Skip to content

Forstöðumaður Jarðhitaskólans

Þann 1. júlí síðastliðinn tók Bjarni Richter, jarðfræðingur og sviðsstjóri viðskiptaþróunar og markaðsmála hjá ÍSOR, við starfi forstöðumanns Jarðhitaskólans – GRÓ-GTP.
Bjarni er jarðhitasérfræðingur með yfir 25 ára reynslu og hefur starfað hjá ÍSOR frá stofnun þess. Þar á undan var hann á Rannsóknarsviði Orkustofnunar. Hann hefur einnig unnið á öðrum sviðum jarðvísinda sem og verið í framkvæmdastjórn ÍSOR til margra ára. Guðni Axelsson jarðeðlisfræðingur, sem gegnt hefur stöðu forstöðumanns GRÓ-GTP frá 2019, hverfur nú til sinna fyrri starfa hjá ÍSOR.
Jarðhitaskólinn hefur starfað frá árinu 1979 og er ein fjögurra þjálfunaráætlana sem reknar eru undir GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu. Hinar áætlanirnar eru Jafnréttisskólinn, Landgræðsluskólinn og Sjávarútvegsskólinn.
GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu starfar undir merkjum UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, og hefur frá upphafi verið ein af helstu stoðum í íslenskri þróunarsamvinnu. Miðstöðin starfar á þeim sviðum þar sem Ísland hefur sérþekkingu sem getur nýst þróunarlöndum við að stuðla að framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Nánari upplýsingar um miðstöðina má finna á vef GRÓ www.grocentre.is