Skip to content

Umfangsmiklar rannsóknir á jarðskorpu Íslands og jarðhitaleit

Nú í ágúst hefjast umfangsmiklar rannsóknir á jarðskorpunni undir Íslandi. Til landsins kemur hópur frá Jarðvísandaháskólanum í Wuhan í Kína (CUG). Gera á mælingar á eðlisviðnámi/rafleiðni djúpt í jörðu undir Norðausturlandi (grænir pinnar á meðfylgjandi mynd) með svokölluðum MT-mælingum og tekur ÍSOR taka þátt í verkefninu (gegn greiðslu frá CUG). Um er að ræða fimm ára verkefni þar sem gera á slíkar mælingar og rannsaka jarðskorpuna undir öllu landinu.


Fyrir hartnær hálfri öl, þegar fyrst voru gerðar MT-mælingar hér á landi (í samvinnu Háskólans í Köln í Þýskalandi og Orkustofnunar), kom í ljós að undir mest öllu landinu er lag með mikla rafleiðni (lágviðnámslag) á 8-15 km dýpi. Það var túlkað sem hlutbráðið berg undir þunnri of heitri jarðskorpu. Seinni rannsóknir (jarðsveiflu-, skjálfta- og þyngdarmælingar) benda hins vegar til þess að skorpan sé u.þ.b. tvöfalt þykkari og, til þess að gera, „köld“. Eftir standa spurningar eins og: Hvað er þetta lágviðnámslag og hvað getur það kennt okkur um innri gerð, uppruna og þróun jarðskorpunnar undir Íslandi?


Þegar ÍSOR hóf að beita MT-mælingum jarðhitarannsóknum (2005), kom í ljós að djúpa lágviðnámslagið hvelfist staðbundið upp, á um 2-4 km dýpi, undir háhita- jarðhitakerfum, nema á utan verðum Reykjanesskaga. Þar er það er ekki til staðar. Lágviðnámslagið, hvelfist einnig upp frá 15-20 km og upp á 5-6 km dýpi undir lághitasvæðinu í Eyjafirði, sunnan Akureyrar, eina lághitasvæðinu sem kannað hefur verið með MT-mælingum. Þetta vekur spurningarnar: Er samhengi milli dýpis á lágviðnámslagið og jarðhita? Getur kortlagning á lágviðnámslaginu bent á dulin jarðhitakerfi?

ÍSOR stefnir að því, í samvinnu við Norðurorku, HÍ og fjóra erlenda háskóla, að takast á við þessar spurningar og hvað kunni að valda góðri rafleiðni í laginu. Skilgreint hefur verið verkefni þar sem kanna á lágviðnámslagið í meiri smáatriðum en í CUG verkefninu, með þéttari MT-mælingum og þyngdar- og segulmælingar, á mælilínum yfir þekkt jarðhitasvæði á Norðurlandi, Rauðar línur á meðfylgjandi mynd sýna mælilínur sem kostaðar verða af verkefninu. Norðurorka mun kosta viðnámsmælingar á grænu og bláum línunum. Ef kerfisbundið samband finnst milli jarðhita og lágviðnámslagsins kann að vera fundin ný aðferð til leitar að jarðhita, bæði háhita innan gosbelta og lághita á svæðum þar sem líti sem engin ummerki eru á yfirborði. Slíks eru dæmi, t.d. í Helgafellssveit.

ÍSOR hefur sótt um styrk til RANNÍS vegna verkefnisins.