Skip to content

ÍSOR hreppir Nýsköpunarverðlaun IGC

Vel heppnaðri ráðstefnu íslenska orkuklasans, Iceland Geothermal Conference, lauk í Hörpu í gær. Alls voru nærri 600 þátttakendur á ráðstefnunni, frá 54 þjóðlöndum.

ÍSOR er stoltur aðili að Orkuklasanum og var virkur samstarfsaðili við undirbúning og framkvæmd IGC-ráðstefnunnar.

Okkar fólk tók þátt í og stýrði pallborðsumræðum, flutti fjölmörg erindi og við vorum með bás á séstakri „sölusýningu“ sem haldin var í tengslum við ráðstefnuna.

IGC hefur þegar fest sig í sessi sem ein af mikilvægustu ráðstefnum jarðhitaiðnaðarins, en í ráðstefnulok var tilkynnt ákvörðun stjórnar Orkuklasans um að næst yrði hún haldin í Hörpu í maí 2027.

Í lokaathöfninni voru Nýsköpunarverðlaun ráðstefnunnar veitt.

Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi tæknilega nýsköpun og/eða þróun á sviði jarðhitanýtingar sem gagnast getur við eftirfarandi:

  • Jákvæð áhrif á loftslag
  • Styður við sjálfbræni og dregur úr mengun
  • Er „byltingarkennd“ tækniframför
  • Er sannarlega nýjung á sviði jarðhitanýtingar
  • Eykur afköst og/eða skilvirkni í orkuvinnslu

Alls skiluðu 11 fyrirtæki inn umsóknum um tilnefningar til verðlaunanna, hvaðan æva að úr heiminum.

Í umsögn dómnefndar segir m.a. að ÍSOR hljóti Nýsköpunarverðlaun IGC 2024, fyrir „skriðtengi“ (Flexible Couplings), einkaleyfisvarða tækninýjung sem mæti öllum viðmiðum dómnefndar;  

auki öryggi og stöðugleika í rekstri, stuðli að auknu öryggi í borunum,  bæti við þekkingu á sviði jarðhitanýtingar og sé tækninýjung sem hafi burði til að ná almennri útbreiðslu á alþjóðavettvangi .“

Viðurkenningin er ÍSOR mikils virði og hvetur okkur til áframhaldandi þróunar tækniframfara á sviði jarðhitanýtingar.