Næstsíðasta gosskeið á Reykjanesskaga sem stóð yfir fyrir 1900-2500 árum var ekki ýkja frábrugðið því síðasta sem stóð yfir frá 800 til 1240 e.Kr. Helsti munurinn felst í því að þá varð Hengilskerfið virkt en á nútíma hefur gosvirkni þar verið minni en í kerfunum í vestri. Meðfylgjandi kort sýnir útbreiðslu hrauna frá þessum tíma.
Í Hengilskerfinu rann Nesjavallahraun bæði norðan og sunnan Hengils fyrir um 1900 árum. Eitt af því áhugaverðasta við gosið er að gossprungan teygðist út í Þingvallavatn og olli sprengigosi sem hlóð upp gjóskukeilu. Gígurinn stendur enn og heitir Sandey. Gjóskan dreifðist um næsta nágrenni Þingvallavatns, mest þó til austurs (sjá kort).
Í Brennisteinsfjallakerfinu runnu Skúlatúnshraun (líka nefnt Stórabollahraun), Óbrinnishólahraun, smáhraun austan Kistufells og Kálfadalshraun norðan við Geitahlíð. Eftir því sem næst verður komist er Skúlatúnshraunið elst hraunanna, um 2500 ára, og markar upphaf gosskeiðsins. Skúlatúnshraun og Óbrinnishólahraun runnu til sjávar í Straumsvík. Þess má geta að síðasta gosskeið hófst einnig í Brennisteinsfjöllum.
Í Krýsuvíkurkerfinu rann Afstapahraun frá um 15 km langri slitróttri gígaröð fyrir rétt rúmum 2000 árum. Hraunið ber allmörg nöfn, s.s. Eldborgarhraun og Dyngnahraun norðan til og Skolahraun, Leggjabrjótshraun, Skollahraun og Katlahraun sunnan til. Hraunið rann til sjávar bæði við norður- og suðurströnd Skagans. Kúagerði við Reykjanesbraut er þekkt kennileiti í hrauninu. Við Suðurströndina rann það allt að 2 km í sjó fram vestur af Selatöngum. Haldi fram sem horfir með gosið í Geldingadölum er ekki útilokað að Fagradalshraun leggist að eða yfir syðstu totur Afstapahrauns.
Í Svartsengiskerfinu rann Sundhnúkahraun frá um 11 km langri gígaröð og annað hraun frá gígaröð skammt vestan Eldvarpa, en það er að stórum hluta hulið yngri hraunum. Hraun þessi eru 2000-2200 ára gömul. Í Reykjaneskerfinu runnu Eldra-Stampahraun og Hörslahraun um líkt leyti. Gossprungan sem Eldra-Stampahraunið rann frá náði í sjó við Kerlingarbás á Reykjanesi og hlóðst þar upp gjóskukeila skammt frá landi. Gjóskan frá gosinu (gjóskulagið R-3) dreifðist um vestanverðan Reykjanesskaga en austan Keilis finnst hún vart (sjá kort). Rannsóknir sýna að gos í sjó, þ.e. surtseysk gos, eru yfirleitt fylgisfiskar sprungugosa á Reykjanesi.
Samkvæmt aldursgreiningum verður ekki annað séð en að Reykjanes- og Svartsengiskerfin hafi verið virk um svipað leyti fyrir 2000-2100 árum. Sama var uppi á teningnum í Reykjaneseldum 1210-1240 e.Kr. Einnig má nefna að aldursgreiningar sýna að Afstapahraunið í Krýsuvíkurkerfi er frá þessu sama tímabili. Bendir því flest til að ekki hafi liðið langur tími á milli atburða á þessum hundrað árum, vart meira en fáir áratugir. Hvort atburðarásin verði eins á því virkniskeiði sem nú er að hefjast skal ósagt látið en ekki er hægt að útiloka það.
Við tímasetningu hrauna/eldgosa frá forsögulegum tíma, fyrir búsetu í landinu, hafa menn reitt sig á gjóskutímatal og C-14 aldursgreiningar. Gjóskutímatalið fyrir Reykjanesskaga nýtist vel fyrir síðustu 4000 árin en er ónákvæmara fyrir fyrri hluta nútíma og hafa C-14 aldursgreiningar þá reynst mikilvægar. Efni til C-14 aldursgreininga er hins vegar erfitt og tímafrekt að nálgast og er fjöldi tiltækra greininga ekki mikill. Ljóst má vera að eigi að fá betri mynd af gosvirkni á Reykjanesskaga á fyrri hluta nútíma, fyrir 4000-11.000 árum, þarf að gera átak í að leita kolaðra gróðurleifa undir hraunum og aldursgreina. Eins og alkunna er hafa gömul hraun tilhneigingu til að hyljast af yngri hraunum sem gerir aðgengi að þeim sífellt verra. Sé nýtt virkniskeið að hefjast á Skaganum með tíðum hraungosum væri æskilegt að hrinda þessu verki af stað fyrr en seinna.
Texti: Magnús Á. Sigurgeirsson. Kort: Albert Þorbergsson.