Skip to content

Jarðhitasvæði í Vonarskarði

Vonarskarð heitir svæðið milli Tungnafellsjökuls og Vatnajökuls (Bárðarbungu). Á þessu svæði eru þrjár megineldstöðvar. Vestast er Tungnafellsjökull sem virðist nokkuð gömul eldstöð og allmikið rofin. Í toppi hennar er lítil askja en yfirborðsjarðhiti hefur ekki fundist. Í miðið er Vonarskarð, sem grípur inn í austurhlíðar Tungnafellsjökuls. Austast er Bárðarbunga og er hún augljóslega yngst þessara þriggja megineldstöðva. Þar hefur ekki orðið vart jarðhita.

Vonarskarðseldstöðin er yfir 10 km í þvermál og má rekja öskurima í henni vestanverðri sem gengur upp í lághlíðar Tungnafellsjökuls í drögum Nýjadals. Ljóst er af þeim litlu rannsóknum sem fram hafa farið að askjan er nokkur hundruð þúsund ára gömul. Á suðurrimanum eru áberandi líparítmyndanir (s.s. Skrauti) sem hafa myndast við gos undir jökli.

Hverajárn í Vonarskarði. Ljósmynd Guðmundur Ó. Friðleifsson.

Háhitasvæði er í öskjunni vestanverðri, mest á svæðinu frá Skrauta og norður undir Laugakúlu. Mestur er hitinn austan undir Eggju og er þar á litlu svæði hægt að sjá allar helstu gerðir yfirborðsfyrirbrigða sem fylgja háhitasvæðum. Háhitinn nær vestur og norður fyrir Eggju og allt suður undir Skrauta. Alls er svæðið um 7 km2. Afrennslisvatn, heitt og volgt auk ölkeldna, er töluvert, einkum í Snapadal, neðst með Rauðá og einnig í drögum Nýjadals fyrir innan Þrengsli.

Væg háhitaummyndun er einnig um 10 km suðvestur af Vonarskarði, í sprungukerfi því sem liggur suðvestur frá Vonaskarði. Í miðju Vonarskarði er lág alda, skammt norðaustur af Deili. Aldan er mjög mikið ummynduð. Það sem er merkilegt við þá ummyndun er að í henni finnst epidót sem bendir til 250°C hita. Merki um svo háan hita á yfirborði hafa ekki fundist fyrr. Þetta bendir til að ummyndunin hafi átt sér stað við kólnun gosmyndunar undir jökli.

Engar jarðeðlisfræðilegar mælingar hafa verið framkvæmdar í Vonarskarði og því óvíst um raunverulega stærð hitakerfisins.

Heimild: Haukur Jóhannesson, ÍSOR.