Þann 14. mars samþykkti landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna tillögur að útmörkum landgrunns Íslands á vestan-, sunnan- og suðaustanverðum Reykjaneshrygg. Þar með lauk löngu ferli að þessu marki, en greinargerð Íslands fyrir þetta svæði, auk svæðis austan við Ísland í Ægisdjúpi (Smugunni), var fyrst skilað inn árið 2009.
Undirbúningur þessa verkefnis hófst rétt upp úr síðustu aldamótum og var gríðarmiklu magni vísindagagna safnað til að hægt væri að klára vinnu við þær greinargerðir sem skilað verður til að afmarka landgrunnið. Rannsóknasviði Orkustofnunar og síðar ÍSOR, var falin umsjón með vísindalegri úrvinnslu verksins og hafa margir starfsmenn ÍSOR komið að þessu verkefni auk aðila frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Þau gögn sem safnað var sérstaklega fyrir þetta verkefni eru annars vegar dýptargögn og hins vegar hljóðbylgju jarðlagamælingar (seismic). Hafrannsóknarstofnun sá um söfnun dýptarmælinganna, en þar er um að ræða fjölgeisla dýptarmælingar sem safnað var á árunum 2002-2004 (Reykjaneshrygg, Ægisdjúpi og Hatton-Rockall) og skiluðu þau af sér afbragðs gögnum til þessarar úrvinnslu, en kröfurnar eru að miklu leyti byggðar á landslagseinkennum, þ.e. hvar hlíðin kemur niður að djúpsævinu, en þar er með stærðfræðilegum reikningum fundinn svokallaður hlíðarfótur (foot of slope), en hann er staðsettur þar sem skarpasta breytingin í halla er á því svæði. Leitað var til erlendra aðila til að safna hljóðbylgju jarðlagamælingum, en þær fóru fram 2003-2004 og var gögnum safnað í austanverðum Reykjaneshrygg, Ægisdjúpi, Íslands-Færeyjahrygg og á sunnanverðu Hatton-Rockall svæðinu. Þessi gögn, bæði endurkasts- og bylgjubrotsmælingar, gefa frekari upplýsingar um uppbyggingu skorpunnar og setlög og geta reynst nauðsynleg til að staðfesta tengingar frá landinu yfir á þau svæði sem tilkall er gert til, eða til að nýta setþykkt til að teygja mörk landgrunnsins.
Sennilega er þessi sértæka gagnasöfnun og úrvinnsla gagnanna ein sú viðamesta sem íslenska ríkið hefur staðið fyrir og fjármagnað. Auk þessara gagna naut verkefnið aðgangs að rannsóknaleiðöngrum sem fram fóru á Reykjaneshrygg, sér í lagi fjölgeisla dýptarmælinga, þyngdar- og segulmælinga sem framkvæmdar voru kringum svo kallað Bight þverbrotabelti árið 2013, en það var hópur frá háskólanum á Havaíeyjum sem stóð fyrir þeim ásamt Háskóla Íslands og fleiri aðilum, en þessar mælingar nýttust verkefninu ákaflega vel í samtali við undirnefnd landgrunnsnefndarinnar sem fjallaði um greinargerð Íslands.
Auk þeirra gagna sem sérstaklega var safnað fyrir þetta verkefni, studdist vísindahópurinn við fjölda rannsókna sem gerðar hafa verið af alþjóðlegum vísindateymum á landgrunni Íslands og skiptu þau einnig miklu máli til að tryggja þessa góðu niðurstöðu.

Undanfarið rúmt ár hefur svo staðið yfir samtal og samvinna með undirnefnd landgrunnsnefndar S.Þ. undir handleiðslu utanríkisráðuneytisins til að ljúka afmörkuninni á þessum hluta Reykjaneshryggjar, en jarðvísindafólk frá ÍSOR og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hefur veitt UTN aðstoð í þeim efnum. Því samtali lauk í nóvember 2024 með sameiginlegri niðurstöðu beggja aðila, sem átti þá eftir að hljóta fulltingi landgrunnsnefndarinnar í heild.
Formleg lokakynning okkar fyrir landgrunnsnefndinni var svo haldin 7. mars síðastliðinn og það var því mjög ánægjulegt að fá þær fréttir að landgrunnsnefndin hefði samþykkt tillögurnar svo skömmu eftir þá kynningu.
Eins og bent er á í tilkynningu UTN um málið Stjórnarráðið | Farsæl niðurstaða landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna um landgrunn Íslands á Reykjaneshrygg er mikilvægt að Íslendingar tryggi sér sem víðáttumest landgrunnssvæði, því þótt ekki sé vitað með vissu hvaða auðlindir séu þar til staðar samkvæmt núverandi vitneskju, þá getur sú staða gjörbreyst með þeim tækniframförum sem framtíðin ber í skauti sér.