Skip to content

Sameiningar stofnana: Tryggja á að ÍSOR geti áfram veitt orkuiðnaðinum og opinberum aðilum þjónustu og ráðgjöf á sínu sviði.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnar í gær þau áform að sameina tíu af stofnunum ráðuneytisins í þrjár öflugar stofnanir — Náttúruverndar- og minjastofnun, Náttúruvísindastofnun og Loftslagsstofnun. Efla á stofnanir ráðuneytisins til að takast á við gríðarlegar áskoranir sem bíða okkar sem samfélags og eru þar loftslagsmálin efst á blaði. Megináhersla er lögð á að tryggja áfram fyrirliggjandi mannauð og þekkingu og að starfsfólk njóti forgangs til nýrra starfa.

Innlegg í þessa vinnu er einnig yfirstandandi skoðun á ÍSOR þar sem leiðarljósið er að tryggja að stofnunin geti áfram veitt orkuiðnaðinum og opinberum aðilum þjónustu og ráðgjöf á sínu sviði.

Í Náttúruvísindastofnun er gert ráð fyrir að sameinist Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofa Íslands, Landmælingar Íslands, ÍSOR (Íslenskar orkurannsóknir) og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn. Gert er ráð fyrir skýrum kjarna í starfsemi hverrar stofnunar og lögð áhersla á sveigjanleika í tilfærslum verkefna milli stofnana til að auka árangur, skilvirkni og hagræðingu. Endanleg afstaða hefur ekki verið tekin til staðsetninga höfuðstöðva nýrra stofnana, en með tilliti til byggðasjónarmiða er lögð mikil áhersla á fjölgun starfa á landsbyggðinni.

Nánari upplýsingar um áform ráðherra er að finna í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins

Stjórnarráðið | Þrjár öflugar stofnanir í stað tíu (stjornarradid.is)