Eldgos við Litla-Hrút og jarðskjálftavöktun á ÍSOR

ÍSOR hefur unnið með Tékknesku vísindaakademíunni í Prag frá árinu 2013, en akademían hefur rekið 17 jarðskjálftamæla á Reykjanesskaga í samvinnu við ÍSOR. Jarðskjálftamælanetið, sem kallast REYKJANET, þekur skagann nokkuð vel allt að Geitafelli í austri, sjá græna þríhyrninga á mynd. Þessir mælar hafa skráð jarðskjálfta á Reykjanesskaga samfellt síðustu árin, ásamt mælum Veðurstofu Íslands á skaganum (bláir þríhyrningar á mynd). Samvinna ÍSOR og Tékkanna síðustu 2 árin hefur farið fram innan EES styrkta rannsóknarverkefnisins NASPMON, en innan þess voru m.a. allir jarðskjálftamælarnir settir í rauntímastreymi. Til að fá betri upplausn á jarðskjálftastaðsetningum til náttúruvárvöktunar vegna jarðhræringanna sem hófust í febrúar 2021 var byrjað að streyma jarðskjálftagögnum frá 8 af 17 jarðskjálftamælum í REYKJANETI til Veðurstofunnar frá ÍSOR. Þetta er gert með sérstöku samkomulagi vegna náttúruvárvöktunar, og samanlagt hafa þessar mælistöðvar gegnt lykilhlutverki náttúruvárvöktunar á Reykjanesskaga frá því að umbrot hófust, og eins til frekari skilnings á því hvað þarna er í gangi.
Á þessum umbrotatímum hefur einn mælir, FAF austan Fagradalsfjalls, verið ómetanlegur í náttúruvárvöktun sökum staðsetningar sinnar, bæði upp á nákvæmari staðsetningu jarðskjálfta og ekki síður til vöktunar á gosóróa (sjá mynd). Nú stefnir hraunstraumurinn í yfirstandandi eldgosi hins vegar beint á FAF, svo að við reynumst nauðbeygð til þess að fjarlægja stöðina í samvinnu við Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands. Hennar verður sárt saknað! Á meðfylgjandi óróagrafi af FAF frá Veðurstofu Íslands sést vel hvenær annars vegar jarðskjálftahrinan sem fylgdi kvikuhreyfingunum hófst, og svo hvenær eldgos hófst í gær, þann 10. júlí kl. 16:40.
Á meðfylgjandi mynd eru einnig sýndar sjálfvirkar jarðskjálftastaðsetningar kvikugangsins og gikkskjálftum austan Keilis (rauðir punktar), reiknaðar í nær-rauntíma á ÍSOR, sem hóf framrás sína þann 4. júlí og náði til yfirborðs í eldgosi við Litla-Hrút í gær, þann 10. júlí.

Verkefni ÍSOR og samstarfsaðila í Indlandi

Eins og hefur áður komið fram, hefur ÍSOR ásamt samstarfsaðilunum Verkís og Techon India, verið að vinna að verkefnum undanfarið í Indlandi (https://isor.is/isor-og-verkis-toku-thatt-i-ferd-utanrikisraduneytisins-til-indlands/).
Einn af viðskiptavinum ÍSOR á Indlandi er eitt af stærstu olíufyrirtækjum Indlands, ONGC (Oil- and Natural Gas Corporation Limited – https://ongcindia.com), en það fyrirtæki er nú farið að kanna möguleika á jarðhitanýtingu víða á Indlandi.
ÍSOR og Verkís, ásamt Techon, eru einnig í samningaviðræðum við annan aðila í Indlandi sem hefur svipuð áform.
Í eftirfarandi frétt, á vefmiðlinum ThinkGeoEnergy (www.thinkgeoenergy.com), má lesa um þessi áform ONGC.
https://www.thinkgeoenergy.com/ongc-updates-on-geothermal-development-work-in-india/

ÍSOR áfram í óbreyttri mynd

Undanfarið ár hefur farið fram skoðun á því hvort og þá með hvaða hætti, mætti sameina tilteknar undirstofnanir Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. 

Forsagan er sú að við myndun síðustu ríkisstjórnar varð fyrrgreint ráðuneyti til en undir það heyra fjölmargar stofnanir, starfsfólkið telur vel á sjöunda hundrað og er dreift víða um land. Það blasti því við að skynsamlegt var að kanna hvort og þá með hvaða hætti mætti auka slagkraftinn, einkum með tilliti til þeirra fjölmörgu verkefna sem snúa að loftslagsmálum.

Eftir talsvert mikla vinnu á vegum ráðuneytisins var sett fram tilgáta sem gerði ráð fyrir sameiningum fjölda stofnana í þrjár. Ein þeirra nefnd „Náttúruvísindastofnun“ þar sem til greina kom að sameina Veðurstofu, Náttúrufræðistofnun, Rannsóknastöðina við Mývatn, Landmælingar og mögulega ÍSOR. Raunar var allt frá upphafi framsetningar þessarar tilgátu hafður skýr fyrirvari um það af hálfu ráðuneytisins að vegna sérstöðu ÍSOR í þessu samhengi, m.t.t. rekstrarforms og eðlis verkefna, yrði það kannað sérstaklega hvernig best mætti tryggja að ÍSOR gæti áfram þjónustað sína helstu viðskiptavini, s.s. orku- og veitufyrirtæki landsins ásamt stjórnvöldum.

Nú hefur ráðuneytið komist að niðurstöðu um að ÍSOR verði ekki sameinað öðrum í stærri A-hluta stofnun. Það er í samræmi við álit stjórnar ÍSOR, meirihluta starfsfólks og stjórnenda.

Með þeirri ákvörðun er óvissu um stöðu ÍSOR eytt og starfsemin heldur áfram óbreytt.

ÍSOR fagnar 20 ára afmæli

Þann 1. júlí 2023, fagnaði ÍSOR 20 ára afmæli. Það var á þeim degi árið 2003 sem ný lög tóku gildi um Íslenskar orkurannsóknir og ný stofnun tók við verkefnum sem í áratugi höfðu verið á hendi Orkustofnunar og frá 1997 Rannsóknasviðs hennar. ÍSOR byggir því á traustum grunni sem lagður var af hópi sérfræðinga sem braut blað í sögu jarðhitanýtingar á Íslandi með rannsóknum og ástríðu sinni fyrir þeim. Nú 20 árum síðar stendur starfsfólk ÍSOR ásamt heimsbyggðinni allri frammi fyrir nýjum áskorunum, m.a. í orkumálum og loftslagsmálum. Það er ljóst að jarðvísindaleg þekking ÍSOR og hagnýting hennar, ásamt reynslu, þekkingu og gögnum fyrri kynslóða munu verða grundvöllur farsælla lausna og ákvarðana sem leiða okkur áfram til bjartrar framtíðar. Starfsfólk ÍSOR heldur ótrautt áfram á þeirri vegferð, undir slagorðinu “Sjálfbærni í verki”.