Jarðhitasvæðið í Kröflu
Jarðhitasvæðið í Kröflu er í gamalli öskju sem er næstum fyllt upp á barma af móbergi og hraunum en klofin í tvo helminga af gjástykki með NNA-SSV-stefnu.
Jarðhiti og jarðhitamerki eru á belti sem liggur þvert þar á, í öskjunni miðri frá Hrafntinnuhrygg í austri og vestur í Krókóttuvötn. Hverir eru aðeins í eystri helmingi öskjunnar og gjástykkinu. Sprengigígar og miklar leirmyndanir frá nútíma (Hvannstóð og Krókóttuvötn) vitna um öfluga hveravirkni vestast í öskjunni, þótt nú sé kalt. Helsta einkenni jarðhitasvæðisins í Kröflu eru sprengigígarnir (“hydrómagmatískir”), bæði sakir stærðar (nokkur hundruð metrar að þvermáli) og hins hversu fagurlega lagaðir þeir eru og úrkastið auðrekjanlegt, og er þá átt við þá yngstu, Hvannstóð og gígana kringum Víti. Auk þeirra koma fyrir hreinir gufusprengigígar, en miklu minni.
Eins og á öðrum háhitasvæðum er á Kröflusvæðinu aðallega að finna leir- og gufuhveri, en þar er einnig töluvert um brennisteinsþúfur, einkum sunnan í Kröflu. Víða sjást tengsl jarðhitavirkni við misgengissprungur, svo sem í Leirhnjúk, Vítismó (þar er kalt nú) og sunnan í Kröflu.
Eldvirkni á Kröflusvæðinu á nútíma hefur gengið yfir í tveimur lotum með 4000-5000 ára hléi á milli. Seinni lotan hófst fyrir um 3000 árum með sprungugosi sem náði frá Hverfelli norður í Gjástykki. Eftir fylgdu fimm sprungugos, þar af þrjú á sögulegum tíma. Þrisvar gaus á miðreininni þar sem Leirhnjúkur er helsta kennileitið, einu sinni á Dalfjallsreininni og tvisvar á bogsprungukerfinu norðaustanmegin í öskjunni. Vikur- og gufusprengigos fylgdu sumum sprungugosanna. Sumt af menjum þessara gosa er sýnt ferðamönnum, þ.e. hverir, hraun og gígar í Leirhnjúki, og Víti og áhangandi smágígar með leirhverum og hitaskellum.
Vinnslusvæði Kröfluvirkjunar í Kröfluhlíðum eru skilgreind á grundvelli borana og eru nefnd Suðurhlíðar, Hveragil og Leirbotnar. Flatarmál þessara þriggja undirsvæða er einungis um 2 km2, samt er breytileikinn slíkur að hluti þess er ekki nýtanlegur vegna viðvarandi áhrifa kvikugasa. Þetta á við djúpkerfi Leirbotnasvæðisins sem nær norður í Vítismó. Jafnframt er jarðhitakerfið þar tvískipt. Efri hlutinn nær niður á rúmlega 1000 m dýpi og er um 200°C heitur en neðri hlutinn er yfir 300°C og er varla gerlegt að vinna úr báðum hlutum kerfisins í sömu borholunni. Hveragilssprungan er mjög gjöful með góða eðliseiginleika og nánast þurra gufu að fá þegar best lætur. Loks eru Suðurhlíðarnar, sem fylgja nánast hita suðumarksferils með dýpi, en einungis meðalholum í afli. Mætti hafa þetta í huga þegar mat er lagt á önnur möguleg vinnslusvæði sem sum hver eru margfalt stærri.
Framtíðarvinnsla horfir til svonefnds vestursvæðis Kröflu, þ.e. jarðhitans í gjástykkinu sunnan við Leirhnjúk og suður fyrir Sátur. Þarna er jarðhiti á nokkrum stöðum en landið svo til allt þakið hrauni sem rann í Mývatnseldum. Merkilegar jarðmyndanir eru þar ekki, aðeins tilbrigði í hrauninu. Þar nærlendis eru hins vegar þeim mun skoðunarverðari fyrirbæri þar sem er sprungusvæðið í Þríhyrningum og Dalfjalli með sundurristum og missignum malarhjöllum sem eitt sinn voru jafnslétta.
Vestursvæðið liggur suður frá meginjarðhitaskákinni og líklegt að þar sé um að ræða afrennsli frá henni sem leiti í brotasvæðið og suður á milli öskjuhelminganna, enda er þar ekki neitt í gosvirkninni sem bendir til samsöfnunar kviku sem hitagjafa undir. Svæði hliðstæð þessu eru þekkt annars staðar frá og vel gæti þetta reynst gjöfult og sennilega grunnt.
Heimild: Kristján Sæmundsson, ÍSOR.