Skip to content

Aðkoma ÍSOR að 10 MW gufuaflsvirkjun styður við orkuskipti á Dóminíku í Karíbahafi

ÍSOR og HD ehf. hafa undirritað samning við DGDC Ltd. (Dominica Geothermal Development Company Ltd.) um eftirlit með gangsetningu og rekstri 10 MW gufuaflsvirkjunar á Dóminíku í Karíbahafi. Samningurinn tekur jafnframt til samantektar og úrvinnslu gagna um viðbrögð jarðhitakerfisins við vinnslu, sem rekstraraðila virkjunarinnar ber að skila eiganda jarðhitaauðlindarinnar.

Samvinna ÍSOR og HD ehf felst í að HD leggur til sérfræðinga á sviði gangsetningar, reksturs og viðhalds jarðhitavirkjanna, en ÍSOR annast þá þætti sem lúta að gerð og eðli jarðhitakerfisins, efna- og forðafræðilegum eiginleikum þess, auk mats á viðbrögðum kerfisins við vinnslu.

Gufuaflsvirkjunin í Dóminíka

ÍSOR hefur komið að jarðhitarannsóknum á Dóminíku og veitt stjórnvöldum landsins ráðgjöf allt frá árinu 2010, sem felst meðal annars í borun og úrvinnslu gagna úr þeim sjö jarðhitaholum sem boraðar hafa verið á eyjunni. Holurnar voru allar boraðar af Jarðborunum hf. og þar af eru þrjár nýttar sem vinnsluholur og ein sem niðurrennslihola.

DGDC Ltd. starfar í umboði stjórnvalda Dóminíku og hefur umsjón með borholunum auk þess að vera eigandi jarðhitaauðlindarinnar og virkjunarinnar. 

Uppsett afl virkjunarinnar er 10 MW og mun raforkuframleiðsla hennar leysa af hólmi núverandi raforkuframleiðslu með díeselolíu. Verkefnið felur því í sér umtalsverða breytingu til hins betra í kolefnisbókhaldi Dóminíku, sem telur um 70.000 íbúa og er mikilvægt skref í átt að sjálfbærari og umhverfisvænni orkuframleiðslu á eyjunni.