Skip to content

Boranir við Langhús í Fljótum

Verkkaupi: Skagafjarðarveitur
Verktími: 2015-2016
Verkefnastjóri ÍSOR: Þórólfur H. Hafstað

ÍSOR veitti jarðfræðirágjöf við borun á nýrri holu, LH-4, fyrir Skagafjarðarveitur. Vatnsmagnið úr nýju holunni reyndist miklu meira en væntingar voru til og hitinn hærri. Vonast var eftir 4 L/s og vatnshita um 100°C en upp komu meira en 30 L/s og hitinn var allt að 110°C. Óalgengt er að fá svo heitt vatn úr grunnum borholum á lághitasvæðum hérlendis. Vatnið verður notað í hitaveitu um Fljótin sem Skagafjarðarveitur eru að leggja.

Borhola LH-4 við Langhús er hér fullopin og í gosi rétt áður en lokanum var komið fyrir. Ljósmynd: Skagafjarðarveitur.

Jarðhiti á Tröllaskaga

Jarðhiti er nokkuð útbreiddur á utanverðum Tröllaskaga. Hitaveitur eru til að mynda á öllum þéttbýlisstöðunum og er sú nýjasta á Hofsósi. Þar er notað heitt vatn utan úr Hrollaugsdal sem fannst eftir umfangsmikla jarðhitaleit. Skagafjarðar­veitur hafa á undaförnum ára­tugu­m einnig lagt alllangar leiðslur í dreif­býli í héraðinu og er mikill meirihluti þess nú jarð­hitavæddur.

Fyrri rannsóknir og jarðhitaleit

Jarðhiti í Fljótum hefur verið þekktur lengi á allmörgum stöðum og var rannsakaður lítillega á níunda áratugnum. Heitt vatn var og er notað á nokkrum bæjum þar, einkum í nágrenni við Reykjarhól í Austur-Fljótum og ekki síður Barðslaug og Sólgarða en þar er skóli og sundlaug.

Töluvert umfangsmiklar yfirborðsrannsókn­ir höfðu verið gerðar í sveitinni fyrir 1990 og þá var ljóst orðið að jarðhitinn fylgdi yfirleitt norð-suðlægum sprungum. Efna­greiningar bentu til að heitast væri vestast á svæðinu, við Barðslaug og Reykjarhól á Bökkum, en að í Austur-Fljótum mætti búast við lægri hita. Á báðum þessum svæðum þóttu vera allgóðar líkur á jarðhita samkvæmt viðnámsmælingum.

Tvær fiskeldisstöðvar voru stofnsettar á níunda áratugnum í Fljótum í grennd við þekkta jarðhitastaði; annars vegar á Lambanesreykjum/Hraun­um og hins vegar við Reykjarhól á Bökkum og þar var á báðum stöðum borað eftir heitu vatni. Hvorug þessara fiskeldisstöðva hefur lifað af þrátt fyrir heitt vatn.

Á svæðinu utan við Barð er jarðhiti í landi Lang­húsa. Þar hét áður Dælislaug og var fyrst borað við hana árið 1997 eftir að vandræði urðu við nýtingu laugarinnar. Þá fannst sprunga sem gaf sjóðandi heitt vatn á innan við 80 m dýpi. Aftur var borað þarna 2014 og þá niður á um 200 m dýpi. Þá fékkst mun meira vatn og nóg til að Skaga­fjarðarveitur byrjuðu á hitaveitulögn um Fljót. Nokkuð vantaði þó á að nægu vatnsmagni hefði verið náð en fyrri áfangi veitulagnarinnar um Austur-Fljót og Stíflu var gerður sumarið 2015. Jafnframt var boruð ný hola sem lukkaðist ekki. Ljóst var að sprungan sem veitti jarðhitanum upp hallaði öðruvísi en ráðgjafar ÍSOR töldu.

Fjórða holan, LH-4, var staðsett með tilliti til þess, og var boruð 2015-2016. Hún varð 170 m djúp og þá farin að gjósa um 30 L/s sem er töluvert.

Niðurstöður

Á svæðinu fæst afar heitt vatn á óvenjulega litlu dýpi. Fyrirfram hafði verið búist við að dæla þyrfti vatninu upp. Holurnar voru því hannaðar með tillliti til sjóðandi vatns. Niðurstaðan varð hinsvegar að þarna fékkst yfirdrifið sjálfrennsli.