Segulmælingar með dróna

Sérfræðingar ÍSOR vinna þessa dagana að mælingum með dróna yfir jarðhitasvæðum á NA-landi. Um er að ræða segulmælingar á Kröflusvæði, sem er hluti af rannsóknarverkefni í samstarfi við Landsvirkjun, Grenoble háskóla í Frakklandi (Grenoble Université) og Jarðvísindastofnun Háskólans. Þá verður einnig flogið í nágrenni við Ketilfjall á Þeistareykjum, sem hluti af umfangsmikilli umhverfisvöktun Landsvirkjunar á svæðinu.
 
Myndir: Gunnlaugur Einarsson og Arnar Már Vilhjálmsson.

ÍSOR hefur gengið frá samningi við ONGC

Frá borstað (Bastien Poux)

ÍSOR hefur gengið frá samningi við ONGC (Oil and Natural Gas Company – www.ongcindia.com), eitt stærsta olíufyrirtæki Indlands, vegna undirbúnings jarðvarmavirkjunar í Puga dal í Ladakh, í Kasmír héraði.

Verkefnið er ekki einungis hið fyrsta sem ONGC ræðst í á þessu sviði, heldur er undirbúningur að fyrsta jarðvarmaorkuveri í Indlandi. Ef vel tekst til markar það líklega frekari framkvæmdir fyrirtækisins við nýtingu jarðvarma í Indlandi.

Samningurinn felur í sér ráðgjöf við undirbúning boranna, rannsóknir, vöktun, mælingar, afkastamælingar og úrvinnslu gagna og er einn stærsti einstaki samningur sem ÍSOR hefur gert erlendis.

Í fyrstu umferð verða boraðar tvær u.þ.b. 1000 metra, grannar rannsóknarholur, sem nýtast til raforkuframleiðslu á smáum skala, ef vel tekst til. Nú eru tveir sérfræðingar á vegum ÍSOR komnir til Puga, enda boranir að hefjast á næstu dögum.

Aðstæður eru mjög krefjandi en verkstaðurinn er í u.þ.b. 4.400 metra hæð yfir sjávarmáli, enda Puga í Himalayafjöllum.

Undirverktakar og samstarfsaðilar ÍSOR í verkefninu eru m.a. verkfræðistofan Verkís og Indverska fyrirtækið Techon Consulting.

Þetta er þó ekki fyrsta jarðhitaverkefni sem ÍSOR hefur komið að í Indlandi, en ÍSOR og Verkís, ásamt SIH Píulögnum, komu að húshitunarverkefni í Chumathang með Norðmönnum fyrir nokkrum árum, en það þorp er nálægt Pugadal. Sjá eftirfarandi hlekk: https://www.youtube.com/watch?v=r3HhiH5_pUY

Eldgos er hafið að nýju – Fagradalsfjallseldar?

mbl.is/Arnþór Birkisson

Magnús Á. Sigurgeirsson jarðfræðingur á ÍSOR – Iceland GeoSurvey hefur í áratugi rannsakað gossöguna á Reykjanesskaga. Hér lýsir hann því hvernig hún gefur okkur betri skilning á því sem líklega er framundan – Fagradalsfjallseldar.

Ljóst er að nú er nauðsynleg enn ein uppfærsla á jarðfræðikorti ÍSOR af Reykjanesskaga, en þangað til er hægt er að skoða öll jarðfræðikortagögn ÍSOR í vefsjá sem er aðgengileg á heimasíðu ÍSOR.

Sjá nánar á mbl.is

Orka og auðlindir jarðar – fyrirlestur

Í dag hratt ÍSOR af stað röð viðburða undir heitinu ÍSORÐ.

Á þessum vettvangi, sem fram fer á netinu, verður reglulega fjallað um málefni sem snerta starfssvið stofnunarinnar.

Fyrsta ÍSORÐ fjallaði um fyrirlestur þeirra Auðar Öglu Óladóttur og Steinunnar Hauksdóttur um „Jarðhitaleit á „köldum“ svæðum“.

Góð mæting var á viðburðinn og áhugaverðar umræður sköpuðust í kjölfar fyrirlestrarins, þar sem m.a. var lagt upp með að e.t.v. ættum við ekki að ræða um köld svæði, heldur miklu fremur áhugaverð.

Hægt er að horfa á fyrirlestur Auðar Öglu hér að neðan.

Næsta ÍSORÐ verður þegar líða tekur að hausti en efnistök og nákvæm dagsetning verða kynnt hér á heimasíðunni og samfélagsmiðlum.

 

Umfjöllun um jarðhita í tímaritinu Energy Global

Í nýjustu útgáfu tímaritsins Energy Global er mikil umfjöllun um jarðhita og hvert hlutverk hans gæti orðið í þeirri viðleitni að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku m.t.t. loftslagsmála.
Enn fremur í ljósi mikilvægi þess að Evrópa auki sjálfstæði sitt í orkumálum ekki síst í ljósi innrásar Rússa í Úkraínu. Um helmingur allrar orkunotkunar í álfunni fer til hitunar og mjög víða eru ónýttar jarðhitalindir sem henta vel til beinnar nýtingar, s.s. húshitunar.
Í Energy Global fjalla þeir Árni Magnússon, forstjóri ÍSOR, Bjarni Richter framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og markaðsmála og Árni Ragnarsson verkfræðingur, um stöðu jarðhitans á Íslandi og þau miklu jákvæðu áhrif sem nýting hans hefur haft á land og þjóð á undanförnum áratugum.

Tengill á tímaritið er hér og greinin um Ísland er á síðum 58-63:

https://issuu.com/palladianpublications/docs/eg62su?fr=sOWU1NTE5NzA3NDk

Orka og auðlindir jarðar – ÍSORÐ

Þriðjudaginn 28 júní hrindir ÍSOR af stað röð viðburða á sviðum orku og auðlinda jarðar þar sem fjallað verður um þau málefni af sjónarhóli stofnunarinnar.

Kjarni starfsemi ÍSOR er sjálfbær þróun og meiningin er að skapa umræðu um ólík viðfangsefni sem þó tengjast þessu þrennu, orku, auðlindum jarðar og sjálfbærni.

Við hrindum ÍSORÐI úr vör með áhugaverðu erindi um Jarðhitaleit á köldum svæðum.

Hlökkum til að sjá sem flesta.

Til að tengjast fundinum smellið þá hér

Opið hús í nýjum höfuðstöðvum ÍSOR að Urðarhvarfi 8

Opið hús í nýjum höfuðstöðvum ÍSOR að Urðarhvarfi 8

Í stað hefðbundins ársfundar í ár bauð ÍSOR góðum gestum í opið hús í nýjar

Ljósm.: Andrés Skúlason

höfuðstöðvar að Urðarhvarfi 8 í Kópavogi. Stjórnarformaður ÍSOR, Þórdís Ingadóttir, og forstjóri, Árni Magnússon, kynntu helstu lykiltölur og verkefni síðasta árs fyrir ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála, Guðlaugi Þór Þórðarsyni. https://isor.is/um-isor/arsyfirlit/

Rætt var um jákvæða þróun í rekstri og mikilvægi þekkingar ÍSOR fyrir vegferð íslenskra stjórnvalda í orkumálum til framtíðar. Af þessu tilefni var opnaður nýr vefur ÍSOR (www.isor.is) og þar má m.a. finna tvær nýjar vefsjár:

Jarðfræðikort og náttúrufar https://arcgisserver.isor.is/

Hafsbotnsrannsóknir https://arcgisserver.isor.is/ocean

Starfsfólk ÍSOR býður alla velkomna að heilsa upp á okkur, bæði til að spjalla í notalegu skrifstofurými eða líta á nýja sérhæfða efnarannsóknarstofu. Þá er aðstaða jarðhitaskóla GRÓ líka á 4. hæð og þar er líf og fjör, sérstaklega þegar 6 mánaða námskeiðin standa yfir.

Heimsókn frá Indónesíu

ÍSOR hefur á undanförnum árum tekið þátt í nokkrum verkefnum á sviði jarðhita í Indónesíu, í samstarfi við önnur íslensk fyrirtæki, s.s. verkfræðistofurnar Mannvit og Verkís, borverktakann North Tech Energy o.fl.

Indónesía er afar ríkt af jarðhitaauðlindum en talið er að allt að 40% af jarðhita, virkjanlegum til raforkuframleiðslu í heiminum öllum, sé að finna á eyjunum. Indónesar hafa sett sér metnaðarfull markmið á sviði loftslagsmála og kolefnishlutleysis og ráðgera að hlutur jarðhitans á þeirri vegferð verði verulegur. Í því felast tækifæri til útflutnings íslenskrar sérþekkingar, sem ÍSOR hefur hug á að fylgja eftir.

Í síðustu viku tóku íslensku fyrirtækin á móti Arifin Tasrif, indónesískum ráðherra Orku og jarðrænna auðlinda. Var hann hingað kominn til að kynna sér aðstæður á Íslandi, sem jarðfræðilega svipar um margt til aðstæðna í hans heimahögum. Með í för voru m.a. Ahmad Yuniarto, forstjóri orkufyrirtækisins Pertamina og Eko Budi Lolono, forstjóri Jarðfræðistofnunar Indónesíu, ásamt sendiherra Indónesíu gagnvart Íslandi o.fl.