ÁRSYFIRLIT 2021
Íslenskar orkurannsóknir, ÍSOR, eru sjálfstæð ríkisstofnun
sem heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.
Hlutverk ÍSOR er að vinna að verkefnum og rannsóknum
á sviði náttúrufars, orkumála og annarra auðlindamála.
Ávarp stjórnarformanns
Þórdís Ingadóttir
Árið 2021 var viðburðarríkt í starfsemi ÍSOR. Verkefnin voru krefjandi og gefandi, hvort sem um var að ræða söluverkefni, mannauðsmál eða rekstur.
Helstu kennitölur ársreiknings bera vott um starfsemi ársins. Heildarvelta ÍSOR var 1.244 m.kr. Á árinu var unnið í 283 sölu- og styrktarverkefnum, með 106 viðskiptavinum. Innlendu orkufyrirtækin Landsvirkjun, Norðurorka og Orkuveita Reykjavíkur voru stærstu verkaupar ÍSOR, samtals 12,3 prósent af veltu fyrirtækisins. Ríkið (ráðuneyti og stofnanir) samdi við ÍSOR um skilgreind rannsóknarverkefni sem námu 9% af veltu.
Á árinu átti ÍSOR farsælt samstarf við fjölda aðila hérlendis sem erlendis. Sem dæmi er samstarfsverkefni við Veðurstofuna, Vegagerðina, Náttúrufræðistofnun Íslands, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík, ásamt verkfræðistofunum Mannviti og Verkís. Erlendis var m.a. unnið með Alþjóðabankanum, Tyrkneska þróunarbankanum, Evrópubankanum, ýmsum opinberum stofnunum og einkaaðilum í Mið-Ameríku, Austur-Afríku, SA-Asíu, Evrópu og víðar. Starfsfólk ÍSOR tók virkan þátt í heimsráðsstefnu World Geothermal Congress 2020-2021 sem haldin var hér á landi. Sérstaða jarðhita og viðurkenning á hinni miklu þekkingu hér á landi á þeirri auðlind endurspeglaðist í erindum og umræðum þar.
Mikið starf var unnið í stefnumótun og gæðastjórnun á árinu 2021. Ný stefna tók gildi 1. júní. Stefnan endurspeglar metnað ÍSOR til að vera leiðandi ráðgjafarfyrirtæki á heimsvísu á sviði sjálfbærrar nýtingar jarðauðlinda. Stefnan styður jafnframt kröftuglega við stefnu Íslands í umhverfis-, auðlinda- og orkumálum innanlands og í alþjóðlegu samstarfi. Stefnan er mikilvægt stjórnunartæki í bæði ytra og innra starfi ÍSOR og skilvirk innleiðing og eftirfylgni hennar tryggir markvissa starfsemi.
Á árinu varð ÍSOR rekstraraðili Jarðhitaskólans. Jarðhitaskólinn á glæsta sögu og hefur starfað í rúma fjóra áratugi, eða frá árinu 1979. Leiðir skólans og ÍSOR hafa lengi legið saman, enda hefur skólinn jafnan sótt fjölda kennara í raðir starfsmanna ÍSOR. Það voru því mikil tímamót að fá skólann formlega í hús og í nóvember útskrifaði skólinn 25 sérfræðinga frá 14 þjóðríkjum eftir 6 mánaða nám á Íslandi. Hlutfall kvenna hefur aldrei verið jafn hátt í útskriftarhópnum en þar voru tólf konur og þrettán karlar.
Jarðorkan er mikilvæg og vannýtt auðlind. Þróun heimsmála síðustu mánuði og brotthvarf frá nýtingu jarðefnaeldsneytis er ein birtingarmynd mikilvægis þekkingar á jarðorkunni. Um áratugi hefur þekking á jarðhita verið forsenda góðra lífsskilyrða og öryggis hér á landi. Samkvæmt nýlegri könnun fyrirtækisins Maskína er meirihluti landsmanna hlynntur jarðhitavirkjunum. Sú afstaða almennings endurspeglar mikið traust á meðferð þeirrar auðlindar.
Framundan eru spennandi tímar. Krafan um sjálfbærni þarfnast þekkingar og færni í nýtingu jarðorku. ÍSOR er undirbúið undir vöxt og nýsköpun á þessu sviði.
Ávarp forstjóra
Árni Magnússon
Sjálfbærni í rekstri
Öll él birtir upp um síðir. Eftir erfiðasta rekstrarár í tæplega 20 ára sögu ÍSOR sem sjálfstæðrar stofnunar er nú útlit fyrir betri tíð. Árið 2021 var krefjandi fyrir starfsfólk og starfsemi ÍSOR. Gætti þar hvort tveggja áhrifa af COVID 19 heimsfaraldrinum, einkum hvað varðar erlend verkefni, en ekki síður mikils samdráttar hjá íslenskum orkufyrirtækjum sem eru mikilvægustu viðskiptavinir stofnunarinnar og skapa að jafnaði meira en helming tekna.
Tekjur ÍSOR af hefðbundnum verkefnum drógust saman um 480 m.kr. milli áranna 2020 og 2021, eða um nær 40%, sem gefur augaleið að er veruleg áskorun í rekstri. Með samhentu átaki starfsfólks tókst hins vegar að draga úr rekstrarkostnaði um sem nemur 200 m.kr. og skapa tekjur af „nýjum“ viðfangsefnum um 175 m.kr. Þannig var dregið mjög úr taprekstri. Áætlun gerði ráð fyrir verulegu tapi og niðurstaða ársreiknings sýnir að það nemur 143 m.kr. sem ÍSOR greiðir úr sjóðum sínum. Ef ekki hefði verið gripið til fyrrgreindra ráðstafana má ætla að stofnunin hefði í raun lent í greiðsluþroti.
Rekstur ÍSOR hefur gengið í gegnum mikil umskipti á síðustu tveimur árum og öll starfsemin verið löguð að breyttum aðstæðum. Við höfum þétt hópinn og fækkað fermetrum undir starfsemina um nær 50% en á sama tíma stórbætt vinnuaðstöðu. Með nýrri stefnu, breyttum áherslum, einfölduðu stjórnskipulagi, endurskipulagningu rekstrar og nú síðast nýju húsnæði erum við reiðubúin að mæta spennandi áskorunum næstu ára. ÍSOR býr yfir vel menntuðu, hæfu og þjálfuðu starfsfólki sem stenst alþjóðlegan samanburð og nýtur eftirspurnar á markaði.
Með vaxandi áherslu á nauðsyn aukinnar orkuöflunar hafa aðstæður á markaði ÍSOR nú farið hratt batnandi og eftirspurn eftir þjónustu aukist. Rekstraráætlun 2022 gerir ráð fyrir lítilsháttar tapi en að eftir það skili reksturinn heilbrigðri framlegð og verði þar með sjálfbær.
Nauðsyn frekari rannsókna
Ávinningur íslenskrar þjóðar af nýtingu jarðhitaauðlindarinnar er óumdeildur, bæði í efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu tilliti.
ÍSOR hefur um nokkra hríð bent á það sem við teljum alvarlegan skort á rannsóknum á sviði jarðhita á Íslandi og fjármagni til þeirra. Áherslur stjórnvalda á loftslagsmál og orkuskipti gefa tilefni til að bregðast við þeim ábendingum enda jarðhiti sú auðlind sem hvað best getur gagnast Íslendingum í þeirri baráttu sem fram undan er.
Sú pólitíska stefna sem unnið var eftir á 20. öldinni við nýtingu jarðhita, einkum til húshitunar en einnig annarrar beinnar nýtingar og síðar meir raforkuframleiðslu, á gríðarstóran þátt í því að íslensk þjóð býr við einna mesta velmegun þjóða heims. Stuðningur ríkisins við rannsóknir á auðlindinni og leit að nýtanlegum jarðhita skipti þar sköpum. Orkusjóður lék þar lykilhlutverk en á fimmtíu ára tímabili, frá 1963 til 2012 styrkti hann 340 verkefni á sviði jarðhitaleitar og heitavatnsöflunar. Hins vegar voru einungis 8 styrkir veittir til slíkra verkefna á þessari öld.
Síðast stóðu stjórnvöld fyrir jarðhitaleitarátaki á árunum 1998-2000. Mörg farsæl verkefni hafa verið studd með slíkum átaksverkefnum, svæði sem þurftu stuðning en hafa núna hitaveitu. En tækifærin eru enn ærin. Bæði er um að ræða svæði sem ekki njóta hitaveitu og skortir fjármagn til jarðhitaleitar en einnig hitt að til að halda í við fólksfjölgun verður að halda áfram að þróa ný svæði til vinnslu jarðhita. Er þá ótalin nauðsyn þess að rannsaka lítt eða órannsökuð svæði sem vísbendingar eru um að gætu orðið mikilvæg orkuvinnslusvæði framtíðar.
Í stöðuskýrslu ráðherra, svokallaðri „Grænbók“ koma fram ábendingar í þessa veru. Þar segir m.a. að ljóst sé að „eftirspurn eftir hitaveituvatni eykst samfara auknum atvinnurekstri og með fólksfjölgun…” og að ekki liggi enn fyrir hvernig heitavatnsþörf verði uppfyllt í framtíðinni. Þá segir að mikilvægt sé að skýra myndina varðandi framþróun hitaveitna og bent á að auka „verði þekkingu á jarðhita á lághitasvæðum, á svokölluðum köldum svæðum, á háhitasvæðum og landsvæðum innan gosbeltisins sem ekki eru augljós háhitasvæði.“ Enn fremur segir í skýrslunni: „Á lághitasvæðum verður leitað að nýjum vinnslusvæðum og á köldum svæðum. Aukin vinnsla á þegar nýttum svæðum verður könnuð og treyst á varmadælur í auknum mæli.“ Þá er bent á að í umfjöllun um orkuþörf ætti einnig horfa til stöðu hitaveitna við að anna eftirspurn eftir heitu vatni samhliða íbúaþróun.
Hefðbundnar aðferðir við jarðhitaleit hafa víða gefið góðar niðurstöður en annars staðar hafa þær ekki skilað sambærilegum árangri svo enn eru þéttbýlisstaðir sem ekki hafa jarðhitaveitu. Á Íslandi eru enn svæði sem gefa til kynna jarðhita en nýtingarmöguleika þarf að staðfesta með frekari rannsóknum og borunum. Einnig eru nokkur þéttbýlissvæði þar sem markvissri jarðhitaleit er ábótavant. Þá kalla framfarir í tækni og aðferðum á sífellda endurskoðun og endurmat á því sem áður voru talin „köld“ svæði. Þar má nefna að nýrri rannsóknaraðferðir hafa verið nýttar á háhitasvæðum, sem gætu einnig nýst við jarðhitaleit á lághitasvæðum, en eru dýrari. Framfarir hafa orðið í bortæknilegum atriðum ásamt nýjum lausnum í lögnum, varmadælum og dælum, sem aukið geta líkur á vel heppnuðum jarðhitaverkefnum.
Hjá ÍSOR er til staðar sú þverfaglega, jarðvísindalega þekking sem þarf til að leggja mat á næstu skref í hitaveituvæðingu landsins ásamt rannsóknum til framtíðar. Hlutverk stofnunarinnar og stefna er sömuleiðis skýr. Í því ljósi lýsum við okkur reiðubúin til samstarfs við stjórnvöld á þessu sviði.
Lykiltölur úr rekstri
Guðrún Erlingsdóttir
Mannauður
Valgerður Gunnarsdóttir
Meginverðmæti ÍSOR er fólgið í mannauðinum sem hefur byggt upp einstæða þekkingu á jarðrænum auðlindum og aðferðum til sjálfbærrar nýtingar þeirra. Í árslok 2021 voru starfsmenn samtals 59, þar af fjórir í fæðingarorlofi, í 53,3 stöðugildum að forstjóra meðtöldum. Yfir sumarmánuðina voru ráðnir tveir háskólanemar. Flestir starfsmanna eru á aldursbilinu 40-49 og var meðalaldur í árslok 49 ár. Hlutfall háskólamenntaðra er 93% sem er svipað hlutfall og undanfarin ár. Eitt markmiða ÍSOR er að jafna hlutföll kynja og hefur þar náðst góður árangur. Í lok árs 2021 var hlutfall kvenna 41% en til samanburðar var hlutfall kvenna 23% fyrir 15 árum.
Starfsfólk ÍSOR hefur gengið í gegnum miklar breytingar síðastliðið ár. Covid-19 heimsfaraldurinn hafði mikil áhrif á vinnustaðinn og vann starfsfólk heima stóran hluta af árinu líkt og árið á undan. Starfsfólk hefur staðið sig með eindæmum vel í að halda uppi góðum starfsanda með jákvæðum og góðum samskiptum í þessum krefjandi aðstæðum. Seinni hluta árs lá fyrir að flytja ætti starfsemina í Kópavog en ÍSOR hefur frá upphafi haft aðsetur í Orkugarði að Grensásvegi 9. Það var ærið verkefni að pakka saman og flytja eftir svo langan tíma en margar hendur vinna létt verk.
Það er stjórnendum ÍSOR mikilvægt að starfsfólki líði vel í vinnunni og eru lagðar fyrir reglulegar starfsánægjukannanir bæði til að fá endurgjöf frá starfsfólki sem og góða mynd af upplifun þess til mismunandi þátta í starfsumhverfinu. Niðurstöður árlegrar starfsánægjukönnunar meðal stofnana í eigu ríkisins, Stofnun ársins, benda til aukinnar starfsánægju meðal starfsfólks ÍSOR samanborið við síðustu tvö ár. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er nú meiri ánægja m.a. með starfsanda, ímynd stofnunarinnar og jafnrétti hjá ÍSOR. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá góða meðaleinkunn ÍSOR hvað jafnrétti varðar. Undir þeim lið er meðal annars spurt hvort karlar og konur fái sömu tækifæri til starfsframa og hvort lögð sé áhersla á jafnrétti kynjanna.