Í marga áratugi hefur ÍSOR, og forverar þess, aflað gagna með segulmælingum til jarðhitaleitar. Á landi hafa mælingarnar yfirleitt verið framkvæmdar með því að ganga með segulmæli, en einnig úr flugvél þegar þörf hefur verið á víðtækari kortlagningu, þó með umtalsvert meiri kostnaði og minni upplausn.
Á síðustu árum hefur drónatæknin opnað nýja möguleika í jarðvísindalegum rannsóknum. Á þessum áratug hefur ÍSOR nýtt þessa tækni við segulmælingar, meðal annars í tengslum við jarðkönnun vegna umbrota í Grindavík, til kortlagningar innskotabergs á lághitasvæðum og til greiningar á segulmögnun, og afsegulmögnun, bergs í háhitakerfum. Fyrstu árin var notast við dróna og segulmæli sem keyptir voru með styrk frá Innviðasjóði Rannís árið 2020 og eru í sameiginlegri eigu Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og ÍSOR. Þann dróna, ásamt segulmæli, má sjá á flugi í Grindavík á mynd 1 og við mælingar á Bæjarfjalli við Þeistareyki árið 2023 á mynd 2.


Drónatækninni fleygir hins vegar fram og framboð flugtækja með lengri flugtíma hefur aukist hratt. Í ár fjárfesti ÍSOR í nýjum dróna og segulmæli sem býður upp á enn meiri framfarir. Virkur flugtími hefur lengst úr um 10 mínútum í 35-40 mínútur, auk þess sem að skynjarar drónans nema betur árekstrarhættu og getur brugðist betur við aðstæðum sem upp kunna að koma á flugi. Það gerir kleift að afla gagna í lægri flughæð, sem skiptir sköpum við að greina smærri frávik í segulsviðinu.
Fyrstu mælingar með nýja búnaðinum fóru fram í Eyjafirði í síðustu viku, þar sem mælt var á jarðhitasvæðunum við Botn og við Hjalteyri. Flognir voru 380 km á tveimur dögum og um 6 km2 kortlagðir, en flogið var í 25 og 50 metra hæð, með 50 metra bil á milli mælilína.


