Þann 5. nóvember verður haldinn opinn fundur á vegum GRÓ þekkingarmiðstöðvar um þróunarsamvinnu, Jarðhitaskólans og utanríkisráðuneytisins í samvinnu við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.
Þetta er fyrsti fundur í fundaröðinni og mun hann varpa ljósi á framlag Íslands til styrkingar á hæfni og getu í þróunarlöndum gegnum GRÓ skólana fjóra sem starfræktir eru á vegum GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu.
GRÓ er lykilstofnun í þróunarsamvinnu Íslands en á þessum fyrsta fundi verður sjónum beint að hlutverki Jarðhitaskólans (GRÓ GTP) sem stofnaður var árið 1978 og hefur það að markmiði að efla jarðhitaleit og nýtingu jarðhita í samstarfslöndum.
Hvernig skilar jarðhitafræðsla sér í sjálfbærri þróun í orkumálum í samstarfslöndum?
Hvernig hafa nemendur Jarðhitaskólans nýtt reynslu sína og þjálfun til að leiða breytingar og stuðla að nýtingu jarðhita í heimalöndum sínum?
Á þessum opna fundi munu nemendur Jarðhitaskólans miðla reynslu sinni og sýn á jarðhitafræðslu og jarðhitanýtingu til sjálfbærrar þróunar í orkumálum.
Fundurinn verður haldinn 5. nóvember kl. 12.00-13.15 í Hátíðarsalnum í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.
Viðburðurinn fer fram á ensku og er opin öllum en skráning fer fram hér: https://forms.office.com/e/rEE2znrSZt
Meðal fundargesta verða Silja Bára Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra Íslands og Peter Maina, PhD fellow frá Kenía.
Bjarni Richter forstöðumaður Jarðhitaskóla GRÓ mun stýra pallborðsumræðum.