Skip to content

Uppfært jarðvarmamat. Einstök skilyrði á Íslandi til jarðhitanýtingar.

Skýrslan “Jarðvarmamat. Mat á varmaforða, varmaflæði og framtíð jarðhitanýtingar á Íslandi” er komin út og kynnti Steinunn Hauksdóttir, forstöðumaður auðlindarannsókna og alþjóðasamskipta hjá ÍSOR helstu niðurstöður á blaðamannafundi hjá URN.

Steinunn Hauksdóttir, forstöðumaður auðlindarannsókna og alþjóðasamskipta hjá ÍSOR kynnir helstu niðurstöður skýrslunnar á blaðamannafundi hjá URN 24. september 2025

Skýrsla ÍSOR gefur tilefni til enn meiri bjartsýni en áður hefur verið ályktað og bent á að á Íslandi eru einstök skilyrði til jarðhitanýtingar, og engin „köld svæði“ að finna. Samkvæmt skýrslunni myndu 25% náttúrulegs varmaflæðis standa undir allri frumorkunotkun Íslendinga, eins og hún er í dag, um alla framtíð, en um 1% varmaforða jarðskorpunnar niður á 5 km dýpi myndi standa undir allri frumorkunotkun Íslendinga, næstu 15.000 árin. Uppfært mat varmaforðans er um 18% hærra en var áætlað árið 1985, þegar það var síðast tekið saman heildstætt fyrir landið. Hækkunin er einkum til komin vegna hærra mats fyrir gosbeltin, utan háhitasvæðanna, en það svæði er að mestu órannsakað.

Svæðaskipting landsins ásamt uppfærðu hitastigulskorti og staðsetningu borholna sem notaðar voru til að reikna hitastigul.

Áframhaldandi jarðfræðikortlagning og frekari grunnrannsóknir geta skipt sköpum þegar kemur að frekari nýtingu og þótt hefðbundinni jarðhitanýtingu séu enn takmörk sett, geta tækninýjungar skapað tækifæri til að nýta varmaforðann betur en nú er gert.

Fram kom í máli ráðherra á fundinum að heildstætt jarðvarmamat fyrir Ísland geti orðið mikilvægur grunnur og hvatning til þeirrar nýsköpunar og tæknilegu framþróunar, sem nauðsynleg sé fyrir framtíðarþróun jarðhitanýtingar. Rannsóknirnar geti gefið góðan grundvöll fyrir stefnu og aðgerðaráætlun stjórnvalda til framtíðar. Sagði ráðherra nauðsynlegt að ljúka kortlagningu jarðhitageyma og forgangsraða rannsóknum og ekki sé þá síður mikilvægt að fjárfesta áfram í rannsóknum, borunum og nýsköpun.

Höfundar skýrslunnar „Jarðvarmamat. Mat á varmaforða, varmaflæði og framtíð jarðhitanýtingar á Íslandi“ eru Guðni Axelsson, Sæunn Halldórsdóttir, Steinunn Hauksdóttir, Ingimar G. Haraldsson, Gunnlaugur M. Einarsson, Þórhildur Björnsdóttir og María Guðmundsdóttir.