ÍSOR hefur á undanförnum árum tekið þátt í nokkrum verkefnum á sviði jarðhita í Indónesíu, í samstarfi við önnur íslensk fyrirtæki, s.s. verkfræðistofurnar Mannvit og Verkís, borverktakann North Tech Energy o.fl.
Indónesía er afar ríkt af jarðhitaauðlindum en talið er að allt að 40% af jarðhita, virkjanlegum til raforkuframleiðslu í heiminum öllum, sé að finna á eyjunum. Indónesar hafa sett sér metnaðarfull markmið á sviði loftslagsmála og kolefnishlutleysis og ráðgera að hlutur jarðhitans á þeirri vegferð verði verulegur. Í því felast tækifæri til útflutnings íslenskrar sérþekkingar, sem ÍSOR hefur hug á að fylgja eftir.
Í síðustu viku tóku íslensku fyrirtækin á móti Arifin Tasrif, indónesískum ráðherra Orku og jarðrænna auðlinda. Var hann hingað kominn til að kynna sér aðstæður á Íslandi, sem jarðfræðilega svipar um margt til aðstæðna í hans heimahögum. Með í för voru m.a. Ahmad Yuniarto, forstjóri orkufyrirtækisins Pertamina og Eko Budi Lolono, forstjóri Jarðfræðistofnunar Indónesíu, ásamt sendiherra Indónesíu gagnvart Íslandi o.fl.