ÍSOR hefur unnið með Tékknesku vísindaakademíunni í Prag frá árinu 2013, en akademían hefur rekið 17 jarðskjálftamæla á Reykjanesskaga í samvinnu við ÍSOR. Jarðskjálftamælanetið, sem kallast REYKJANET, þekur skagann nokkuð vel allt að Geitafelli í austri, sjá græna þríhyrninga á mynd. Þessir mælar hafa skráð jarðskjálfta á Reykjanesskaga samfellt síðustu árin, ásamt mælum Veðurstofu Íslands á skaganum (bláir þríhyrningar á mynd). Samvinna ÍSOR og Tékkanna síðustu 2 árin hefur farið fram innan EES styrkta rannsóknarverkefnisins NASPMON, en innan þess voru m.a. allir jarðskjálftamælarnir settir í rauntímastreymi. Til að fá betri upplausn á jarðskjálftastaðsetningum til náttúruvárvöktunar vegna jarðhræringanna sem hófust í febrúar 2021 var byrjað að streyma jarðskjálftagögnum frá 8 af 17 jarðskjálftamælum í REYKJANETI til Veðurstofunnar frá ÍSOR. Þetta er gert með sérstöku samkomulagi vegna náttúruvárvöktunar, og samanlagt hafa þessar mælistöðvar gegnt lykilhlutverki náttúruvárvöktunar á Reykjanesskaga frá því að umbrot hófust, og eins til frekari skilnings á því hvað þarna er í gangi.
Á þessum umbrotatímum hefur einn mælir, FAF austan Fagradalsfjalls, verið ómetanlegur í náttúruvárvöktun sökum staðsetningar sinnar, bæði upp á nákvæmari staðsetningu jarðskjálfta og ekki síður til vöktunar á gosóróa (sjá mynd). Nú stefnir hraunstraumurinn í yfirstandandi eldgosi hins vegar beint á FAF, svo að við reynumst nauðbeygð til þess að fjarlægja stöðina í samvinnu við Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands. Hennar verður sárt saknað! Á meðfylgjandi óróagrafi af FAF frá Veðurstofu Íslands sést vel hvenær annars vegar jarðskjálftahrinan sem fylgdi kvikuhreyfingunum hófst, og svo hvenær eldgos hófst í gær, þann 10. júlí kl. 16:40.
Á meðfylgjandi mynd eru einnig sýndar sjálfvirkar jarðskjálftastaðsetningar kvikugangsins og gikkskjálftum austan Keilis (rauðir punktar), reiknaðar í nær-rauntíma á ÍSOR, sem hóf framrás sína þann 4. júlí og náði til yfirborðs í eldgosi við Litla-Hrút í gær, þann 10. júlí.