Íslenskar orkurannsóknir og Háskólinn á Akureyri héldu í júní ráðstefnu um rannsóknir sínar með vísindamönnum úr leiðangri 396 innan The International Ocean Discovery Program (IODP) ásamt tveggja daga vettvangsferð á Norðausturlandi. Ráðstefnan fór fram dagana 17-21. júní í Háskólanum á Akureyri.
Á ráðstefnunni var rætt um helstu niðurstöður leiðangursins og nýbirtar rannsóknaafurðir, auk þess sem leitað var tækifæra og samstarfsaðila í þær framhaldsrannsóknir sem eru á teikniborðinu. Í leiðangri 396 voru teknir borkjarnar úr 21 rannsóknaborholu af sjávarbotni á Vøring-sléttunni austur af Jan Mayen-hryggnum, á svæði sem geymir einstök dæmi um eldvirkni á plötuskilum og veitir innsýn í þá ferla sem leiddu til opnunar NA-Atlantshafs og myndunar Íslands.
Megintilgangur leiðangursins var að prófa tilgátuna um að hitahámarkið við mörk paleósen og eósen skeiðanna (the Palaeocene–Eocene Thermal Maximum) hafi orðið vegna losunar kolefnis af völdum jarðvarma sem kom til vegna kvikuinnskota og/eða eldgosa sem höfðu stórfelld áhrif á loftslag jarðar fyrir um það bil 56 milljónum ára.
Á hafsbotninum úti fyrir Norðurlandi er víða að finna stórfengleg ummerki um eldsumbrot og jarðskorpuhreyfingar og úr þeim má meðal annars meta áhrif þeirra á loftslag og vistkerfi. Gögnin sem aflað var í leiðangrinum gefa nýja innsýn í bergfræði svæðisins og gera kleift að marka betur af þau jarðeðlisfræðilíkön sem skýra hraða myndun stórra storkubergsfleka og áhrif þeirra á aðlæg kerfi, sem og á hnattrænum skala. Samanburður á gögnunum undan hafsbotni við landfræðileg form á Íslandi gefur frekari innsýn í myndunarsögu svæðisins. Rannsóknir sem þessar auka skilning okkar á áhrifum stórfelldra eldsumbrota á landmótun, loftslag og lífríki, auk þess að gefa grunn að hagnýtum rannsóknum, svo sem varðandi kolefnisbindingu og jarðvarmanýtingu.
Vísindafólk leiðangurs 396 eru alþjóðlega viðurkenndir sérfræðingar frá 14 þjóðlöndum, meðal annars í hafsbotnsjarðfræði, eldfjallafræði, bergfræði, loftslagsfræði, hafsbotnsborunum og fleira.
Nánari upplýsingar veitir:
Anett Blischke, jarð- og jarðeðlisfræðingur hjá ÍSOR
[email protected]
845 9002