Skip to content

GEOENVI – Mat og meðhöndlun umhverfisáhrifa jarðhitanýtingar í Evrópu

ÍSOR tók þátt í verkefninu GEOENVI, sem unnið var undir Horizon 2020 rannsóknaráætlunar Evrópusambandsins á árunum 2018-2021. Verkefnið var leitt af EGEC (European Geothermal Energy Council) en aðrir þátttakendur komu frá frá Belgíu, Ítalíu, Frakklandi, Ungverjalandi og Tyrklandi, auk Íslands. Markmiðið var að bæta aðferðafræði við mat og eftirlit með umhverfisáhrifum jarðhitanýtingar, greina helstu áhrif og áhættur til að auðvelda stjórnsýslu og eftirlitsaðilum að meta slík áhrif og ekki síst að miðla til almennings upplýsingum á skýran hátt. Þetta allt miðar að því að gera leyfis- og eftirlitsferli í Evrópu skilvirkara þannig að óskýrar reglur og ógagnsæ umræða um umhverfisáhrif hefti ekki aukna nýtingu jarðhita.

Á grundvelli sérfræðiþekkingar og áratuga reynslu fólst þáttur ÍSOR fyrst og fremst í að kortleggja umhverfisáhrif jarðhitanýtingar og skrifa ítarlega skýrslu um efnið þar sem áhrifin eru flokkuð eftir eðli þeirra, m.a. orsökum, afleiðingum, líkum á að þeirra verði vart og mögulegum mótvægisaðgerðum. Skýrslan nefnist „Report on environmental concerns; Overall state of the art on deep geothermal environmental data“ og hana má sjá og hlaða niður af vefsíðu GEOENVI: https://www.geoenvi.eu/publications/report-on-environmental-concerns-overall-state-of-the-art-on-deep-geothermal-environmental-data/. Þar má einnig nálgast gagnagrunn (Environmental database) sem að hluta byggir á innihaldi skýrslunnar og gerir notendum kleift að tengja saman orsakir og afleiðingar hinna ýmsu umhverfiáhrifa jarðhita á auðveldan og skýran hátt.