„Í okkar huga skiptir verulegu máli að vita, ef hægt er, hvort kvika sé að safnast fyrir beint undir Svartsengi, eða hvort þar sé mögulega að safnast fyrir kvikugas frá kvikuuppstreymi lengra í burtu, mögulega frá sjálfstæðu kvikuuppstreymi undir Sundhnúkagígaröðinni.
Eina leiðin til þess að komast að því er að beita þyngdarmælingum og reyna að reikna eðlismassa þess efnis sem veldur landrisinu. Frekari jarðvísindalegar mælingar og rannsóknir munu svo með tímanum gefa skýrari mynd af atburðunum sem þarna eiga sér stað,“ segir Egill Árni Guðnason, jarðeðlisfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum, ISOR, í samtali við Morgunblaðið.
Mælingar í samstarfi við erlenda vísindamenn
Síðar í þessum mánuði hefjast svokallaðar þyngdarmælingar á Reykjanesskaga, en markmið þeirra er að reyna að komast að því hvort kvika valdi landrisi á svæðinu, gas eða sambland af hvoru tveggja. Mælingarnar verða gerðar undir forystu ISOR í samstarfi við tékkneska og þýska vísindamenn. Egill Árni fer fyrir verkefninu af hálfu ISOR.
Þyngdarmælingar voru gerðar á Reykjanesskaga árið 2020 en ekki varð framhald á þeim sem er miður, að mati Egils Árna. Nú stendur til að ráða bót á því og hefja þær aftur undir forystu ÍSOR.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu