Skriðtengi ÍSOR (Flexible Coupling) fékk tilnefningu Evrópska Jarðhitaráðsins (European Geothermal Energy Council) til nýsköpunarverðlauna Ruggero Bertani EGIAward 2025. Alls eru fimm fyrirtæki tilnefnd og verður vinningshafinn tilkynntur á ráðstefnunni GeoTHERM sem haldin er í Offenburg, Þýskalandi, 20.-21. febrúar 2025.
Hlekkur á frétt EGEC: https://www.egec.org/celebrating-geothermal-innovation/
Skriðtengin eru hönnuð til að minnka spennumyndun vegna varmaþenslu sem myndast í innsteyptum stálfóðringum háhitaborholna. Miklar vonir eru bundnar við að þessi nýju skriðtengi dragi verulega úr líkum á skemmdum í fóðringum, en það hefur verið talsvert vandamál til þessa.
Til þess að auka áreiðanleika mannvirkisins er hefðbundum fóðringatengjum skipt út fyrir skriðtengi. Fóðringar háhitaborholna samanstanda af um 12 m löngum stálrörum sem skrúfuð eru saman og mynda fóðringu sem í hefðbundnum holum er 800-1200 m löng. Í borun er holunni haldið kaldri með hringrásardælingu borvökva, en þegar borun er hætt og holan er tilbúin þá hitnar hún og stálið byrjar að þenjast út vegna varmaþenslu. Hitastig háhitaborholna er breytilegt eftir svæðum og því dýpi og er oftast á bilinu 250-300°C. Spennur sem myndast við upphitun fara í flestum tilvikum langt yfir flotmörk stálsins sem þýðir að efnið formbjagast. Með notkun skriðtengja er komið í veg fyrir þessa spennumyndun með því að leyfa um 15-20 mm færslu í hverju röri og efninu þannig haldið undir flotmörkum.
Jarðboranir eru um þessar mundir að bora vinnsluholu á Nesjavöllum fyrir Orku náttúrunnar og verður fyrsta framleiðsla skriðtengjanna um 80 stykki sett niður í vinnslufóðringu borholunnar. Þetta er merkur áfangi í vegferð skriðtengjanna en með því að sannreyna tæknina í borholu er komist nær því markmiði að nota tæknina fyrir djúpborunarholur þar sem vinnsluhiti gæti verið á bilinu 450-550°C. ÍSOR er þáttakandi í rannsóknarverkefninu COMPASS sem stutt er af Horizon Europe áætlun Evrópusambandsins og er leitt af Orkuveitunni og Orku náttúrunnar. Í verkefninu er leitast til að bæta hönnun djúpborunarholna sem undirbúningur fyrir borun djúpborunarholunnar IDDP-3.
![](https://isor.is/wp-content/uploads/2025/02/Flex-1024x577.jpg)