[x]

Siðareglur ÍSOR

Starfsmenn ÍSOR hafa í heiðri almennar siðareglur fyrir ríkisstarfsmenn, viðmið Sameinuðu þjóðanna og, eftir því sem við á, siðareglur fagfélaga og Háskóla Íslands. Að auki hafa starfsmenn ÍSOR eftirfarandi samskipta- og siðareglur að leiðarljósi sem samþykktar voru 4. september 2013:

Þekking

 • Á ÍSOR er varðveitt mikilvæg þekking á náttúrufari og nýtingu jarðrænna auðlinda. Hennar er aflað með grunnrannsóknum á sviðum jarðvísinda og tækniþróunar.
 • Starfsfólk eykur við kunnáttu sína og færni og miðlar til samstarfsfólks, viðskiptavina og almennings.
 • Útgefið efni, skýrslur, greinargerðir, teikningar og kort er alltaf auðkennt ÍSOR og höfundum eftir því sem við á. Hið sama á við um kennslu- og kynningarefni á vegum ÍSOR.

Virðing

 • Starfsfólk ÍSOR vinnur að verkefnum sínum af ábyrgð og með virðingu fyrir náttúrunni, viðskiptavinum og samstarfsaðilum, innan lands sem utan.
 • Starfsfólk tekst á við verkefni sín af heiðarleika, fagmennsku og sanngirni, og stuðlar að gagnsæjum starfsaðferðum og góðum samskiptum.
 • Starfsfólk forðast hagsmunaárekstra, gerir sér grein fyrir mögulegum hagsmunatengslum og gætir þess að þau valdi ekki tortryggni.
 • Starfsfólk gætir að andlegri og líkamlegri heilsu sinni og samstarfsfólks og setur í öndvegi öryggi, heilsu og velferð.
 • Starfsfólk kappkostar að skapa traust á starfi sínu og gætir að orðspori ÍSOR. Í því felst m.a. að vera snyrtilega til fara og neyta ekki áfengis nema í hófi.
 • Hjá ÍSOR er lögð rík áhersla á jafnan rétt og möguleika í starfi, óháð kyni.
 • Starfsfólk tekur fullt tillit til framlaga annarra og vitnar á tilhlýðilegan hátt til verka þeirra.

Samfélagsleg ábyrgð

 • Starfsemi ÍSOR stuðlar að verndun náttúru og nýtingu jarðrænna auðlinda, í sátt við umhverfið og í þágu samfélagsins.
 • Starfsfólk spornar gegn spillingu og þiggur hvorki né sækist eftir gjöfum eða fríðindum sem líta má á sem greiða eða endurgjald fyrir sérstaka þjónustu.
 • Starfsfólk ÍSOR virðir mannréttindi og fordæmir brot á þeim. Því samræmist það ekki starfi hjá ÍSOR að kaupa né þiggja vændisþjónustu eða sækja nektardansstaði.

Tenglar á siðareglur: