Jarðhiti við Námafjall
Námafjallssvæðið er í sprungusveimi Kröflukerfisins 4 km sunnan við Kröfluöskjuna. Það er um 4 km2 miðað við yfirborðsummerki, ein samfelld heild, upplitað af ummyndun og útsteypt í hverum og heitri jörð. Kaldar skellur eru innan um og á Námafjalli sunnan og norðan við hitasvæðið. Á Námafjalli eru brennisteinsþúfur aðaleinkenni hveravirkninnar. Sama má segja um Bjarnarflag eftir að hveravirkni lifnaði þar við í Kröflueldum. Austan við Námafjall er hins vegar meira um leir- og gufuhveri, allir stærstu gufuhverirnir raunar gamlar borholur frá tímum tilraunar til brennisteinsvinnslu. Viðnámsælingar sýna að svæðið er verulega stærra en yfirborðs-ummerki gefa til kynna og gæti verið um 20 km2 á 1 km dýpi.
Fjöldi misgengja liggur yfir Námafjallssvæðið og oft ekki nema 200-300 m á milli og enn styttra í virkustu sprungureininni sem liggur um Bjarnarflag. Þar er fylgni skýrust milli hvera og misgengja. Hún er einnig fyrir hendi á Námafjalli, en dreifist þar meira frá. Sama gegnir um Hveri (Hverarönd) austan við Námafjall. Námafjallssvæðið er mjög virkt gossvæði. Sunnan Kröflu dregur úr virkninni á nokkurra km kafla, en hún tekur sig upp aftur með gossprungum sem aðallega eru í víðara umhverfi Bjarnarflags og í Námafjalli að vestan.
Það sem þarna þykir skoðunarvert er útsýnið vestan frá Námaskarði til Hverfells yfir röndótta sand- og hraunfláka eftir misheppnaða uppgræðsluviðleitni og til Mývatns með fágætan arkitektúr hið næsta í forgrunni og norðan vegarins öllu mikilfenglegri merki mannlegrar athafnasemi þar sem eru borholur, affallslón og lagnir í kísiliðju og rafstöð. Austan megin fjallsins eru leirhverirnir og gömlu gufuborholurnar þar sem nú er kallað Hverarönd. Vinsæl gönguleið liggur neðan frá Hverum upp á Námafjall hjá brennisteinsþúfunum við Námakollu, en öllu stærri gerast þær ekki. Margt fleira er þarna skoðunarvert, svo sem túffstabbarnir suður af Jarðbaðshólum og klepragígarnir á gossprungunni frá 1728 vestan í Jarðbaðshólum.
Á kyrrum, köldum dögum gufar víða upp úr hraununum vestur og suður frá Bjarnarflagi. Þar leggur eim upp af heitum grunnvatnsstraumi sem liggur til Mývatns. Jarðböð voru fyrrum í Jarðbaðshólum, en nú nokkru sunnar og mikilsmetin heilsulind enn sem fyrr. Baðstaður hefur verið í Grjótagjá og afsprengi hennar sunnar frá því hún fannst fyrir rúmum 60 árum og fyrir þann tíma í Stórugjá.
Boranir í Bjarnarflagi hafa leitt í ljós jarðhitakerfi með mjög heppilega vinnslueiginleika. Vinnslan varð fyrir skakkaföllum í Kröflueldum 1977 þegar flestar holurnar eyðilögðust af völdum sprungna og hraunkviku sem stíflaði þær. Tvær holur sem síðar voru boraðar austan umbrotasvæðisins hafa dugað rekstrinum fram að þessu. Vinnslan hefur til þessa ekki gengið merkjanlega á forðann og áform eru því eðlilega uppi um stærri gufuvirkjun á svæðinu, þ.e. í Bjarnarflagi fyrst í stað þar sem vinnslueiginleikarnir eru þekktir.
Heimild: Kristján Sæmundsson, ÍSOR.