ÍSOR skrifaði nýlega undir samning við spænska orku- og olíufyrirtækið Repsol S.A um jarðhitaúttekt á þremur af Kanaríeyjunum, þ.e. La Palma, Tenerife og Gran Canaria. Töluvert af jarðvísindalegum rannsóknum hafa verið gerðar á eyjunum þremur á undanförnum árum. Jarðfræði eyjanna er vel kortlögð, efnasýni hafa verið tekin úr lindum og hverum og þau efnagreind. Jarðeðlisfræðilegar aðferðir hafa verið notaðar til að kortleggja einnig jarðhitann og uppruna hans á eyjunum, þá helst viðnáms-, þyngdar -og segulmælingar. Nokkrar rannsóknarholur hafa verið boraðar og þær mældar í bak og fyrir.
Hlutverk ÍSOR er að fara yfir öll gögn sem Repsol á og hefur aðgengi að, meta gæði þeirra og gagnsemi við að afmarka svæði til frekari rannsókna og mögulegrar nýtingar. ÍSOR mun einnig aðstoða við gerð hugmyndalíkana, staðsetja borholur, ásamt því að gefa mat á stærð jarðhitasvæðanna og mögulega afkastagetu. Verkið á að taka um fimm mánuði og á að ljúka fyrir lok febrúar 2023.