ÍSOR og Verkís tóku þátt í ferð til Indlands 1.-5. mars sl. Utanríkisráðuneytið skipulagði ferðina ásamt sendiráði Íslands í Delhi. Haukur Þór Haraldsson, viðskiptaþróunarstjóri, tók þátt í ferðinni fyrir hönd Verkís og Daði Þorbjörnsson fyrir hönd ÍSOR. Auk þess að hitta yfirvöld orkumála á Indlandi funduðu fyrirtækin tvö með indverskum og íslenskum orkufyrirtækjum sem áhuga hafa á að skoða betur möguleika á jarðhitavinnslu og -nýtingu á Indlandi.
Í heimsókninni var stofnuð verkefnisstjórn indverskra og íslenskra yfirvalda um nýtingu jarðvarma í Indlandi. Haldinn var (stofn)fundur þann 4. mars sl. en hann sátu fulltrúar indverskra orkuráðuneytisins og sendiráðs Íslands í Delhi. Auk þeirra voru á fundinum fulltrúar indverskra orkufyrirtækja sem og íslenskra fyrirtækja sem taka þátt í jarðhitaverkefnum í Indlandi, m.a. fulltrúar Verkís og ÍSOR. Verkefnisstjórninni er ætlað að efla samstarf landanna og hvetja til frekari verkefna á sviði jarðhitanýtingar en nýting jarðhita er ofarlega á dagskrá hjá stjórnvöldum í Indlandi.
Verkís er undirverktaki ÍSOR verkefni í Puga dalnum í Kasmír héraði þar unnið er að undirbúningi fyrstu jarðvarmavirkjunar þar í landi. Stendur til að halda áfram að bora tvær 1000 metra djúpar rannsóknarholur, nú í sumar, með það fyrir augum að kanna eiginleika jarðhitakerfisins þar og virkja í framhaldinu jarðhitann á þeim slóðum.
Til stendur að nýta hitann til raforkuframleiðslu, húshitunar og jafnvel matvælaframleiðslu í gróðurhúsum. Núverandi áform miða við að byrja á uppsetningu lítillar stöðvar sem mun framleiða allt að 1 MW af raforku en auka við þá framleiðslu ef vel gengur. Nýlega var sett upp einfalt gróðurhús á þessum slóðum sem nýtir yfirborðsjarðhita til upphitunar. Tilraunir þar gefa góð fyrirheit um framtíðarnýtingu.
Jarðvarmi er víða í Indlandi og möguleikar á nýtingu hans talsverðir. Fjölmörg jarðhitasvæði hafa verið skilgreind og olíufyrirtæki á Indlandi horfa nú til möguleika á nýtingu á jarðhita, bæði innan svæða þar sem þegar hafa verið boraðar olíuholur og á nýjum svæðum.
Fleiri verkefni sem snúa að jarðvarma, með aðkomu Íslendinga, eru í vinnslu en m.a. er verið að kanna hvort hægt sé að nota lághita jarðvarma í fjallahéraðinu Kinnaur í norðurhluta Indlands til að keyra gufudrifna kæliklefa fyrir epli sem þar eru ræktuð. Engar kæligeymslur eru fyrir hendi í héraðinu í dag og því neyðast bændur oft til að selja epli á lægra verði á uppskerutíma í stað þess að geta geymt þau í kælum og selt yfir lengri tíma og skapað þannig meiri verðmæti fyrir samfélagið.