Undanfarið ár hefur farið fram skoðun á því hvort og þá með hvaða hætti, mætti sameina tilteknar undirstofnanir Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.
Forsagan er sú að við myndun síðustu ríkisstjórnar varð fyrrgreint ráðuneyti til en undir það heyra fjölmargar stofnanir, starfsfólkið telur vel á sjöunda hundrað og er dreift víða um land. Það blasti því við að skynsamlegt var að kanna hvort og þá með hvaða hætti mætti auka slagkraftinn, einkum með tilliti til þeirra fjölmörgu verkefna sem snúa að loftslagsmálum.
Eftir talsvert mikla vinnu á vegum ráðuneytisins var sett fram tilgáta sem gerði ráð fyrir sameiningum fjölda stofnana í þrjár. Ein þeirra nefnd „Náttúruvísindastofnun“ þar sem til greina kom að sameina Veðurstofu, Náttúrufræðistofnun, Rannsóknastöðina við Mývatn, Landmælingar og mögulega ÍSOR. Raunar var allt frá upphafi framsetningar þessarar tilgátu hafður skýr fyrirvari um það af hálfu ráðuneytisins að vegna sérstöðu ÍSOR í þessu samhengi, m.t.t. rekstrarforms og eðlis verkefna, yrði það kannað sérstaklega hvernig best mætti tryggja að ÍSOR gæti áfram þjónustað sína helstu viðskiptavini, s.s. orku- og veitufyrirtæki landsins ásamt stjórnvöldum.
Nú hefur ráðuneytið komist að niðurstöðu um að ÍSOR verði ekki sameinað öðrum í stærri A-hluta stofnun. Það er í samræmi við álit stjórnar ÍSOR, meirihluta starfsfólks og stjórnenda.
Með þeirri ákvörðun er óvissu um stöðu ÍSOR eytt og starfsemin heldur áfram óbreytt.