Skip to content

ÍSOR fagnar 20 ára afmæli

Þann 1. júlí 2023, fagnaði ÍSOR 20 ára afmæli. Það var á þeim degi árið 2003 sem ný lög tóku gildi um Íslenskar orkurannsóknir og ný stofnun tók við verkefnum sem í áratugi höfðu verið á hendi Orkustofnunar og frá 1997 Rannsóknasviðs hennar. ÍSOR byggir því á traustum grunni sem lagður var af hópi sérfræðinga sem braut blað í sögu jarðhitanýtingar á Íslandi með rannsóknum og ástríðu sinni fyrir þeim. Nú 20 árum síðar stendur starfsfólk ÍSOR ásamt heimsbyggðinni allri frammi fyrir nýjum áskorunum, m.a. í orkumálum og loftslagsmálum. Það er ljóst að jarðvísindaleg þekking ÍSOR og hagnýting hennar, ásamt reynslu, þekkingu og gögnum fyrri kynslóða munu verða grundvöllur farsælla lausna og ákvarðana sem leiða okkur áfram til bjartrar framtíðar. Starfsfólk ÍSOR heldur ótrautt áfram á þeirri vegferð, undir slagorðinu “Sjálfbærni í verki”.