Alexandra K. Hafsteinsdóttir hlýtur Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands og Hugo Alejandro Arteaga Vivas sérstaka viðurkenningu fyrir verkefni unnin hjá ÍSOR

Alexandra K. Hafsteinsdóttir, nemandi í meistaranámi í jarðfræði við Háskóla Íslands og starfsmaður ÍSOR, hlaut Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands fyrir verkefni sitt Kortlagning grunnvatns á Reykjanesskaga. Jafnframt hlaut Hugo Alejandro Arteaga Vivas, nemandi í meistaranámi í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, sérstaka viðurkenningu forseta Íslands fyrir verkefnið Vöktun á útbreiðslu gufupúða á háhitasvæðum.

Bæði verkefnin voru unnin hjá ÍSOR og byggja á rannsóknum sem hafa mikilvægt gildi fyrir vöktun og nýtingu náttúruauðlinda á Íslandi.

Verðlaunin afhenti Halla Tómasdóttir forseti Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þriðjudaginn 20. Janúar 2026.

Halla Tómasdóttir forseti Íslands afhendir Alexöndru nýsköpunarverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Ljósmynd Arnaldur Halldórsson

Kortlagning grunnvatns á Reykjanesskaga – Alexandra K. Hafsteinsdóttir

Markmið rannsóknar Alexöndru var að kortleggja grunnvatnsstrauma á Reykjanesskaga með því að mæla leiðni (seltu) og greina anjónir í ferskvatni víðsvegar á skaganum, á sama tíma og þróað var verklag í kringum nýja rafknúna vatnsdælu. Tekin voru 24 sýni af grunnvatni víðsvegar á skaganum sumarið 2025 úr grunnum ferskvatns borholum. Í tíu borholum voru tekin sýni með nýju dælunni, sem fengið hefur viðurnefnið „Perlufestin“. Hún er einstaklega þægilegt og fyrirferðarlítið verkfæri til sýnatöku, ólíkt hefðbundnum vatnsdælum sem eru sverar, þungar, og knúnar áfram af stórum rafstöðvum.

Perlufestin hentar vel til sýnatöku úr grönnum ferskvatnsholum sem ekki er hægt að koma hefðbundinni borholudælu í, og auðvelt að flytja hana fótgangandi milli staða sem eru annars óaðgengilegir. Leiðni og anjónir voru mældar í vatnssýnunum, og niðurstöður greininganna settar fram á kortum sem sýna dreifingu þeirra á skaganum. Niðurstöðum ber vel saman við fyrri rannsóknir á vatnafari skagans. Skýr skil eru milli vatnasvæða, sem tengjast mismunandi berggrunni á hverju svæði fyrir sig. Níunda eldgosið á Sundhnúkagígaröðinni hófst við framkvæmd rannsóknarinnar. Fjöldi sýna voru tekin í návígi við gosstöðvarnar á meðan á því stóð, og þau borin saman við eldri gögn af svæðinu. Niðurstöður efnagreininga sýna sem voru tekin benda ekki til þess að eldvirkin hafi markverð áhrif á efnasamsetningu grunnvatnsins, en lítil sem engin breyting er á efnainnihaldi grunnvatns á svæðinu frá upphafi mælinga.

Leiðbeinendur Alexöndru voru Sveinborg Hlíf Gunnarsdóttir, Finnbogi Óskarsson, Auður Agla Óladóttir og Sigurður Garðar Kristinsson jarðfræðingar hjá ÍSOR.

Halla Tómasdóttir forseti Íslands og Hugo við athöfnina á Bessastöðum. Ljósmynd Arnaldur Halldórsson

Vöktun á útbreiðslu gufupúða á háhitasvæðum – Hugo Alejandro Arteaga Vivas

Á háhitasvæðum í vinnslu eru heitt vatn og gufa unnin úr jörðu í gegnum borholur, og er gufan nýtt til þess að knýja túrbínur til raforkuframleiðslu. Með tímanum getur vinnsla leitt til þess að gufumagn eykst og s.k. gufupúði myndast vegna þrýstingslækkunar í jarðhitakerfinu. Til þessa hefur engin bein leið verið til að vakta þróun slíkrar gufupúðamyndunar önnur en stakar mælingar í borholum. Í nýlegri grein Pilar Sánchez-Pastor o.fl. (2023),er sýnt fram á aðferð sem notar s.k. jarðsuð til þess að fylgjast samfellt með breytingum í gufumagni í jarðhitakerfum. Jarðsuð er hægt að mæla með jarðskjálftamælum, og er forsenda aðferðarinnar sú að jarðskjálftabylgjur ferðast hægar í gegnum gufumettuð svæði en vatnsmettuð.

Markmið verkefnisins var að nýta og þróa áfram þessa aðferð út frá samfelldum mælingum á jarðsuði. Í verkefninu voru þróuð forrit til gagnaúrvinnslu og myndrænnar framsetningar, og var þeim beitt á þrjú ár af jarðskjálftagögnum frá nokkrum jarðskjálftastöðvum í nágrenni vinnslusvæðis jarðhita á Hellisheiði.

Vel tókst að endurskapa fyrri niðurstöður sem eru í samræmi við mælda þrýstingslækkun og landsig af völdum vinnslunnar á svæðinu. Verkefnið sýndi því fram á að þessa aðferð sé hægt að nýta til þess að fylgjast samfellt með breytingum í gufumagni á jarðhitasvæðum á hagkvæman hátt. Næstu skref eru að þróa og prófa aðferðina á öðrum jarðhitasvæðum í nýtingu.

Leiðbeinendur Hugo voru Þorbjörg Ágústsdóttir jarðeðlisfræðingur og sérfræðingur í jarðskjálftarannsóknum, Egill Árni Guðnason jarðeðlisfræðingur og Rögnvaldur L. Magnússon eðlisfræðingur hjá ÍSOR ásamt Pilar Sánchez-Pastor hjá GEO3BCN.

Halla Tómasdóttir forseti Íslands, Alexandra og Hugo við hátíðlega athöfn á Bessastöðum

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands voru fyrst veitt árið 1996.

Í stjórn sjóðsins 2023-2026 sitja: Björgvin Stefán Pétursson, formaður, skipaður án tilnefningar, Sævar Helgi Bragason, tilnefndur af vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs, Ásdís Jóhannesdóttir, tilnefnd af Samtökum iðnaðarins, Alexandra Briem, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Erla Guðbjörg Hallgrímsdóttir, tilnefnd af Landssamtökum íslenskra stúdenta.

Verðlaunin eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2025 en sjóðurinn heyrir undir menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið.

Tilkynning Nýsköpunarsjóðs námsmanna

Alexandra og Hugo fagna með leiðbeinendum sínum á Bessastöðum
Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2026 hlaut Alexandra K. Hafsteinsdóttir sem fagnar með forseta Íslands og leiðbeinendum sínum hjá ÍSOR. Ljósmynd Arnaldur Halldórsson
Verkefni Hugo fékk einnig sérstaka viðurkenningu sem fagnar hér með forseta Íslands og leiðbeinendum sínum hjá ÍSOR. Ljósmynd Arnaldur Halldórsson

Aðkoma ÍSOR að 10 MW gufuaflsvirkjun styður við orkuskipti á Dóminíku í Karíbahafi

ÍSOR og HD ehf. hafa undirritað samning við DGDC Ltd. (Dominica Geothermal Development Company Ltd.) um eftirlit með gangsetningu og rekstri 10 MW gufuaflsvirkjunar á Dóminíku í Karíbahafi. Samningurinn tekur jafnframt til samantektar og úrvinnslu gagna um viðbrögð jarðhitakerfisins við vinnslu, sem rekstraraðila virkjunarinnar ber að skila eiganda jarðhitaauðlindarinnar.

Samvinna ÍSOR og HD ehf felst í að HD leggur til sérfræðinga á sviði gangsetningar, reksturs og viðhalds jarðhitavirkjanna og mun ÍSOR annast þá þætti sem lúta að gerð og eðli jarðhitakerfisins, efna- og forðafræðilegum eiginleikum þess, auk mats á viðbrögðum kerfisins við vinnslu.

Gufuaflsvirkjunin í Dóminíka

ÍSOR hefur komið að jarðhitarannsóknum á Dóminíku og veitt stjórnvöldum landsins ráðgjöf allt frá árinu 2010, sem felst meðal annars í borun og úrvinnslu gagna úr þeim sjö jarðhitaholum sem boraðar hafa verið á eyjunni. Holurnar voru allar boraðar af Jarðborunum hf. og þar af eru þrjár nýttar sem vinnsluholur og ein sem niðurrennslihola.

DGDC Ltd. starfar í umboði stjórnvalda Dóminíku og hefur umsjón með borholunum auk þess að vera eigandi jarðhitaauðlindarinnar og virkjunarinnar. 

Uppsett afl virkjunarinnar er 10 MW og mun raforkuframleiðsla hennar leysa af hólmi núverandi raforkuframleiðslu með díeselolíu. Verkefnið felur því í sér umtalsverða breytingu til hins betra í kolefnisbókhaldi Dóminíku, sem telur um 70.000 íbúa og er mikilvægt skref í átt að sjálfbærari og umhverfisvænni orkuframleiðslu á eyjunni.

Nýr Háhitadjúpsýnataki – framfaraskref með nýsköpun í rannsóknum og nýtingu jarðhita

ÍSOR hefur frá stofnun lagt ríka áherslu á rannsóknir, nýsköpun og þróun hagkvæmra lausna til að mæta áskorunum tengdum nýtingu jarðhita.

Nýjasta dæmið um slíka nýsköpun er háhita djúpsýnataki, sem er afrakstur umfangsmikillar þróunarvinnu í evrópsku rannsóknarverkefnunum REFLECT og COMPASS, sem voru styrkt af Horizon Europe, rannsóknaráætlun Evrópusambandsins. 

Djúpsýnatakinn er hannaður til að taka sýni af jarðhitavökva djúpt í jarðhitakerfum með það markmið að ná sýnum við allt að 400-500°C hita. Í þróunarvinnunni hefur djúpsýnatakinn verið prófaður til að taka sýni úr holum Orku Náttúrunnar og Orkuveitunnar.

ÍSOR teymið að störfum

Tækið var nýverið notað í fyrsta sinn í háhitaholum Landsvirkjunar á Þeistareykjum, þar sem tekin voru vökvasýni af mismunandi dýpum úr tveimur borholum.

Með þessari tækni er unnt að ná fram mun nákvæmari efnafræðilegum upplýsingum úr jarðhitakerfinu en áður hefur verið mögulegt þar sem venjulega eru eingöngu tekin sýni af jarðhitavökva á yfirborði. Slík gögn eru lykilatriði fyrir eftirlit, ástandsmat og langtíma skilning á þróun jarðhitakerfa.

Þau gera orkufyrirtækjum kleift að fylgjast betur með breytingum í jarðhitakerfinu, meta áreiðanleika kerfisins, áhrif niðurdælingar og styðja við sjálfbæra og upplýsta ákvörðunartöku til framtíðar.

Innleiðing háhita djúpsýnatakans markar því mikilvægt framfaraskref í notkun nýrrar tækni við íslenska jarðhitanýtingu og stuðlar að betri og sjálfbærari nýtingu jarðhitaauðlindarinnar.

Háhitadjúpsýnatakinn á leið niður í háhitaholu á Þeistareykjum

Hér fyrir neðan má sjá myndband frá deginum er djúpsýnatakinn var notaður í fyrsta sinn í háhitaholum Landsvirkjunar á Þeistareykjum.

EMODnet ráðstefna og vinnustofa um jarðfræði hafsbotns haldin á Íslandi 3.-6. júní 2025

Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), í samstarfi við Háskóla Íslands og Jarðfræðafélag Íslands, mun halda ráðstefnu og vinnufund EMODnet-Geology verkefnisins, í fyrsta sinn á Íslandi. Í fyrstu viku júnímánaðar munu 55 jarðvísindamenn frá 26 evrópskum jarðfræðistofnunum og rannsóknaraðilum koma saman til að ræða núverandi og möguleg framtíðarverkefni hafsbotnsrannsókna og áframhaldandi uppbyggingu á gagnagrunni. Um er að ræða […]

Continue reading