Skip to content

Borholumælingar á Terceira-eyju

Jarðeðlisfræðingur ÍSOR hefur undanfarna daga sinnt borholumælingum á Terceira-eyju, Azoreyjum, Portúgal. Um er að ræða mælingar sem nýtast við að staðsetja samskeyti á fóðringu vinnsluholu og hvar heppilegt sé að hefja útúrborun. ÍSOR vinnur verkið fyrir Jarðboranir. Iceland Drilling Ltd og EDA sem er orkufyrirtæki í eigu portúgalskra stjórnvalda. Á grunni rannsókna sem ÍSOR tók þátt í að vinna 2013-2014 á afköstum fjögurra jarðhitaholna á Terceira, var reist virkjun (2,5-3 MW) og nú er verið að afla aukinnar orku fyrir hana.
Azoreyjar eru níu eyja eldfjallaklasi á miðju Atlantshafi, beint vestur af Portúgal. Þrátt fyrir siglingar hinna og þessa snillinga frá örófi alda þá telst eyjaklasinn ekki hafa fundist fyrr en á fyrri hluta 15. aldar, löngu eftir landnám á Íslandi. Þar búa um 250 þúsund manns, flestir á eynni San Miguel. Á Azoreyjum er m.a. blómleg nautgriparæktun og þar býr afburðagott kyn mjólkurkúa.
Á myndum má sjá jarðhitaborholur í góðum félagsskap við íbúa Terceira eyjarinnar og starfsmann ÍSOR að störfum.
 
Myndir: Þorsteinn Egilson