ÍSORÐ – fjórði viðburðurinn sem ÍSOR býður upp á.

Það er komið að næsta ÍSORÐ-i, röð viðburða sem ÍSOR hrinti af
stað 2022.

ÍSORÐ ið fer fram á netinu og er öllum boðin þátttaka,
almenningi, fjölmiðlum og fræðasamfélagi.
Að þessu sinni verður fjallað um sjálfbærni jarðhitanýtingar og mun fundurinn fara fram miðvikudaginn 31. maí, kl. 13:15

Jón Einar Jónsson, forðafræðingur hjá ÍSOR, í samvinnu við Guðna Axelson, skólastjóra Jarðhitaskólans og  forðafræðing, mun fjalla um sjálfbærni jarðhitanýtingar og útlista hvers vegna nauðsynlegt sé að stilla nýtingunni í hóf þannig að auðlindirnar hafi tækifæri til að endurnýja sig. Lykillinn að því að finna rétta jafnvægið í nýtingu er öflugt og gott eftirlit til að tryggja að varlega og skynsamlega sé farið með auðlindina og að hún sé nýtt á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt.

Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi stöðu hitaveitna á Íslandi, eins og kemur fram í nýútgefinni skýrslu um stöðu hitaveitna í landinu, sem ÍSOR vann fyrir  Umhverfis –, orku og loftslagsráðuneyti. 

https://www.stjornarradid.is/library/02 Rit skyrslur og skrar/URN/230430_URN_Hitaveitur_Web.pdf

Okkur þætti vænt um að sjá þig á Teams og langar að bjóða þér að hitta okkur og hlýða á erindi Jóns Einars, miðvikudaginn 31. maí, kl. 13:15. Að erindi loknu verður boðið upp á umræður og spurningar.

Smellið á hlekkinn hér til að sjá upptöku frá fundinum

Kveðja, ÍSOR

Tæknimanneskja í borholumælingum

Í ljósi vaxandi umsvifa leitar ÍSOR að metnaðarfullum einstaklingi í starf tæknimanneskju í borholumælingum.

 

Helstu verkefni:

 • Borholumælingar
 • Sinna viðhaldi, viðgerðum, þróun og endurbótum á búnaði tengdum rekstri borholumælinga
 • Umsjón með prófunum og kvörðunum tækja í samræmi við skilgreind gæðaferli
 • Umsjón með bifreiðum ÍSOR
 • Innkaup og samskipti við birgja

 

Menntunar- og hæfniskröfur:

 • Iðn- eða tæknimenntun eða sambærileg menntun eða reynsla sem nýtist í starfi
 • Æskilegt að viðkomandi hafi reynslu af viðhaldi tækja
 • Meirapróf og vinnuvélapróf æskilegt
 • Frumkvæði og öguð vinnubrögð
 • Lipurð í mannlegum samskiptum

 

Við bjóðum:

 • Þátttöku í fjölbreyttum verkefnum
 • Góðan hóp samstarfsfólks
 • Nútímalega vinnuaðstöðu
 • Fjölskylduvænan vinnustað með sveigjanlegan vinnutíma

 

Um er að ræða 100% starf hjá ÍSOR í Kópavogi. Starfið getur falið í sér vinnu á landsbyggðinni, erlendis og langa vinnudaga á köflum. Við ráðningar er tekið mið af jafnréttisáætlun ÍSOR og hvetjum við öll kyn til að sækja um. Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags.

 

Umsóknarfrestur er til og með 6. júní 2023. Umsóknir geta gilt í hálft ár frá því að umsóknarfrestur rennur út.

 

Nánari upplýsingar um starfið veitir Steinþór Níelsson, sviðsstjóri Nýtingar [email protected].

 

ÍSOR leggur áherslu á jöfn tækifæri starfsfólks, ánægða og árangursmiðaða liðsheild og framþróun. Metnaður ÍSOR er að vera í fararbroddi þekkingar á sviði sjálfbærrar nýtingar jarðrænna auðlinda og virðisskapandi lausna sem miða að því að koma jörðinni og fólki til góða.

 

Aðalstöðvar ÍSOR eru í Kópavogi og starfsstöð er á Akureyri.

Sækja um starfið

Jarðhitavirkni undir hringvegi

Vart hefur orðið við aukna jarðhitavirkni undir þjóðveginum í Hveradalabrekku við Skíðaskálann í Hveradölum. Vegna sérþekkingar og reynslu ÍSOR á kortlagningu jarðhita og reynslu af umhverfiseftirliti vorum við fengin til ráðgjafar fyrir Vegagerðina sem fylgist nú grannt með ástandi vegarins.

Sjá hér á vef Vegagerðarinnar

Úttekt ÍSOR á stöðu hitaveitna

Á fagþingi Samorku sem haldið er á Selfossi kynntu sérfræðingar ÍSOR niðurstöður skýrslu sem unnin var fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Skýrslan ber heitið Hitaveitur á Íslandi – úttekt á stöðu hitaveitna og nýtingar jarðhitavatns til húshitunar. Skýrslan var fyrst kynnt á blaðamannafundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar ráðherra fyrr í dag og hér fyrir neðan er upptaka frá þeim fundi. Skýrslan er aðgengileg á vef Stjórnarráðsins

https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2023/05/04/Uttekt-a-stodu-hitaveitna-beint-streymi-fra-kynningu/