Jarðrænar auðlindir eru nánast allt sem jörðin geymir og okkar markmið er að vera leiðandi á heimsvísu í ráðgjöf á sviðum eins og til dæmis jarðhita, grunnvatns, vatnsorku og ýmissa jarðefna, okkar markmið er að vera leiðandi á heimsvísu í ráðgjöf á því sviði,“ segir Steinþór Níelsson, jarðfræðingur og sviðsstjóri nýtingar hjá ÍSOR.

„Meginstarfsemi ÍSOR er að veita þjónustu og ráðgjöf í tengslum við jarðhita, en þó einnig á ýmsum öðrum sviðum. Innan okkar raða er mjög hæft fólk á sviði jarðvísinda, efnafræði og verkfræði. Við búum einnig yfir ýmsum mjög sérhæfðum tækjabúnaði. Við nýtum okkur þekkingu á jarðfræði Íslands fyrst og fremst til þess leita að og finna jarðhita bæði til raforkuframleiðslu og húshitunar en einnig í ýmsa aðra beina notkun, líkt og vatn í heita potta, sundlaugar, ylrækt og alls konar iðnað. Við notum sömu aðferðafræði til að leita að neysluvatni í kranana hjá okkur um allt land. Þetta eru okkar helstu viðfangsefni.“

Útflutningur á þekkingu á jarðhita hjá ÍSOR

„Við höfum líka stundað aðrar jarðvísindarannsóknir, svo sem gullleit, almenna jarðfræðikortlagningu, hafsbotnsrannsóknir og höfum um áratugaskeið flutt út þekkingu á jarðhita.

Við leggjum áherslu á auðlindakortlagning með það í huga að auka þekkingu á jarðrænum auðlindum Íslands og þannig styðja við upplýsta ákvarðanatöku stjórnvalda um nýtingu eða friðun en það er mikið starf óunnið hér á Íslandi. Við viljum að aðgengi að grænni orku batni með aukinni fræðslu, bæði til almennings á Íslandi sem og stuðla að þjálfun sérfræðinga úti í heimi til að hraða þróun á grænum orkugjöfum á heimsvísu. Þannig viljum við styðja við sjálfbæra nýtingu auðlinda og auka orkuöryggi til framtíðar. Þegar kemur að sjálfri auðlindanýtingunni stuðlum við að því að auka skilvirka og hagkvæma auðlindanýtingu með því að leggja til ábyrgðarfulla nýtingu auðlinda.

ÍSOR við mælingar á streymi CO2 um jarðlög.

Á frumstigum jarðhitarannsókna er farið í jarðfræði- og sprungukortlagningu, sýnatökur og efnagreiningu á jarðhitavatni og ýmsar jarðeðlisfræðilegar mælingar. Þau gögn eru síðan notuð til þess að staðsetja borholur til að ná í jarðhitann. Þegar jarðhitinn er kominn í nýtingu býður ÍSOR upp á mjög sérhæfða þjónustu með borholumælingum en ÍSOR á tæki sem geta mælt gerð jarðlaga ásamt hitastigi og ástandi jarðhitageymisins. Við höfum mælt, allt frá mjög grunnum (nokkra tuga metra) leitarholum niður á tæplega 5 kílómetra dýpi þar sem hitinn getur verið vel yfir 400°C. Þessi gögn eru nýtt til að meta forða jarðhitakerfanna og aðstoða orkufyrirtæki til að nýta auðlindina á sem sjálfbærastan hátt.“

Steinþór nefnir einnig að ÍSOR hefur náð að nýta þá þekkingu sem byggst hefur upp á Íslandi til þess að aðstoða aðrar þjóðir við að byggja upp eigin jarðhitaiðnað.

„ ÍSOR hýsir nú GRÓ-Jarðhitaskólann (GRÓ-Geothermal Training Program) sem er eitt helsta framlag Íslands til þróunaraðstoðar á þessu sviði . Hingað koma sérfræðingar frá ýmsum þróunarlöndum í sex mánaða þjálfun í jarðhitageiranum. Þannig stuðlum við að uppgangi jarðhitans í öðrum löndum og hjálpum þróunarríkjum við að afla orku fyrir sína þegna og nýta til þess mun umhverfisvænni kosti en kol, olíu, gas eða aðra óvistvæna orkugjafa. Þannig viljum við bæta aðgengi íbúa Jarðar að grænni orku.“

Jarðfræðingur að störfum við jarðfræðikortlagningu.

Áskoranir fram undan

„Það sem er efst á baugi þessi misserin er að við finnum fyrir því að eftirspurn eftir heitu vatni á Íslandi hefur aukist mjög. Notkun hefur aukist mikið og eru nokkrir þættir þar ráðandi, til dæmis íbúafjölgun, uppbygging iðnaðar og aukin umsvif víðs vegar um land vegna ferðamanna. Einnig hefur orðið fjölgun baðlóna og smærri iðnaðar sem nýtir heitt vatn beint úr jörðu.

Við erum það lánsöm hérlendis að í orkukrísunni á 7. og 8. áratug síðustu aldar var gerð gangskör að því að hitaveituvæða Ísland. Það var gert, ekki af umhverfisástæðum á þeim tímapunkti, heldur var það talið ódýrara til lengri tíma en að flytja inn dýra olíu til kyndingar. Hitaveiturnar hafa þannig sparað Íslandi gríðarlega fjármuni og hafa um leið minnkað kolefnisfótspor okkar umtalsvert. Það er áætlað að hitaveitan í Reykjavík spari um 3 milljónir tonna af CO2 árlega en heildarlosun Íslands er talin vera tæplega 5 milljónir tonna árlega af CO2. Það eru tækifæri til þess að gera betur og til dæmis hefur olía verið notuð á Vestfjörðum til þess að kynda upp bæjarfélögin, tímabundið, þar sem skortur er á heitu vatni. Þar eru þó líklega ónýttir möguleikar í nýtingu jarðhita en leggja þarf í rannsóknir til þess að finna þá auðlind. Það eru áskoranir fram undan í því að halda í þau lífsgæði sem jarðhitinn veitir okkur með því að tryggja skynsamlega nýtingu og jafnframt finna ný svæði, en það þarf að hugsa áratugi fram í tímann, sérstaklega fyrir stóru byggðakjarnana suðvestanlands og á Norðurlandi. Eftirspurn eftir grænni orku hefur aukist innanlands og við viljum vera í stakk búin til að sinna því.

Sérfræðingar ÍSOR við sýnatöku á jarðhitasvæði.

Eins finnum við fyrir aukinni eftirspurn erlendis frá, bæði í því að veita ráðgjöf til erlendra aðila sem vilja nýta jarðhita til raforkuframleiðslu eða beint eins og til að mynda spænska olíufélagið Repsol, sem við erum að vinna með í að kortleggja jarðhitaauðlindina á Kanaríeyjum. Þá erum við einnig að vinna fyrir indverskt ríkisolíufyrirtæki að rannsóknum og jarðhitaborunum í Himalayafjöllunum og að ráðgjafarverkefni fyrir ríkisstjórn Tansaníu í tengslum við rannsóknarboranir. Á Dóminíku í Karíbahafinu, þar sem búa um 70 þúsund manns, erum við í rannsóknum og ráðgjöf sem snýr að því að virkja jarðhita á eyjunni og gera hana óháða innflutningi á jarðefnaeldsneyti landi og þjóð til mikilla hagsbóta og ekki síður loftslagsmálum til góða. Okkur þykir vænt um þessi verkefni þar sem við sjáum árangurinn sem felst í að lífskjör fólks batna með aðgengi að orku, kolefnisfótspor landa minnka og við sjáum beint í verki að verið er að vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, en það er yfirlýst markmið ÍSOR að styðja við minnkun kolefnisfótspors heimsins og hjálpa til við orkuskiptin.“

Styðja heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

„Íslensk stjórnvöld hafa sett sér háleit markmið um kolefnishlutleysi og aukna notkun grænna orkugjafa og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Að sögn Steinþórs býr ÍSOR að þekkingu og reynslu á ýmsum sviðum, sérstaklega þeim er varða nýtingu jarðhita- og grunnvatnsauðlindarinnar.

„Okkar metnaður er að sú þjónusta og lausnir sem við bjóðum upp á komi Jörðinni og íbúum hennar til góða, og skili hagsæld á þeim svæðum sem við erum að vinna á. Okkar markmið er að vera leiðandi í ráðgjöf um nýtingu jarðrænna auðlinda, sérstaklega jarðhita, og að sú ráðgjöf nýtist okkar viðskiptavinum vel auk þess að styðja áherslur Íslands í umhverfis-, auðlinda- og orkumálum hér heima sem og í alþjóðlegu samstarfi. Þannig viljum við styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna,“ segir Steinþór að lokum.