskilin megingígaröðinni.
Á tímabilinu 1210-1240 e.Kr. voru eldgos tíð í Reykjanes- og Svartsengiskerfunum, gjarnan nefnt Reykjaneseldar 1210-1240. Sundhnúksgosreinin var ekki virk á þeim tíma en þá gaus hins vegar á Eldvarpagosreininni 4 km vestar. Rannsóknir á hraunum og gjóskulögum benda til að virknin á 13. öld hafi byrjað á Reykjanesi en síðan færst til austurs yfir á Svartsengiskerfið um 1230 og síðan lokið árið 1240 þegar Arnarseturshraun rann. Ritaðar heimildir eru rýrar en nefna þó a.m.k. sex eldgos á þessum 30 árum, flest í sjó við Reykjanes. Telja má líklegt að gosin hafi verið fleiri sé tekið mið af þeim tíðu eldgosum sem nú ganga yfir á Reykjanesskaga.
Í ljósi sögunnar má telja líklegt að yfirstandandi virkni á Sundhnúksreininni geti dregist á langinn, í nokkur ár að minnsta kosti. Í undangengnum eldum, á síðustu 2000 árum, hefur verið algengast að hraun þeki um 40-50 km2 í hverjum eldum, eða meira, sem styður frekar þá ályktun að eldvirkni í Svartsengiskerfinu gæti staðið yfir eitthvað lengur.

Texti: Magnús Á. Sigurgeirsson. Kort: Gunnlaugur M. Einarsson.

Helstu heimildir:
Kristján Sæmundsson og Magnús Á. Sigurgeirsson (2013). Reykjanesskagi. Í: Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar. Viðlagatrygging Íslands og Háskólaútgáfan.
Kristján Sæmundsson, Magnús Á. Sigurgeirsson, Árni Hjartarson, Ingibjörg Kaldal, Sigurður Garðar Kristinsson og Skúli Víkingsson (2016). Jarðfræðikort af Reykjanesskaga, 1:100 000 (2. útgáfa). Íslenskar orkurannsóknir.

ISOR

Skoða hvort kvikugas valdi landrisi

mbl.is/Hákon

„Í okk­ar huga skipt­ir veru­legu máli að vita, ef hægt er, hvort kvika sé að safn­ast fyr­ir beint und­ir Svartsengi, eða hvort þar sé mögu­lega að safn­ast fyr­ir kvikugas frá kviku­upp­streymi lengra í burtu, mögu­lega frá sjálf­stæðu kviku­upp­streymi und­ir Sund­hnúkagígaröðinni.

Eina leiðin til þess að kom­ast að því er að beita þyngd­ar­mæl­ing­um og reyna að reikna eðlis­massa þess efn­is sem veld­ur landris­inu. Frek­ari jarðvís­inda­leg­ar mæl­ing­ar og rann­sókn­ir munu svo með tím­an­um gefa skýr­ari mynd af at­b­urðunum sem þarna eiga sér stað,“ seg­ir Eg­ill Árni Guðna­son, jarðeðlis­fræðing­ur hjá Íslensk­um orku­rann­sókn­um, ISOR, í sam­tali við Morg­un­blaðið.

mbl.is/Hákon
mbl.is/Hákon


Mæl­ing­ar í sam­starfi við er­lenda vís­inda­menn

Síðar í þess­um mánuði hefjast svo­kallaðar þyngd­ar­mæl­ing­ar á Reykja­nesskaga, en mark­mið þeirra er að reyna að kom­ast að því hvort kvika valdi landrisi á svæðinu, gas eða sam­bland af hvoru tveggja. Mæl­ing­arn­ar verða gerðar und­ir for­ystu ISOR í sam­starfi við tékk­neska og þýska vís­inda­menn. Eg­ill Árni fer fyr­ir verk­efn­inu af hálfu ISOR.

Þyngd­ar­mæl­ing­ar voru gerðar á Reykja­nesskaga árið 2020 en ekki varð fram­hald á þeim sem er miður, að mati Eg­ils Árna. Nú stend­ur til að ráða bót á því og hefja þær aft­ur und­ir for­ystu ÍSOR.

Lesa má meira um málið í Morg­un­blaðinu

ÍSORÐ – 6. viðburðurinn sem ÍSOR býður upp á.

Að þessu sinni verður fjallað um hvernig starfsemi ÍSOR samrýmist heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Með því að vinna að heimsmarkmiðunum leggur ÍSOR meðal annars sín lóð á vogarskálarnar til að Ísland nái fram markmiðum sínum í loftslagsmálum.

Fundurinn mun fara fram fimmtudaginn 14. desember, kl. 13:15.

Hægt er að sjá upptöku frá fundinum með því að smella HÉR

Neðansjávarhraun og gígar við Grindavík

Jarðskjálftar og landris í grennd við fjallið Þorbjörn upp af Grindavík hafa sett menn í viðbragðsstöðu gagnvart eldsumbrotum þar í grennd. Af þeim sökum hafa menn líka rýnt í jarðfræðileg gögn og gamlar frásagnir af eldgosum á þessum slóðum. 

Yngsta goshrinan, Reykjaneseldar, gekk yfir á árabilinu 1210-1240, það er fyrir um 800 árum. Þá urðu neðansjávargos úti fyrir Reykjanesi og hraun runnu á landi bæði á Reykjanesi og við Svartsengi. Eitt þessara hrauna var Eldvarpahraun vestan Grindavíkur. Gígaröðin, Eldvörpin, er um 8 km löng og nær alveg suður að ströndinni við Staðarberg og þar rann hraun í sjó. 

Mynd 1. Jarðfræðikort af Reykjanesi og hraunjaðrar úti fyrir ströndinni. Grænar línur sýna gamla hraunjaðra. Rauða línan sýnir jaðar Eldvarparhrauns. Rauðar stjörnur eru söguleg neðansjávargos. Myndin gerð eftir jarðfræðikorti ÍSOR og fjölgeislamælingum Landhelgisgæslunnar.

Á fjölgeisla dýptarmælingum, sem Landhelgisgæsla Íslands/Icelandic Coast Guard hefur aflað með sjómælingaskipinu Baldri og látið ÍSOR í té til frekari úrvinnslu, sést að hraunið hefur ekki numið staðar við ströndina heldur hefur það runnið langa leið neðansjávar og myndar þar fallegar tungur úr úfnu hrauni. Lengst nær það um 2,7 km út frá strönd og er þar komið niður á um 90 m dýpi. Hugsanlegt er að gossprungan teygi sig líka út fyrir ströndina og að þarna hafi einnig gosið í sjó. Flatarmál hraunsins á sjávarbotni er um 3,4 km2. Hraun af þessu tagi er engan veginn einsdæmi. Hópsnesið hjá Grindavík er hluti af hrauni sem runnið hefur niður að strönd og myndað allmikinn tanga út í sjó. Það er um 8000 ára gamalt. Á myndum má sjá að það teygir sig áfram neðansjávar og myndar hrauntungu sem nær niður á um 100 m dýpi. 

Á dýptarmælingum sem aflað hefur verið á Reykjaneshrygg og Kolbeinseyjarhrygg sést að hraun geta runnið á hafsbotni frá gígum og gossprungum á allmiklu dýpi. Talið er að þetta séu svokölluð bólstrabergshraun eða bólstrabreiður. 

Til þess að hraun geti runnið með þessum hætti þurfa þau að verja sig gegn sjávarkælingu. Þau virðast mynda einangrandi kápu úr gjalli og storknuðu bergi um leið og þau streyma fram. Ljóst er að hraunrennslið þarf að vera mikið og stöðugt til að hrauntunga nái að myndast á sjávarbotni. Við slíkar aðstæður myndi vera illgerlegt að stöðva hraunrennsli með sjókælingu. 

Bent er á frekari fróðleik um jarðfræðina og sögulegt yfirlit um hraunin á Reykjanessskaga á vef ÍSOR og í jarðfræðikortavefsjá ÍSOR. 

www.isor.is

www.jardfraedikort.is

Mynd 2. Dýptarmælingar Landhelgisgæslunnar leiða í ljós hraunjaðra neðansjávar vestur af Grindavík sem öllum líkindum hafa myndast þegar Eldvarparhraun rann í Reykjaneseldum á 13. öld.

Viðurkenning Jafnvægisvogarinnar

Við hjá ÍSOR erum stoltir handhafar viðurkenningar Jafnvægisvogarinnar sem afhent var við hátíðlega athöfn í beinni útsendingu á vefsíðu RÚV í gær. Þar veitti Eliza Reid, forsetafrú, viðurkenningar til fimmtíu og sex fyrirtækja, ellefu sveitarfélaga og tuttugu og tveggja opinberra aðila úr hópi þeirra 239 þátttakenda sem hafa undirritað viljayfirlýsingu um að jafna kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum. Hjá ÍSOR hefur þessu marki þegar verið náð.
Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) sem unnið er í samstarfi með Creditinfo, Deloitte, forsætisráðuneytinu, Pipar\TBWA, RÚV, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu FKA https://fka.is/

ÍSORÐ – fimmti viðburðurinn sem ÍSOR býður upp á.

Við hjá ÍSOR viljum bjóða ykkur að taka þátt í ÍSORÐI, miðvikudaginn 27. september

Fundurinn hefst kl. 13:15 og tekur u.þ.b. 40 mínútur.

Það væri okkur ánægja ef þið sæjuð ykkur fært að taka þátt og skapa umræður.

Að þessu sinni fjöllum við um efnafræði í jarðhitarannsóknum og vöktun á jarðhitanýtingu

Smellið á eftirfarandi hlekk til að sjá upptöku frá fundinum

Jarðrænar auðlindir

Jarðrænar auðlindir eru meðal mikilvægustu auðlinda mannkyns en Ísland er mikill eftirbátur nágrannalandanna þegar kemur að kortlagningu þeirra. Um þetta var fjallað í fréttum Stöðvar 2 í vikunni þar sem Árni Magnússon, forstjóri ÍSOR, var til svara.

Enn fremur var fjallað ítarlega um málið í ÍSORÐI á síðasta ári þar sem Ögmundur Erlendsson, jarðfræðingur, fjallaði um stöðu og framtíð jarðfræðikortlagningar og hvernig hún er grunnur að almennri jarðvísindalegri þekkingu.

Sendinefnd Íslands kynnti endurskoðaða greinargerð fyrir landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna

Sérfræðiþekking ÍSOR á hafsbotnsrannsóknum styður við mikilvæga þjóðfélagslega hagsmuni eins og að vinna að kröfum um ytri mörk landgrunns Íslands með Utanríkisráðuneytið (þgf.) og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið (þgf.).
Fulltúar ÍSOR tóku nýlega þátt í kynningu sendinefndar Íslands fyrir undirnefnd landsgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna í New York um hafsbotnsréttindi á Reykjaneshrygg.
Önnur, ekki síður mikilvæg hafsbotnsverkefni ÍSOR snúa m.a. að rannsóknum á jarðrænum auðlindum, s.s. vindorku og jarðhita, og náttúruvá á hafsbotni.