Borholur
Orðið borhola merkir, samkvæmt íslenskri orðabók, hola sem hefur verið boruð (t.d. eftir heitu vatni).
Til eru margar gerðir af borholum og mismunandi aðferðum er beitt við borun.

Ljósmynd: Brynja Jónsdóttir
Tilgangur borunar er einnig margvíslegur og getur t.d. farið eftir umhverfis- eða árangurssjónarmiðum.
Borholur eiga það sameiginlegt að dýpi þeirra er gjarnan gefið upp í metrum hérlendis en víddin oftast í tommum.
Íslensk heiti yfir borholur. Listinn er tekinn saman af starfsfólki ÍSOR:
- Vinnsluhola er boruð til að afla heits vatns eða gufu.
- Háhitahola, einnig nefnd gufuhola, er vinnsluhola til að ná í gufu til rafmagnsframleiðslu.
- Sjóhola er vinnsluhola til að dæla upp jarðsjó sem stundum er neðan við ferskvatn.
- Kaldavatnshola er vinnsluhola til að afla neysluvatns eða vatns fyrir iðnað.
- Lághitahola, einnig nefnd heitavatnshola, er vinnsluhola til að afla heits vatns fyrir hitaveitu eða aðra notkun.
- Höggborshola. Orðið er dregið af tegund jarðbors sem notaður er við borun holunnar, svokölluðum höggbor. Við höggborun er þungur hnallur sem hangir í togvír og hann er látinn falla stöðugt á holubotninn og mylja þannig bergið smátt og smátt.
- Niðurdælingarhola, eða niðurrennslishola, er misdjúp hola til að jarðsetja vatn ýmist með dælingu eða sjálfrennsli.
- Svelghola er grunn hola til að jarðsetja skolvatn frá bor eða frá annarri starfsemi.
- Skolvatnshola er sérstök hola sem boruð er ofan í vatn til að ná í skolvatn á meðan á borun stendur.
- Förgunarhola er grunn hola til að jarðsetja vatn frá ákveðinni starfsemi, t.d. heilsuböðum.
- Rannsóknarhola, stundum nefnd könnunarhola, er hola boruð í rannsóknarskyni.
- Hitastigulshola, eða leitarhola, er rannsóknarhola boruð sérstaklega til að ákvarða hitastigul.
- Kjarnahola er sýnatökuhola boruð með demantskrónu (2-4”)
- Stefnuboruð hola er borhola sem er boruð lóðrétt í upphafi en er síðan beint að ákveðnu marki. Þetta er gert vegna umhverfis- og árangurssjónarmiða.
- Skáhola er borhola sem er ekki lóðrétt, heldur boruð á ská til að leita uppi og skera sprungur.
- Grunnvatnshola
- Vöktunarhola