Á ÍSOR er einstök fagþekking og reynsla sérfræðinga á jarðvísindalegri úrvinnslu rannsóknargagna á hafsbotninum umhverfis Ísland. Samstarf stofnana og ráðuneyta á undanförnum árum hefur skipt sköpum svo að rannsóknargögn sem aflað er af erlendum og innlendum aðilum nýtist til að rannsaka hafsbotnsauðlindir og gæta hagsmuna Íslands vegna hafréttarmála.
Mikilvægt er að skýr stefna og markmið séu við skipulagningu rannsókna á hafsbotni og að leitað sé allra leiða til að afla þekkingar. ÍSOR er þátttakandi í nokkrum rannsóknarverkefnum og í undirbúningi er stórt alþjóðlegt rannsóknarverkefni á vegum IODP í samvinnu við Jarðvísindastofnun HÍ. Mikil samkeppni er á milli verkefna en vonast er til að verkefnið fái náð fyrir augum verkefnisstjórnar og borað verði hér við land árið 2024. Með því fáist borkjarnar, raunverulegt hráefni til rannsókna á hafsbotninum, sem viðbót við aðrar gerðir rannsókna.
ÍSOR var jarðvísindalegur ráðgjafi Orkustofnunar við olíuleit sem boðin var út á Drekasvæðinu á sínum tíma. Leyfin voru veitt með ýmsum skilyrðum, meðal annars um skil á rannsóknarniðurstöðum til stjórnvalda. Þótt fyrirtækin þrjú sem fengu rannsóknarleyfi hafi ekki séð sér hag í að halda olíuleit áfram skilji þetta verkefni eftir þekkingu og gögn í landinu sem séu milljarða virði. Þar að auki er fjöldi erlendra rannsóknarleiðangra, lítilla og stærri, sem fá árlega leyfi til rannsókna á hafsvæðum til við Ísland. Leyfin séu gefin út með þeim skilyrðum að rannsóknargögnum skuli skilað. Misbrestur hafi þó verið á því. Það mál sé nú komið í farveg með samningi ÍSOR við Umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Hlutverk ÍSOR er m.a. að kalla eftir skilum á þessum rannsóknum en í þeim eru falin mikil verðmæti fyrir þjóðina.
„Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Það að hafa þessi gögn hjálpar okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir í framtíðinni, hvort heldur er um sjálfbæra nýtingu auðlinda eða friðun,“ segja Steinunn Hauksdóttir og Bjarni Richter í viðtalinu.
Umfjöllun var í Morgunblaðinu um hafsbotnrannsóknir ÍSOR og stuttur útdráttur birtist á vefmiðli mbl.is
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/08/19/gognin_milljarda_virdi/
Greinin í heild er aðgengileg hér