Yfirborðsrannsóknir
ÍSOR stundar ýmsar rannsóknir í tengslum við jarðhita, bæði hvað varðar háhita og lághita. Í þessu felast rannsóknir á jarð-, jarðeðlis- og jarðefnafræði.
Jarðfræðilegar, jarðefnafræðilegar og jarðeðlisfræðilegar yfirborðsrannsóknir gegna mjög mikilvægu hlutverki, m.a. við jarðhitaleit.
Jarðfræðilegar rannsóknir snúa að því að kortleggja m.a. misgengi og sprungur sem hafa áhrif á flæði jarðhitavökvans og gufunnar innan jarðhitageymisins og í átt að yfirborði jarðar þar sem auðveldast er að sækja vökvann. Einnig snúa jarðfræðirannsóknir að því að þekkja jarðsögu jarðmyndana, aldur þeirra og mögulega jarðfræðilegar hættur, m.a. vegna eldsumbrota.
Efnasamsetning jarðhitagufu og jarðhitavökva, safnað úr náttúrulegum gufuaugum og lindum, gefa fyrstu hugmyndir um upprunahita jarðhitavökvans og efnasamsetningu hans í jarðhitageyminum, sem aftur getur m.a. haft áhrif á mögulega og sjálfbæra nýtingu.
Sem hluti af jarðeðlisfræðilegri könnun eru ýmsar eðlisfræðilegar breytur mældar, svo sem viðnám, þéttleiki, hljóðhraði og segulmagn bergsins undir yfirborðinu, sem aftur gefur hugmynd um gerð jarðskorpunnar, strúktúr, stærð, þykkt og dýpi á jarðhitageyminn.
Samtúlkun á gögnum og niðurstöðum í tengslum við ofangreindar rannsóknir nýtast til að taka saman fyrsta hugmyndalíkanið af svæðinu sem verið er að rannsaka hverju sinni. Þverfagleg úrvinnsla gagnanna er lykillinn að því að meta hvort um sé að ræða nýtanlega jarðhitaauðlind og staðsetja fyrstu rannsóknarholur til að staðfesta niðurstöður yfirborðsrannsóknanna sem og undirbyggja áframhaldandi þróun jarðhitasvæðisins með sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar í huga.
Jarðfræðilegar rannsóknir hjá ÍSOR eru almenn jarðfræðikortlagning af Íslandi á mismunandi skala en það snýr m.a. að bergrunnskortlagningu, strúktúrkortlagningu o.fl. Einnig eru slíkar rannsóknir stundaðar á smærri skala á jarðhitasvæðunum sjálfum til að skilja uppbyggingu jarðhitasvæðisins, sögu þess, kortleggja leiðarlög og strúktúra sem tengjast yfirborðsvirkni.
- Jarðfræðikortlagning
- Berggrunnskortlagning
- Strúktúrkortlagning
- Kortlagning á jarðhitaummyndun
- Nattúruvárkortlagning
- Kortlagning á skriðum og berghlaupum
Jarðefnafræðilegar rannsóknir hjá ÍSOR gefa mikilvægar upplýsingar um hitastig jarðhitageymisins. Hitastigsnæmt jafnvægi milli jarðhitavatnsins og útfellingarsteinda í jarðhitageyminum stjórnar samsetningu jarðgufunnar og jarðhitavökvans sem finnst á yfirborði.
Efnasamsetning jarðgufu og vatns veitir einnig fyrstu upplýsingar um vinnslueiginleika með tilliti til útfellinga- og tæringarvandamála og hugsanlegra umhverfisáhrifa tengdum nýtingu vökvans. Ýmsir þættir í jarðhitavökvanum, s.s. stöðugar samsætur, gefa upplýsingar um uppruna hans.
Gasstreymi um jarðveg geta veitt mikilvægar upplýsingar um staðsetningu á opnum og lekum sprungur undir yfirborði jarðar og hægt er að nota niðurstöðurnar m.a. til að staðsetja borholur.
- Sérhæfð sýnataka til greiningar á jarðhitavökva og gasi
- Grunnvatnssýnataka
- Umhverfiseftirlit/mengunareftirlit, m.a. í tengslum við boranir og jarðhitanýtingu
- Mæling á gasuppstreymi um jarðveg
- Efnagreining sýna á efnafræðistofu ÍSOR
Jarðeðlisfræðilega rannsóknir hjá ÍSOR gefa mikilvægar upplýsingar um eðliseiginleika jarðhitakerfa, s.s. mögulega stærð, þykkt og gerð kerfisins. Af þeim jarðeðlisfræðilegu mælingum sem gerðar eru í tengslum við jarðhitaleit, sérstaklega í háhita, eru viðnámsmælingar einna mikilvægastar.
Hitaháð ummyndun myndast við víxlverkun vatns og bergs og útfellingar myndast í sprungum og holrúmum bergsins sem og breytingar í efnasamsetningu bergsins sjálfs. Þetta getur leitt til mjög áberandi viðnámsbreytinga í berggrunninum sjálfum sem hægt er að nota til að kortleggja stærð og lögun auðlindarinnar.
Vöktun og staðsetning smáskjálfta gefur upplýsingar um misgengishreyfingar og mögulega lekt auk varmanáms frá varmagjöfum og upplýsingar um hljóðhraðafrávik sem geta verið vísbendingar um innskot.
Þyngdarmælingar geta gefið upplýsingar um þéttleikabreytingar eins og iðulega sjást í tengslum við innskot eða tilfærslur í tengslum við stór misgengi.
Segulmælingar má einnig nota til að finna innskot og gefa upplýsingar um afsegulmögnun vegna háhitaummyndunar.
- Viðnámsmælingar, hvort tveggja TEM (Transient ElectroMagnetic measuremets) og MT (MagnetoTelluric) – Einnig þekkt undir Meira TEM ;o)
- Smáskjálftamælingar
- Þyngdarmælingar
- Segulmælingar
- Hæðarmælingar og breytingar, með GPS og Insar
- Grunnar hljóðhraðamælingar (shallow seismic surveying), talsvert notað í jarðverkfræði, s.s. gangagerð o.fl.
- Úrvinnsla hljóðhraðamælinga (active seismic surveying)