Forseti Íslands í heimsókn hjá Cornell háskólanum í Íþöku, New York fylki, ásamt GRP Iceland, ÍSOR og Íslenska orkuklasanum.

Cornell háskólinn hefur lengi hefur verið meðal fremstu háskóla í Bandaríkjunum og hefur verið í samstarfi við GRP Iceland (Geothermal Resource Park), Íslenska Orkuklasann, Háskólann í Reykjavík og íslensk stjórnvöld, og hefur unnið að ýmsum verkefnum er tengjast endurnýjanlegum orkugjöfum og sjálfbærni á síðustu árum. Unnið hefur verið eftir rammasamningi sem var fyrst undirritaður í apríl 2016 og svo framlengdur til 5 ára þann 17. september 2021. Við það tækifæri var einnig skrifað undir samkomulag á sviðið menntamála milli Cornell og HR byggt á þeim rammasamningi. Prófessorar frá Cornell hafa kennt við Háskólann í Reykjavík, fjölmargar sendinefndir hafa sótt Ísland heim.

 

Til stendur að breyta orkukerfum Cornell háskóla þannig að hann verði eingöngu knúinn endurnýjanlegum orkugjöfum á sjálfbæran hátt að hluta til að íslenskri fyrirmynd (Earth Source Heat verkefnið). Einnig er stefnt að því að Cornell háskóli taki út sjálfbærni Íslands, geira fyrir geira. Að lokum er stefnan sú að setja upp rannsóknarmiðstöð sjálfbærni á Íslandi. Ísland og Cornell eru á sömu vegferð og stefna að því að verða orðin kolefnishlutlaus í síðasta lagi 2040.

 

Nú er forseti Íslands ásamt lítilli sendinefnd í formlegri heimsókn í Cornell háskólanum í Íþöku (Ithaca), en í þeirri sendinefnd eru fulltrúar frá GRP Iceland, Íslenska orkuklasanum (IREC) og Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR). Verið er að ræða um enn frekara samstarf milli þessara aðila, en Cornell háskólinn hefur áform um að nýta jarðhita til að að hita húsnæði háskólans auk þess að nota aðra vistvæna orkugjafa fyrir háskólasvæðið. Af þessu tilefni var undirrituð viljayfirlýsing (LoI) þess efnis við Íslenska Orkuklasann og ÍSOR í tengslum við rammasamninginn við GRP Iceland.

 

Cornell hefur nýlega lokið við rannsóknarborun á háskólasvæðinu í Íþöku sem er stórt skref í að breyta orkukerfum skólans og skapa fyrirmynd fyrir bandarískan markað. Horft hefur verið til sérstöðu Íslands í því samhengi en hér eru mikil tækifæri fyrir Ísland og íslenskan orkuiðnað, í samvinnu við Cornell, að hafa áhrif framgang loftslagsmála, orkumála, umhverfismála, sem og í nýsköpun og menntamála.

https://news.cornell.edu/stories/2022/11/iceland-president-visit-showcase-sustainability-affinity

https://www.forseti.is/fr%C3%A9ttir/2022-11-10-cornell-h%C3%A1sk%C3%B3li-%C3%AD-new-york/

https://news.cornell.edu/stories/2022/11/geothermal-experts-say-borehole-data-shows-promise

Endurnýjun aðildar að samtökum 37 jarðfræðistofnana í Evrópu, EuroGeoSurveys.

ÍSOR hefur endurnýjað aðild sína að samtökum 37 jarðfræðistofnana í Evrópu, EuroGeoSurveys, og styrkir þannig stöðu Íslands í samfélagi evrópskra rannsóknaraðila í jarðvísindum. Auk þess er ÍSOR aðili að EERA-European Enegery Research Alliance, https://www.eera-set.eu/ samtök rannsóknaraðila í orkumálum, með áherslu á jarðhita. Meðal annars á þessum vettvangi tekur ÍSOR þátt í fjölmörgum rannsóknarverkefnum sem nýtt eru til að þróa þekkingu og þjálfa starfsfólk, til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.
Vegna fyrirsjáanlegs orkuskorts í Evrópu er mikill áhugi á að auka þar nýtingu jarðhita og annarra endurnýjanlegra orkugjafa. Mikill þungi verður því á næstu misserum á sviði grunnrannsókna og samvinnu rannsóknarstofnana, háskóla og iðnaðar í Evrópu á sviði samræmingar jarðvísindalegra gagna og birtingu þeirra til ákvarðanatöku um orkuöflun og -nýtingu.
GSEU (Geological Survey for Europe) er 5 ára rannsóknarverkefni sem hófst í september og styrkt er af EU Horizon 2020. https://eurogeosurveys.org/gseu/
Stefnt er að því að skapa sameiginlega þjónustu jarðfræðstofnana Evrópu sem styður við markmið til að mæta áskorunum í orku og loftslagsmálum. Framlag ÍSOR verður þar á sviði jarðhitaþekkingar, grunnvatnsauðlinda og vindorku á strandsvæðum.

Frá Kanarí til Kasmír

Í grein Morgunblaðsins í dag (27 nóvember 2022) er rætt við Bjarna Richter, jarðfræðing og sviðsstjóra viðskiptaþróunar og markaðsmála hjá ÍSOR um erlend verkefni sem ÍSOR vinnur að. Þar er m.a. fjallað um verkefni á Kanaríeyjum og í Kasmír á Indlandi.
Verkefnið á Kanarí felur í sér að “…skoðuð eru jarðhitasvæði á þremur eyjum, þar á meðal vinsælum ferðamannastöðum Íslendinga, það er að segja Tenerife og Gran Canaria, en einnig á La Palma þar sem eldfjall gaus á síðasta ári”.
Í greininni kemur einnig fram að mikið samstarf er milli íslenskra aðila sem búa að áratuga reynslu og þekkingu á jarðhitarannsóknum og nýtingu hans á Íslandi. Mikilvægt er að nýta þá þekkingu og vinna þannig saman að markmiðum stjórnvalda Íslands og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

ÍSOR tekur þátt í jarðhitarannsóknum á Kanarí eyjum

ÍSOR skrifaði nýlega undir samning við spænska orku- og olíufyrirtækið Repsol S.A um jarðhitaúttekt á þremur af Kanaríeyjunum, þ.e. La Palma, Tenerife og Gran Canaria. Töluvert af jarðvísindalegum rannsóknum hafa verið gerðar á eyjunum þremur á undanförnum árum. Jarðfræði eyjanna er vel kortlögð, efnasýni hafa verið tekin úr lindum og hverum og þau efnagreind. Jarðeðlisfræðilegar aðferðir hafa verið notaðar til að kortleggja einnig jarðhitann og uppruna hans á eyjunum, þá helst viðnáms-, þyngdar -og segulmælingar. Nokkrar rannsóknarholur hafa verið boraðar og þær mældar í bak og fyrir.

Hlutverk ÍSOR er að fara yfir öll gögn sem Repsol á og hefur aðgengi að, meta gæði þeirra og gagnsemi við að afmarka svæði til frekari rannsókna og mögulegrar nýtingar. ÍSOR mun einnig aðstoða við gerð hugmyndalíkana, staðsetja borholur, ásamt því að gefa mat á stærð jarðhitasvæðanna og mögulega afkastagetu. Verkið á að taka um fimm mánuði og á að ljúka fyrir lok febrúar 2023.

ÍSORÐ 27. september – Fundaröð ÍSOR um orku og auðlindir jarðar.

ÍSORÐ – Fundaröð ÍSOR um orku og auðlindir jarðar.

Þriðjudaginn 27. september, kl. 13:15 er komið að næsta ÍSORÐ-i, röð viðburða sem ÍSOR hrinti af stað í vor.

Sérfræðingar ÍSOR og eftir atvikum gestir okkar, munu fjalla um einstök viðfangsefni auk þess sem gestum gefst kostur á að varpa fram spurningum og taka þátt í umræðum. Við höfum ákveðið að kalla þennan vetvang ÍSORÐ. Viðburðirnir verða á netinu og öllum er boðin þátttaka, almenningi, fjölmiðlum og fræðasamfélagi.

Að þessu sinni verður fjallað um jarðfræðikortlagningu Íslands. Þar mun Ögmundur Erlendsson, jarðfræðingur, fjalla um stöðu og framtíð jarðfræðikortlagningar og hvernig hún er grunnur að almennri jarðvísindalegri þekkingu. Þekking á jarðfræði Íslands gefur vísindamönnum möguleika á að meta með aukinni vissu hvað hefur gerst og að nota þá þekkingu til að spá fyrir um umbrot framtíðar, s.s. eldvirkni og jarðskjálfta. Þetta hefur komið glöggt fram í yfirstandandi eldgosahrinu og umbrotum á Reykjanesi. Kortlagning á jarðfræði Íslands flokkast undir grunnrannsóknir sem nýtast við ýmsar ákvarðanir í tengslum við friðun landsvæða, innviðauppbyggingu, mat og nýtingu á jarðrænum auðlindum og mati eða vöktun á náttúruvá. ÍSOR vinnur með Náttúrufræðistofnun á grundvelli rammasamnings við Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið um átaksverkefni í jarðfræðikortlagningu í mælikvarða 1:100.000. Í erindinu verður upplýst um stöðu kortlagningaverkefnisins, um mögulegan framgang á næstu árum og sýnd dæmi um það hvernig það spilar inn í þekkingaruppbyggingu vísindamanna og almennings á jarðfræði Íslands.

Okkur þætti vænt um að sjá þig á Teams og langar að bjóða þér að hitta okkur og hlýða á erindi Ögmundar, þriðjudaginn 27 september, kl. 13:15. Að erindi loknu verður boðið upp á umræður og spurningar.

Hlökkum til að sjá sem flesta.

Til að tengjast fundinum smellið þá hér

Smellið hér til að sjá upptöku frá fundinum

Vísindagreinar eftir íslenska jarðvísindamenn í tímaritinu Nature

Í tímaritinu Nature birtust á dögunum tvær greinar eftir íslenskt jarðvísindafólk sem báðar fjalla um umbrotin í Fagradalsfjalli árið 2021. Önnur greinin er jarðeðlisfræðileg og var ÍSOR þátttakandi í henni, en hin er jarðefnafræðileg. Afar sjaldgæft er að tvær vísindagreinar eftir íslenska vísindamenn birtist í sama hefti Nature, enda samkeppni um birtingu efnis þar afar hörð og miklar kröfur gerðar um efnið. Niðurstöður greinanna snúa að undanfara eldgossins í Fagradalsfjalli á síðasta ári sem var ólíkur undanfara margra annarra eldgosa í heiminum, og að efnasamsetningu hraunsins og hvernig hún breyttist eftir því sem leið á gosið.

Hér fyrir neðan er stutt umfjöllun um jarðeðlisfræðilegu greinina.

Vísindagreinin ber yfirskriftinaDeformation and seismicity decline before the 2021 Fagradalsfjall eruption og fjallar um aðdragandann að gosinu og hvernig hann greinir sig frá undanfara margra gosa í heiminum. Greinin var unnin undir forystu Freysteins Sigmundssonar, vísindamanns við Jarðvísindastofnun Háskólans, og Michelle Parks, sérfræðings í jarðskorpuhreyfingum við Veðurstofu Íslands. Að henni kom einnig fjöldi annarra vísindamanna m.a. frá ÍSOR ásamt vísindafólki frá Bretlandi, Nýja-Sjálandi og Tékklandi. Eins og flestum er eflaust kunnugt skalf jörð töluvert á Reykjanesskaganum vikurnar áður en gosið hófst. Tímabilið einkenndist því af spennulosun í jarðskorpunni en allra síðustu dagana fyrir gosið dró hins vegar úr jarðskorpuhreyfingum og skjálftavirkni á svæðinu í kringum gosstöðvarnar. Þetta er ólíkt aðdraganda eldgosa víða í heiminum, sem einkennast oft af stigvaxandi jarðskorpuhreyfingum og jarðskjálftum skömmu fyrir gos þegar kvika þrýstir sér upp á yfirborðið.

Vísindamennirnir benda á að þessa hegðun eldstöðvarinnar í Fagradalsfjalli megi skýra með samspili kvikuhreyfinga og flekahreyfinga. Þegar kvika þrýstir sér upp í gegnum jarðskorpuna í aðdraganda eldgosa, þá geta þessir kraftar losnað úr læðingi með tilheyrandi jarðskjálftum og jarðskorpuhreyfingum. Ef dragi úr jarðhræringum, bendi það mögulega til þess að þessu ferli sé að ljúka og að kvika muni komast upp á yfirborð jarðar.

Á rúmlega þriggja vikna tímabili fyrir gosið í Fagradalsfjalli varð bæði mikil aflögun á jörðu og margir jarðskjálftar. Hvort tveggja tengdist myndun lóðrétts kvikugangs sem náði frá yfirborði og niður á rúmlega 8 km dýpi. Um leið losnaði orka úr jarðskorpunni sem hafði byggst upp vegna hreyfinga jarðskorpuflekanna. Svokallaðir gikkskjálftar urðu á nærliggjandi svæðum, allt að 5,6 að stærð.

Í greininni er bent á að vægari skjálftavirkni síðustu dagana fyrir gosið megi mögulega rekja til þess að kvikan hafi þá verið komin mjög nærri yfirborðinu, þar sem jarðskorpan er veikust og átökin því minni. Í þessu tilliti gegndu jarðskjálftamælar tékknesku vísindaakademíunnar og ÍSOR á Reykjanesskaganum lykilhlutverki, en þeir eru reknir innan NASPMON rannsóknarverkefnisins sem styrkt er af Kappa áætlun EEA sjóðsins.

Niðurstöður rannsóknarinnar hafa þýðingu fyrir alþjóðasamfélagið og geta nýst stofnunum, sem sinna eldfjallavöktun víða um heim, við túlkun gagna tengdum jarðhræringum. Rannsóknin sýnir jafnframt að taka þurfi tillit til samspils eldstöðva og krafta í jarðskorpunni sem tengjast flekahreyfingum þegar spáð er fyrir um möguleg eldgos. Minnkandi aflögun, minni jarðskjálftavirkni og spennulosun vegna flekahreyfinga getur því verið undanfari ákveðinna tegunda eldgosa.

Greinarnar tvær má nálgast á vef Nature:

Deformation and seismicity decline before the 2021 Fagradalsfjall eruption: https://www.nature.com/articles/s41586-022-05083-4

Rapid shifting of a deep magmatic source at Fagradalsfjall volcano, Iceland: https://www.nature.com/articles/s41586-022-04981-x

Umhverfiseftirlit fyrir Landsvirkjun

Undir lok ágústmánaðar fóru þrír starfsmenn ÍSOR norður í land til að sinna umhverfiseftirliti fyrir Landsvirkjun á nýtingarsvæðum þeirra í Kröflu, Námafjalli og á Þeistareykjum. Síðastliðinn áratug hefur ÍSOR sinnt því verkefni að fylgjast með breytingum á þessum jarðhitasvæðum. Fylgst er með breytingum á jarðhitavirkni á yfirborði á þessum svæðum, tekin eru sýni og fylgst er með breytingum á efnasamsetningu í gufuaugum og streymi koldíoxíðs um yfirborð er mælt. Mikilvægt er að fylgst sé með þessum þáttum, bæði til að fylgjast með áhrifasvæði virkjananna og ekki síður til þess að fylgjast með ástandinu í jarðhitageyminum. Breytingar á þrýstiástandi í jarðhitageyminum koma fram í breytingum á yfirborði og slíkar breytingar geta skipt miklu máli við nýtingu á jarðhitaauðlindinni.

Myndir: Auður Agla Óladóttir

Nýrri optískri holusjá bætt við borholumælasafn ÍSOR

Á dögunum bættist optísk holusjá við borholumælasafn ÍSOR. Með holusjánni er unnt að mynda borholuveggi í góðri upplausn og fá þannig skýra mynd af höggun og uppbyggingu jarðlaga í borholum. Þetta er mikil bylting sem býður uppá nákvæmari greiningu á sprungum, misgengjum, jarðlögum og jarðlagamótum í borholum en áður. Við úrvinnslu er hægt að reikna út halla og stefnu sprungna ásamt því að sjá hversu opnar og virkar þær eru. Holusjáin á eftir að nýtast ÍSOR og verkkaupum okkar vel við fjölbreyttar rannsóknir t.d. í tengslum við jarðhita- og grunnvatnsrannsóknir og mannvirkjagerð.
 
Holusjáin hefur verið í innleiðingu skv. vottuðu verklagi ÍSOR (ISO9001:2015) og við það tækifæri voru tvær borholur Vegagerðarinnar myndaðar með góðum árangri.
Á myndunum má sjá mælingabíl ÍSOR við mælingar, nærmynd af holusjánni og síðan myndir úr henni þar sem greina má t.d. sprungur og blöðrur í berginu ásamt setfyllingum sem í þær leggjast.

Myndir: Halldór Ingólfsson

Borholumælingar á Terceira-eyju

Jarðeðlisfræðingur ÍSOR hefur undanfarna daga sinnt borholumælingum á Terceira-eyju, Azoreyjum, Portúgal. Um er að ræða mælingar sem nýtast við að staðsetja samskeyti á fóðringu vinnsluholu og hvar heppilegt sé að hefja útúrborun. ÍSOR vinnur verkið fyrir Jarðboranir. Iceland Drilling Ltd og EDA sem er orkufyrirtæki í eigu portúgalskra stjórnvalda. Á grunni rannsókna sem ÍSOR tók þátt í að vinna 2013-2014 á afköstum fjögurra jarðhitaholna á Terceira, var reist virkjun (2,5-3 MW) og nú er verið að afla aukinnar orku fyrir hana.
Azoreyjar eru níu eyja eldfjallaklasi á miðju Atlantshafi, beint vestur af Portúgal. Þrátt fyrir siglingar hinna og þessa snillinga frá örófi alda þá telst eyjaklasinn ekki hafa fundist fyrr en á fyrri hluta 15. aldar, löngu eftir landnám á Íslandi. Þar búa um 250 þúsund manns, flestir á eynni San Miguel. Á Azoreyjum er m.a. blómleg nautgriparæktun og þar býr afburðagott kyn mjólkurkúa.
Á myndum má sjá jarðhitaborholur í góðum félagsskap við íbúa Terceira eyjarinnar og starfsmann ÍSOR að störfum.
 
Myndir: Þorsteinn Egilson

Segulmælingar með dróna

Sérfræðingar ÍSOR vinna þessa dagana að mælingum með dróna yfir jarðhitasvæðum á NA-landi. Um er að ræða segulmælingar á Kröflusvæði, sem er hluti af rannsóknarverkefni í samstarfi við Landsvirkjun, Grenoble háskóla í Frakklandi (Grenoble Université) og Jarðvísindastofnun Háskólans. Þá verður einnig flogið í nágrenni við Ketilfjall á Þeistareykjum, sem hluti af umfangsmikilli umhverfisvöktun Landsvirkjunar á svæðinu.
 
Myndir: Gunnlaugur Einarsson og Arnar Már Vilhjálmsson.